• Soffía Auður Birgisdóttir

Verðmætasta Íslandssagan


Endurminningar Ingunnar Jónsdóttur á Kornsá, Bókin mín, hlutu góðar viðtökur þegar þær komu út árið 1926, þegar Ingunn var rúmlega sjötug. Sigurður Nordal kvað bókina vera sanna, einlæga, blátt áfram, skemmtilega og spaklega. Sigfús Halldórs frá Höfnum taldi næstu bók Ingunnar, Minningar (1937) vera „svolítið meistaraverk“. Jóhannes úr Kötlum ritaði meðal annars um þriðju bókina, Gömul kynni (1946) að það væri „hinn hlýi, kyrrláti andi mæðra vorra, sem svífur yfir þessari bók“ og hann hélt áfram: „manni verður einkennilega notalegt í skapi, eins og hin aldna kona sitji við hlið manns í skammdegisrökkrinu og dragi dýrgripi reynslu sinnar upp úr djúpi liðinnar ævi.“ Einhver ónafngreindur skrifaði í blaðið Tímann um bækur Ingunnar: „Ég hygg, að ekki sé til önnur verðmætari Íslandssaga en einmitt þessar bækur, það sem þær ná". Ingunn er komin í skáldatalið og má lesa um hana hér.