• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Frumbirting á efni eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur


Margverðlaunaða skáldkonan Guðrún Eva Mínervudóttir las í fyrsta skiptið upp úr nýrri sögu sem hún er með í smíðum í Bókakaffinu á Selfossi.

Það var vel mætt í fallegu veðri á Hvítasunnudegi á þennan fyrsta sumarupplestur Bókakaffisins en til stendur að hafa þessa viðburði reglulega óreglulega, að sögn Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur sem hélt sköruglega utan um dagskrána. Þarna stigu á stokk auk Guðrúnar Evu, Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Kristinn Árnason, Jónas Reynir Gunnarsson, Pjetur Hafstein Lárusson og Jón Özur Snorrason.

Sagan sem Guðrún Eva las úr, og er að vinna að þessa dagana, heitir Aðferðir til að lifa af og kemur út hjá Bjarti á næsta ári. Hún er að sögn höfundar ,,einhvers konar margradda skáldsaga um sálarheill, sjálfstortímingu, hjálpsemi og siðferðisþrek fólks á ólíkum aldri. Um það hvernig líf fólks getur skarast með óvæntum hætti."

Skáld.is fékk leyfi Guðrúnar Evu til að birta kafla úr sögunni:

Þegar ég kom gangandi með hjólið eftir götunni hans Árna sá ég hann koma úr hinni áttinni með hundinn streðandi á undan sér. Hundurinn hallaði sér fram í beislið með útstæð augu af erfiði eins og hestur með kerru í eftirdragi og Árni hallaði sér aftur á bak til að eiga auðveldara með að halda aftur af honum. Við mættumst svo að segja beint fyrir utan hjá Árna.

Heitir hundurinn þinn fellibylur? spurði ég.

Alfons, svaraði Árni. Hann dró svartan skítapoka upp úr úlpuvasanum og fleygði í tunnuna, sleppti hundinum lausum, klæddi sig úr úlpunni; þunnri, svartri hettuúlpu, og hengdi á grindverkið. Hann var móður og leit út fyrir að vera pirraður. Ég var samt ekki kvíðinn eins og ég varð þegar pabbi var í slæmu skapi. Ekki af því að pabbi væri vondur við mig heldur af því að mig langaði bara svo mikið að hann elskaði mig. Mér var sama hvort ég færi í taugarnar á Árna eða ekki. Hann var bara einhver náungi sem gat ekki tamið hundinn sinn.

Sérðu eftir því að hafa ekki frekar fengið þér kött? spurði ég.

Árni hnussaði af hlátri og kleip í framdekkið á hjólinu. Það er í fínu lagi með þetta hjól, sagði hann. Þú máttir alveg hjóla á því til baka. Þú þurftir ekki að teyma það alla þessa leið.

Ég kann ekki að hjóla, svaraði ég.

Árna var brugðið. Honum þótti sýnilega mjög alvarlegt mál að ég kynni ekki að hjóla. Ég kenni þér það bara, sagði hann. Þetta hjól er næstum mátulegt fyrir þig, það er of lítið fyrir mig.

Ég veit það nú ekki, sagði ég.

Höfum við eitthvað betra að gera? sagði Árni. Ég kenndi frænku minni þegar hún var sex ára. Það tók ekki langan tíma, bætti hann við.

Ég lyfti fætinum yfir hjólið en var ekki nógu ákveðinn í hreyfingunni svo að fóturinn þvældist í stönginni og ég hefði dottið á grindverkið hefði Árni ekki gripið snöggt um axlirnar á mér og rétt mig við ásamt hjólinu.

Ég skammaðist mín fyrir að hafa dottið áður en ég var lagður af stað svo ég reyndi að finna umræðuefni sem hljómaði eins og ég hefði hugann við eitthvað allt annað. Hallur á bensínstöðinni bað mig að segja þér að hann fylgdist með þér, sagði ég.

Árni horfði á mig smástund áður en hann spurði: Hvað þýðir það?

Það veit ég ekki, svaraði ég og horfði tómlega út í buskann til að gefa til kynna algert hlutleysi.

Árni brosti út í annað. Síðan rak hann upp hlátur sem var svo hávær og smitandi að ég gat ekki annað en hlegið líka. Alfons hætti snuðri sínu í kringum þakrennuna og kom hlaupandi, stökk aftur og aftur upp í loftið og gelti. Það var gott að hlæja svona saman. Tilfinningin var öll kraumandi. Það minnti mig á það þegar við pabbi fórum upp á topp á Esjunni og hann sagði við mig að ég væri þolgóður og þrautseigur.

Regla númer eitt, sagði Árni og röddin sveiflaðist ennþá til eftir hláturinn. Er að halda í barnið en ekki hjólið.

Mér þótti undarlegt að vera kallaður „barnið“ þótt ég vissi vel að ég væri barn þar til ég yrði átján ára.

Regla númer tvö er að hindra ekki eðlilegar hreyfingar barnsins. Svo það er betra að ég haldi í bolinn þinn heldur en þig sjálfan, bætti hann við og greip hnefafylli af rauða stuttermabolnum sem var raunar af mömmu en passaði samt alveg á mig. Einbeittu þér að því að finna jafnvægið. Það er ekkert að óttast. Ég gríp þig.

Ég hjólaði af stað, skjálfhentur af fálmandi einbeitni. Framhjólið rásaði. Tilfinningin var lík því að hlaupa í myrkri. Handvegurinn skarst upp í handarkrikana. Hundurinn rauk geltandi í lappirnar á mér og teinana. Alfons, drullaðu þér inn í garð! þrumaði Árni alltof nálægt eyranu á mér. Ég byrjaði að hallast yfir á hliðina. Það heyrðist hljóð eins og bolurinn væri að rifna. Árni greip utan um miðjuna á mér og dró mig af hjólinu áður en það skall á gangstéttinni. Ég rétt stóð í lappirnar. Það var eins og ég væri smá sjóveikur, nema mér var ekkert mál að æla.

Við fundum enga rifu á bolnum. Líklega hafði losnað um saum, en það sást ekki neitt. Árni notaði göngutauminn til að binda hundinn við eina sæmilega stóra tréð í garðinum. Um leið upphófst væl og ýlfur sem var til skiptist langdregið og hjakkandi.

Ég hélt að Árni myndi losa hundinn til að binda enda á hávaðann en þess í stað hvarf hann inn í húsið og kom aftur með köflóttann trefil sem lafði úr hnefa hans og dróst eftir jörðinni. Ég fékk hálfgerða innilokunarkennd við tilhugsunina um að hann myndi líklega ekki gefast upp fyrr en ég gæti hjólað, óháð því hvað það tæki langan tíma. Skýin sem höfðu hangið yfir í allan dag voru farin að ýra úr sér pínulitlum dropum. Mér leið mjög skringilega en vildi samt ekki fara heim.

Þegar trefillinn var kominn utan um mig leið mér eins og fylgst væri með mér úr húsunum í kring. Ég sá engan úti í glugga en það gat ekki verið að við kæmumst upp með þetta óséðir.

Horfðu á götuna fyrir framan þig, másaði Árni og strekkti á treflinum. Hann hljóp eins og hann kynni það ekki almennilega. Ég ákvað að hann væri enn hlægilegri en ég og þá slakaði ég á og náði nokkurn veginn jafnvæginu. Hann hljóp með mér góðan spöl í viðbót þótt hann næði varla andanum en síðan hægði hann á sér, dró trefilinn utan af mér og eftir það heyrði ég ekki lengur hvæsið í honum og trampið heldur eintóman vind næða um eyrun. Ég var einn á hjólinu og fór hratt yfir. Húsin og garðarnir æddu hjá eins og ég væri farþegi í bíl. Stundum hallaðist ég til hliðar en þá bar ég fyrir mig fótinn og rétti mig sjálfur af. Ég var ekki lengur hræddur.

Ég hjólaði alla leið þangað sem gangstéttin endaði og þar stóð ég og horfði út á þjóðveginn, móann og kjarrið og fann rigninguna aukast. Það var ekki mikill vindur en hann stóð beint framan á mig svo droparnir lömdu andlitið og runnu ofan í hálsmálið. Mér var kalt en það var bara gott.

Ég klofaði af hjólinu, sneri því við og fór strax á bak og hjólaði aftur til baka, skrykkjótt en sigri hrósandi. Rigningin gegnbleytti bolinn minn og ég fann dropa silast á milli rasskinnanna.

Árni beið mín við innkeyrsluna, búinn að losa Alfons úr prísundinni. Hárið límdist við ennið á honum og gagnaugun. Hann var brosandi og augntennurnar í honum voru stórar og áberandi. Þú þarft að drífa þig heim og fara í þurr föt, sagði hann.

Ég lyfti fótleggnum og ætlaði af hjólinu en Árni stöðvaði hreyfinguna með því að pota í hnéð á mér. Þú hjólar auðvitað heim, sagði hann.

Hvenær á ég að skila hjólinu? spurði ég.

Þetta er hjólið þitt, svaraði Árni.

Ég kvaddi og hjólaði burt en mér datt ekki í hug að fara heim. Frelsið í lungunum var víðáttumeira en ég sjálfur. Ég hjólaði framhjá sumarbústaðahverfinu og túni þar sem hestar voru á beit. Það fór vel um mig á þjóðveginum þar til vörubíll fór fram úr án þess að hægja ferðina og munaði ekki miklu að hann strykist við mig. Þá færði ég mig niður á reiðgötuna. Þar náði ég ekki upp sömu fljúgandi ferð og á malbikinu, en kunni vel við hljóðið þegar dekkin krömdu sand og möl og sýnileg ummerkin eftir okkur hjólhestinn og mig liðuðust eins og slöngur innan um för eftir ótal hamrandi skeifuklædda hófa. Þess vegna gleymdi ég að horfa fram fyrir mig og tók ekki eftir malbikuðu heimkeyrslunni sem skar reiðgötuna í tvennt fyrr en ég var í lausu lofti yfir henni rétt áður en ég magalenti ofan í skurði. Drullugt vatnið fyllti á mér munninn og nefið þannig að ég gat ekki anna