• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Frumbirting á efni eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur


Margverðlaunaða skáldkonan Guðrún Eva Mínervudóttir las í fyrsta skiptið upp úr nýrri sögu sem hún er með í smíðum í Bókakaffinu á Selfossi.

Það var vel mætt í fallegu veðri á Hvítasunnudegi á þennan fyrsta sumarupplestur Bókakaffisins en til stendur að hafa þessa viðburði reglulega óreglulega, að sögn Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur sem hélt sköruglega utan um dagskrána. Þarna stigu á stokk auk Guðrúnar Evu, Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Kristinn Árnason, Jónas Reynir Gunnarsson, Pjetur Hafstein Lárusson og Jón Özur Snorrason.

Sagan sem Guðrún Eva las úr, og er að vinna að þessa dagana, heitir Aðferðir til að lifa af og kemur út hjá Bjarti á næsta ári. Hún er að sögn höfundar ,,einhvers konar margradda skáldsaga um sálarheill, sjálfstortímingu, hjálpsemi og siðferðisþrek fólks á ólíkum aldri. Um það hvernig líf fólks getur skarast með óvæntum hætti."

Skáld.is fékk leyfi Guðrúnar Evu til að birta kafla úr sögunni:

Þegar ég kom gangandi með hjólið eftir götunni hans Árna sá ég hann koma úr hinni áttinni með hundinn streðandi á undan sér. Hundurinn hallaði sér fram í beislið með útstæð augu af erfiði eins og hestur með kerru í eftirdragi og Árni hallaði sér aftur á bak til að eiga auðveldara með að halda aftur af honum. Við mættumst svo að segja beint fyrir utan hjá Árna.

Heitir hundurinn þinn fellibylur? spurði ég.

Alfons, svaraði Árni. Hann dró svartan skítapoka upp úr úlpuvasanum og fleygði í tunnuna, sleppti hundinum lausum, klæddi sig úr úlpunni; þunnri, svartri hettuúlpu, og hengdi á grindverkið. Hann var móður og leit út fyrir að vera pirraður. Ég var samt ekki kvíðinn eins og ég varð þegar pabbi var í slæmu skapi. Ekki af því að pabbi væri vondur við mig heldur af því að mig langaði bara svo mikið að hann elskaði mig. Mér var sama hvort ég færi í taugarnar á Árna eða ekki. Hann var bara einhver náungi sem gat ekki tamið hundinn sinn.

Sérðu eftir því að hafa ekki frekar fengið þér kött? spurði ég.

Árni hnussaði af hlátri og kleip í framdekkið á hjólinu. Það er í fínu lagi með þetta hjól, sagði hann. Þú máttir alveg hjóla á því til baka. Þú þurftir ekki að teyma það alla þessa leið.

Ég kann ekki að hjóla, svaraði ég.

Árna var brugðið. Honum þótti sýnilega mjög alvarlegt mál að ég kynni ekki að hjóla. Ég kenni þér það bara, sagði hann. Þetta hjól er næstum mátulegt fyrir þig, það er of lítið fyrir mig.

Ég veit það nú ekki, sagði ég.

Höfum við eitthvað betra að gera? sagði Árni. Ég kenndi frænku minni þegar hún var sex ára. Það tók ekki langan tíma, bætti hann við.

Ég lyfti fætinum yfir hjólið en var ekki nógu ákveðinn í hreyfingunni svo að fóturinn þvældist í stönginni og ég hefði dottið á grindverkið hefði Árni ekki gripið snöggt um axlirnar á mér og rétt mig við ásamt hjólinu.

Ég skammaðist mín fyrir að hafa dottið áður en ég var lagður af stað svo ég reyndi að finna umræðuefni sem hljómaði eins og ég hefði hugann við eitthvað allt annað. Hallur á bensínstöðinni bað mig að segja þér að hann fylgdist með þér, sagði ég.

Árni horfði á mig smástund áður en hann spurði: Hvað þýðir það?

