Ljóð minna ljóða eftir Steingerði Guðmundsdóttur

27.5.2019

 

Ljóð minna ljóða er eftir hina fjölhæfu listakonu Steingerði Guðmundsdóttir sem þekktust erfyrir leiklistarstarferil sinn. Hún starfaði einnig sem leikhúsgagnrýnandi og stundaði myndlist, leikritun og ljóðagerð. Steingerður var íslenskur módernisti á umbrotatímum og nam bæði hér á landi, í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Bretlandi á 4. og 5. áratugnum.


„Steingerður fyllir flokk módernista í ljóðagerð sinni en hún tilheyrði jafnframt þeirri kynslóð listakvenna sem þurfti að berjast talsvert fyrir því að njóta viðurkenningar til jafns við karla (...) Ljóð hennar bera vott um viðkvæma lund, trúarþörf og hrifnæmi, þau eru hófstillt og laus við beiskju og hinn óhefti leikur með ljóðformið vitnar bæði um listræna dirfsku og leitandi hug.“  Svo kemst Halla Kjartansdóttir að orði í formála bókarinnar Bláin sem geymir úrval ljóða Steingerðar. Bókin komið út árið 2004 hjá JPV forlagi.

 

Eftirfarandi ljóð kemur út seinna á ferli hennar, í bókinni Fjúk árið 1985. Hér veltir skáldið fyrir sér skáldskapnum og hvernig hún er ætíð að reyna að fanga eitthvað handan ljóðsins í ljóðinu sjálfu. Steingerður bregður hér upp mynd af því sem leitar á skáldið. Þránni eftir að fanga það í ljóði, finna réttu orðin og skrifa hið fullkomna ljóð. Í flókinni veröld mannlegra bresta, sorga og missis, vonar og þrár er það á endanum er hið einfalda, náttúran og tengingin við hana, sem hugsanlega geymir svarið. 

 

 

 

Ljóð minna ljóða

 

Hvað dvelur þig
ljóð minna
ljóða?
Ljóðið
stóra
með stjörnublik
í auga -
visku
á vör
eld
í æðum.
Er vængur þinn
særður?
Í veröld
þú nærð ekki
flugi.
Er það hatur
og stríð
í heimi -
sem heftir för?

Er það blæðandi
und
barns
og
móður -
eða
bergmálsvana
hróp
fangans?
Frelsisins
skerðing
Réttar
brot.
Er það litleysi
dags
frá
degi -
eða
draumvana
nótt?

Hvað dvelur þig
ljóð minna
ljóða
með litverpa
brá?

Legg við
hlustir.
Lít ei
langt
yfir
skammt.

Enn syngur
foss
með
fjallþungum
kliði -
enn grær
blóm
á bala
björk
í skógi -
enn byggir
fugl
hreiður
fiskur
iðar
í sjó.

Meðan
þögn
býr í
fjalli
fegurð
í línu
og lit -
meðan
himinn
minnist
við haf -
á
streymir
til óss -
meðan
stjarna
vakir
og
sál
tengist
sál -
átt þú
ljóð minna
ljóða
sindrandi
bjarta
von -
von
um
vængtak
af
heiðblárri
tjörn
sefans.

Ef til vill
leynist
ljóðið
stóra
í lágróma
kvaki
fugls
í mó.

 


 ---

 

Fjúk, Menningarsjóður, Reykjavík 1985.

Nánari upplýsingar um Steingerði Guðmundsdóttur er að finna í Skáldatali.


 

Facebook
Líka við
Please reload

Please reload

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband