SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. júní 2019

Þórunn Jarla heiðruð

Menn hengja‘ ekki krossa á konur,

því kjörgripur mannanna er hann,

en alvaldur leggur sinn á þær,

og einkar vel stundum þær bera‘ ann.

Þú stríddir á meðan þú máttir,

uns máttinn var hvergi að finna,

og lagðir fram alt sem þú áttir,

af elsku til barnanna þinna.

Þannig orti Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum til móður einnar, sem bar sinn kross án þess að kvarta, af elsku til barna sinna. Með fyrstu línunni "Menn hengja' ekki krossa á konur" vísar Ólöf til þess að lengi vel voru það aðeins karlmenn sem voru heiðraðir með orðum og krossum en nú eru breyttir tímar. Á þjóðhátíðardaginn sæmdi forseti Íslands sextán Íslendinga, átta konur og átta karla, Riddarakrossi, heiðursmerki hinnar íslensku Fálkaorðu.

 

 

Meðal þeirra sem krossaðir voru er Þórunn Jarla Valdimardóttir "fyrir framlag til sagnfræða og íslenskra bókmennta". Þórunn Jarla er svo sannarlega vel að þessum heiðri komin og óskar skald.is henni hjartanlega til hamingju með heiðurinn.

Myndin af Þórunni Jörlu er tekin af heimasíðu Forlagsins.