Það veit ég ekki, svaraði ég og horfði tómlega út í buskann til að gefa til kynna algert hlutleysi.

Árni brosti út í annað. Síðan rak hann upp hlátur sem var svo hávær og smitandi að ég gat ekki annað en hlegið líka. Alfons hætti snuðri sínu í kringum þakrennuna og kom hlaupandi, stökk aftur og aftur upp í loftið og gelti. Það var gott að hlæja svona saman. Tilfinningin var öll kraumandi. Það minnti mig á það þegar við pabbi fórum upp á topp á Esjunni og hann sagði við mig að ég væri þolgóður og þrautseigur.

Regla númer eitt, sagði Árni og röddin sveiflaðist ennþá til eftir hláturinn. Er að halda í barnið en ekki hjólið.

Mér þótti undarlegt að vera kallaður „barnið“ þótt ég vissi vel að ég væri barn þar til ég yrði átján ára.

Regla númer tvö er að hindra ekki eðlilegar hreyfingar barnsins. Svo það er betra að ég haldi í bolinn þinn heldur en þig sjálfan, bætti hann við og greip hnefafylli af rauða stuttermabolnum sem var raunar af mömmu en passaði samt alveg á mig. Einbeittu þér að því að finna jafnvægið. Það er ekkert að óttast. Ég gríp þig.

Ég hjólaði af stað, skjálfhentur af fálmandi einbeitni. Framhjólið rásaði. Tilfinningin var lík því að hlaupa í myrkri. Handvegurinn skarst upp í handarkrikana. Hundurinn rauk geltandi í lappirnar á mér og teinana. Alfons, drullaðu þér inn í garð! þrumaði Árni alltof nálægt eyranu á mér. Ég byrjaði að hallast yfir á hliðina. Það heyrðist hljóð eins og bolurinn væri að rifna. Árni greip utan um miðjuna á mér og dró mig af hjólinu áður en það skall á gangstéttinni. Ég rétt stóð í lappirnar. Það var eins og ég væri smá sjóveikur, nema mér var ekkert mál að æla.

Við fundum enga rifu á bolnum. Líklega hafði losnað um saum, en það sást ekki neitt. Árni notaði göngutauminn til að binda hundinn við eina sæmilega stóra tréð í garðinum. Um leið upphófst væl og ýlfur sem var til skiptist langdregið og hjakkandi.

Ég hélt að Árni myndi losa hundinn til að binda enda á hávaðann en þess í stað hvarf hann inn í húsið og kom aftur með köflóttann trefil sem lafði úr hnefa hans og dróst eftir jörðinni. Ég fékk hálfgerða innilokunarkennd við tilhugsunina um að hann myndi líklega ekki gefast upp fyrr en ég gæti hjólað, óháð því hvað það tæki langan tíma. Skýin sem höfðu hangið yfir í allan dag voru farin að ýra úr sér pínulitlum dropum. Mér leið mjög skringilega en vildi samt ekki fara heim.

Þegar trefillinn var kominn utan um mig leið mér eins og fylgst væri með mér úr húsunum í kring. Ég sá engan úti í glugga en það gat ekki verið að við kæmumst upp með þetta óséðir.

Horfðu á götuna fyrir framan þig, másaði Árni og strekkti á treflinum. Hann hljóp eins og hann kynni það ekki almennilega. Ég ákvað að hann væri enn hlægilegri en ég og þá slakaði ég á og náði nokkurn veginn jafnvæginu. Hann hljóp með mér góðan spöl í viðbót þótt hann næði varla andanum en síðan hægði hann á sér, dró trefilinn utan af mér og eftir það heyrði ég ekki lengur hvæsið í honum og trampið heldur eintóman vind næða um eyrun. Ég var einn á hjólinu og fór hratt yfir. Húsin og garðarnir æddu hjá eins og ég væri farþegi í bíl. Stundum hallaðist ég til hliðar en þá bar ég fyrir mig fótinn og rétti mig sjálfur af. Ég var ekki lengur hræddur.

Ég hjólaði alla leið þangað sem gangstéttin endaði og þar stóð ég og horfði út á þjóðveginn, móann og kjarrið og fann rigninguna aukast. Það var ekki mikill vindur en hann stóð beint framan á mig svo droparnir lömdu andlitið og runnu ofan í hálsmálið. Mér var kalt en það var bara gott.

Ég klofaði af hjólinu, sneri því við og fór strax á bak og hjólaði aftur til baka, skrykkjótt en sigri hrósandi. Rigningin gegnbleytti bolinn minn og ég fann dropa silast á milli rasskinnanna.

Árni beið mín við innkeyrsluna, búinn að losa Alfons úr prísundinni. Hárið límdist við ennið á honum og gagnaugun. Hann var brosandi og augntennurnar í honum voru stórar og áberandi. Þú þarft að drífa þig heim og fara í þurr föt, sagði hann.

Ég lyfti fótleggnum og ætlaði af hjólinu en Árni stöðvaði hreyfinguna með því að pota í hnéð á mér. Þú hjólar auðvitað heim, sagði hann.

Hvenær á ég að skila hjólinu? spurði ég.

Þetta er hjólið þitt, svaraði Árni.

Ég kvaddi og hjólaði burt en mér datt ekki í hug að fara heim. Frelsið í lungunum var víðáttumeira en ég sjálfur. Ég hjólaði framhjá sumarbústaðahverfinu og túni þar sem hestar voru á beit. Það fór vel um mig á þjóðveginum þar til vörubíll fór fram úr án þess að hægja ferðina og munaði ekki miklu að hann strykist við mig. Þá færði ég mig niður á reiðgötuna. Þar náði ég ekki upp sömu fljúgandi ferð og á malbikinu, en kunni vel við hljóðið þegar dekkin krömdu sand og möl og sýnileg ummerkin eftir okkur hjólhestinn og mig liðuðust eins og slöngur innan um för eftir ótal hamrandi skeifuklædda hófa. Þess vegna gleymdi ég að horfa fram fyrir mig og tók ekki eftir malbikuðu heimkeyrslunni sem skar reiðgötuna í tvennt fyrr en ég var í lausu lofti yfir henni rétt áður en ég magalenti ofan í skurði. Drullugt vatnið fyllti á mér munninn og nefið þannig að ég gat ekki annað en kyngt áður en ég kraflaði mig upp á fjóra fætur og snýtti og skyrpti. Síðan stundi ég og emjaði undan högginu sem ég hafði fengið á kviðinn og þar að auki fann ég til í öðru hnénu. Sársaukinn fólst þó fyrst og fremst í vonbrigðunum og niðurlægingunni.

Kona kom hlaupandi á hnéháum stígvélum með endurskinsrönd og hélt á appelsínugulri regnkápu. Ég var staðinn á fætur og kominn upp úr skurðinum þegar hún sveipaði um mig regnkápunni. Mér þótti óþægilegt að finna drifhvítt innra byrði kápunnar loða við og drekka í sig drulluna af húð minni og fötum. Þótt það væri ekki beinlínis mér að kenna, því ekki bað ég um þessa regnkápu-meðferð.

Hún teymdi mig upp heimkeyrsluna, inn í húsið og alla leið inn á baðherbergi og talaði stanslaust á meðan. Ég heyrði allt sem hún sagði og það var á íslensku en samt skildi ég ekki orðin. Þannig skilningsleysi hafði aldrei komið fyrir mig áður. Vatn var tekið að fossa ofan í baðkarið, konan var farin og hafði lokað á eftir sér dyrunum. Einhverju seinna kom hún aftur og þá varð hún smástund kjaftstopp; af því að sjá mig standa enn í sömu sporum með leirbrúnt vatnið drúpandi af mér ofan í röndótta tuskumottu.

Háttaðu þig, vinur, sagði hún síðan og skrældi utan af mér regnkápuna. Hún hjálpaði mér úr stuttermabolnum en eftir það tók ég við mér, fór sjálfur úr buxum og nærbuxum og flýtti mér svo mikið ofan í vatnið að ég gleymdi að fara úr sokkunum. Konan settist á baðkersbrúnina þaðan sem hún þreifaði eftir fótunum á mér, fyrst öðrum og síðan hinum, til að ná sokkunum af mér. Baðið var hálffullt af froðu og þótt lyktin af henni styngi í nefið huldi hún mig þó að mestu. Ég var ekki lengur vanur því að mamma sæi mig nakinn, hvað þá ókunnug manneskja, og ég byrjaði að gráta með öllu andlitinu og hljóðum sem glumdu miskunnarlaust milli flísalagðra veggja. Ég greip fyrir nefið og stakk hausnum á kaf; þannig náði ég að hemja grátinn. Konan sat kyrr á meðan og þegar ég kom úr kafinu mjakaði hún sér í átt að hausnum á mér, tók sjampóbrúsa úr grind á veggnum og tók til við að þvo á mér hárið. Fingurnir á henni nudduðu á mér hársvörðinn af ópersónulegri færni.

Engar áhyggjur, sagði hún. Ég hef alið upp nokkra krakka og líka unnið á elliheimili. Mér finnst ekkert merkilegt að þvo fólki. Það er bara eitthvað sem þarf að gera. Hárið á þér er stíft af óhreinindum og ekki bara úr skurðinum. Ég veit svo sem að strákar á þínum aldri eru ekkert mikið fyrir að fara í bað. En það þarf að breytast fljótlega. Annars lendirðu í vandræðum. Eftir tvö þrjú ár. Skilurðu mig?

Ég skildi ekkert. Feimnin og hræðslan voru á undanhaldi en ég skammaðist mín. Ég studdi mig við vegginn til að setjast betur upp.

Jesús minn, hrópaði konan og greip hönd mína. Fingur hennar voru sleipir af sjampói. Þú mátt skola sápuna úr hárinu á meðan ég næ í naglaklippur, bætti hún við og ég heyrði hana opna skápinn fyrir ofan vaskinn. Hún settist aftur hjá mér og ég leyfði hendi minni að hvíla slakri í hennar á meðan hún klippti á mér neglurnar og skrúbbaði með naglabursta. Hin höndin fékk sömu meðferð og fæturnir líka.

Táneglurnar á þér eru svo úr sér vaxnar að þær eru byrjaðar að brotna, býsnaðist hún og ég fékk þennan venjulega sting í hjartað. Ef hún hefði sagt að mamma væri aumingi hefði ég kunnað að verjast. En við svona kafbátaárásum átti ég engin svör.

Þú mátt eiga klippurnar og þá geturðu æft þig í að gera þetta sjálfur. Þú ert orðin alveg nógu stór til þess, sagði hún og þá leið mér strax betur. Kannski var hún ekki að meina neitt í sambandi við mömmu.

Eftir baðið sat ég í eldhúsi sem var bjart þótt úti væri drungalegt. Gardínurnar voru hvítar með myndum af grænum eplum. Gólfið svart og hvítt eins og skákborð. Borðið og stólarnir úr dökkbrúnum viði. Mér fannst þetta allt saman fallegt. Á borðinu fyrir framan mig var mjólkurglas og ristað brauð með osti og sultu. Ég borðaði varlega til að skíta ekki út ljósbláu íþróttafötin sem konan sagði að ég mætti eiga.

Þegar ég flutti hingað, hélt ég að það væri góð hugmynd að fara út að hlaupa, sagði hún. En ég hef ekki tíma til þess og svo nenni ég því ekki. Þessi föt eru alveg heil og ónotuð og svo passa þau ekki lengur á mig. Ég hef aðeins stækkað á þessum sex árum.

Hún settist ekki niður með mér heldur var á þönum á meðan hún talaði við mig. Gekk frá úr uppþvottavélinni. Þurrkaði af borðum og bekkjum. Síðan fór hún fram og kom aftur með síma í hendinni: Á ég að hringja í mömmu þína eða pabba og biðja þau að sækja þig? spurði hún.

Pabbi á heima í Reykjavík og mamma er lasin, svaraði ég.

Hún kinkaði kolli: Ég skutla þér bara heim.

Ókei, svaraði ég. Mér var ennþá illt í hnénu, mig verkjaði í vöðvana aftan á lærunum og úti var grenjandi rigning. Ég tuggði brauðið og horfði út um gluggann á þrjú ferköntuð smáhýsi. Þau litu út fyrir að vera ný og á milli þeirra lágu hellulagðir stígar. Í stórum leirpottum blómstraði skrautkál og skjaldflétta. Gróðurinn nötraði og bældist undan ágangi vatnsveðursins.

Átt þú þessa hesta? spurði ég þegar við vorum sest inn í bílinn hennar; bláan pallbíl. Strigaskórnir mínir voru hreinni en þeir höfðu verið lengi, en þeir voru enn rakir eftir þvottinn og ég fann hvernig þunnu, hvítu sokkarnir sem konan gaf mér drógu í sig sápuvatnið.

Nei, en ég á hænurnar þarna og nokkrar endur, svaraði hún og benti á kofa umkringdan háu vírneti. Við siluðumst niður heimkeyrsluna þar til við námum staðar hjá nýja hjólinu mínu sem lá á miðri götunni. Konan fór út og dröslaði hjólinu upp á bílpallinn. Rúðuþurrkurnar voru alveg á fullu. Þegar hún kom aftur inn í bíl sagði hún: Þetta hjól er of stórt fyrir þig.

Það er næstum því mátulegt, svaraði ég.

Við ókum í þögn fyrir utan drunurnar í hlussustórum dropunum þegar þeir buldu á bílþakinu og framrúðunni. Á mælaborðinu lágu grænir vinnuhanskar, götóttir og upplitaðir. Mig langaði mjög mikið að vita hvað væri í hanskahólfinu en grunaði að það væri ókurteisi að forvitnast.

Konan ók hægar en pabbi en af meira öryggi en mamma. Hún horfði þunglega út um framrúðuna og allt í einu óttaðist ég að hún væri döpur mín vegna. Ég vísaði henni til vegar og hún lagði bílnum beint fyrir framan útidyrnar heima. Ég ætla að koma með þér inn og tala aðeins við mömmu þína, sagði konan. Ef hún hefði verið alveg ákveðin hefði ég ekki sagt neitt. En ég skynjaði óvissuna.

Ekki gera það, bað ég.

Hvers vegna ekki? spurði hún og horfði einkennilega á mig.

Hún er með hausverk og kannski er hún sofandi, sagði ég.

Konan kinkaði hægt kolli og hafði ekki af mér augun á meðan. Vertu blessaður, sagði hún.

Hjólið mitt, sagði ég.

Það hefur gott af því, svaraði hún og beraði tennurnar í skökku brosi.

Ég opnaði dyrnar og steig út í rigninguna. Konan kom líka út og opnaði pallinn að aftan. Það er enginn standari á þessu hjóli, sagði hún.

Ég veit það, svaraði ég og teymdi hjólið heim að húsinu svo ég gæti látið það hallast upp að húsveggnum.

Vertu blessaður, sagði konan aftur.

Takk fyrir mig, svaraði ég.

Ekkert mál, vinur, svaraði hún og snaraði sér inn í bíl.

Ég fór og lagðist upp í rúm hjá mömmu.

Mikið er góð lykt af þér, sagði mamma og það var eitthvað í röddinni, eitthvað bjart. Ég ætlaði einmitt að fara að elda kvöldmatinn, bætti hún við. En þegar hún stóð á fætur sá ég að það var með erfiðismunum. Hún klæddi sig stirðlega í peysu utan yfir náttfötin og staulaðist fram. Ég varð eftir inni í rúmi. Ég held að ég hafi sofnað.

Myndin af Guðrúnu Evu er fengin af síðu Bókakaffisins