• Soffía Auður Birgisdóttir

Camille Paglia, Madonna og Susan Faludi

FERSKUR STRAUMUR EÐA FORNALDARFNYKUR?


Í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1993, birtist grein um hina bandarísku ítölsk-ættuðu söngkonu Madonnu eftir hina bandarísku ítölsk-ættuðu fræðikonu Camille Paglia. Greinarkorn þetta þýðir þáverandi ritstjóri Árni Sigurjónsson og fylgir hann þýðingu sinni úr hlaði með kynningu á höfundi. Í lok þeirrar kynningar má lesa áskorun Árna til íslenskra kvenna að tjá sig um málflutning Camille Paglia; hann spyr hvort skoðanir hennar veiti ferskum straumum inn í réttindabaráttu kvenna eða hvort hún spilli fyrir henni. Þessi skrif mín hér eru hugsuð sem viðbrögð við áskorun Árna.


Camille Paglia vakti nokkra athygli í Ameríku í fyrra og hittifyrra fyrir miklar og ögrandi yfirlýsingar sínar um bandaríska samtímamenningu, þjóðfélagsmál ýmis og listir. Haustið 1992 birtust viðtöl við hana í ótal blöðum og tímaritum og hún var tíður gestur í kjaftaþáttum (talk-shows) hinna ýmsu sjónvarpsstöðva. Ég bjó í Bandaríkjunum á þessum tíma og það gerði mér kleift að fylgast vel með hröðu klifri Camille Paglia upp frægðarstigann. Margt í málefnaflutningi Paglia var athyglisvert og umræðuvert. Hér á ég einkum við skoðanir hennar á innviðum bandarískra háskóla, kenningar hennar um listir, rokktónlist og kvikmyndaiðnaðinn, svo fátt eitt sé nefnt. En þessi angi umræðunnar vakti af einhverjum orsökum ekkert sérstaklega áhuga fjölmiðla, þeir höfðu engan sérstakan áhuga á að kynna sér nánar álit og skoðanir Pagliu á alþýðumenningu samtímans. Þeir höfðu heldur engan sérstakan áhuga á að kynna sér kenningar hennar um birtingarmyndir og þróun kynferðishugmynda í vestrænum listum og bókmenntum sem hún setti fram í bókinni Sexual Personae.


Það sem vakti fyrst og síðast athygli fjölmiðlanna var hvað Camille Paglia hafði að segja um femínista, um mismunandi eðli kynjanna, um nauðganir og almennt um þau málefni sem kvenfrelsiskonur beita sér fyrir. Og hverju bar að þakka þennan skyndilega ógnaráhuga fjölmiðlanna á kvenfrelsismálum? Jú, eina ferðina enn höfðu þeir fundið konu sem var tilbúin til að tjá sig um hið 'sanna eðli' karla og kvenna og til að níða skóinn af femínistum. Þegar slíkan hval rekur á fjörur fjölmiðlanna eru þeir undantekningarlaust fljótir að taka við sér (ég bendi á áhuga íslenskra fjölmiðla á Rósu Ingólfsdóttur sem hefur svipaðar hugmyndir um 'eðli' kynjanna og Paglia). Áhugi bandarískra fjölmiðla á Camille Paglia kom fáum á óvart — en ég verð að viðurkenna að nokkurt undrunarefni fannst mér að sjá hana kynnta og þýdda í íslensku bókmenntatímariti.


Í kynningu sinni á Camille Paglia segir Árni Sigurjónsson að hún hafi fyrst vakið verulega athygli með bók sinni Sexual Personae. Sú bók er fræðirit eftir Paglia þar sem hún stiklar á stóru í nokkrum verkum lista- og bókmenntasögu Vesturlanda og reynir að lesa út úr þeim hugmyndir um kynferði og kynlíf og tengsl þeirra við náttúruna, trúna og siðmenninguna. Í þessu verki sínu leiðir Paglia saman bókmenntir, listasögu, trúarbragðafræði og sálfræði á ákaflega hefðbundinn og ófrumlegan hátt og til grundvallar allri túlkun hennar liggja goðsögur og sálgreining, enda yfirlýstur tilgangur hennar að leiða saman þá Frazer og Freud.


Þótt Paglia leggi mikið á sig til að vera ögrandi og ganga gegn viðteknum skoðunum almennings er reyndin engu að síður sú að túlkun hennar er afskaplega gamaldags og íhaldssöm. Heimssýn hennar er ennfremur sótt til Nietzsches, nánar tiltekið til hugmynda hans um tvískiptingu mannlegs eðlis í appólóníska og dýonýsíska þætti sem sífellt takast á og birtast okkur meðal annars í listum. Þessi aðferðafræði, þ.e. greining á list út frá fornum mýtum og steríótýpum samblandað einföldunum upp úr Freud og Nietzsche er gamalgróin og blómstraði til að mynda á hippatímabilinu í Bandaríkjunum, enda er Paglia af 68-kynslóðinni (fædd 1947) og bera allar kenningar hennar og skoðanir þess glöggt merki (þó með þeim formerkjum að hún er mjög hægrisinnuð).


Það var því kannski ekkert einkennilegt að Camille Paglia ætti í erfiðleikum með að fá þetta fræðirit sitt útgefið. Það var tilbúið frá hennar hendi árið 1981 en fékkst ekki útgefíð fyrr en 1990; eða ekki fyrr en andófið gegn kvenfrelsismálum var komið á fullt skrið í Bandaríkjunum. Camille Paglia hefur viðurkennt (í viðtali við tímaritið New York) að hún álíti vinsældir „akademísks femínisma" og vaxandi gengi franskrar síðformgerðarstefnu (post-strúktúralisma) helstu ástæður þess að bók hennar fékkst ekki útgefin. Og þegar henni hafði verið hafnað af sjö útgáfufyrirtækjum byrjaði hún að hugsa til hefndar gegn háskólamenntuðum „femínistum".1


Það kom líka á daginn að það var ekki efni Sexual Personae og kenningar þær sem hún setur þar fram sem komu Camille Paglia í kastljós fjölmiðlanna, eins og áður sagði, heldur var það vilji hennar til að úthúða bandarískum háskólum, franskri samtímaheimspeki og „femínistum", ásamt þörf hennar til að slá um sig með ögrandi yfirlýsingum um viðkvæm málefni eins og nauðganir, fóstureyðingar, klám og eiturlyfjaneyslu. Á árunum 1990 til 1992 birtust í bandarískum fjölmiðlum fleiri hundruð viðtöl við og greinar um og eftir Camille Paglia: í dagblöðum, glans-tímaritum, kvennablöðum, karlablöðum, listaog menningartímaritum og hún var gestur í ótal sjónvarpsþáttum. Frægð hennar fór vaxandi eftir því sem hún gekk lengra í yfirlýsingum í ögrandi æsifréttastíl. Eins og óhjákvæmilegt er í sjónarspili af þessum toga, þar sem spilað er á sjokk áhrif og áhersla lögð á ögrun og töffaraskap, er málflutningur Camille Paglia fullur mótsagna og mjög auðvelt er að sjá misfellurnar, rangfærslurnar og klisjurnar sem hún hamrar stöðugt á. Enda kom á daginn að þótt fjölmiðlarnir hömpuðu Camille Paglia um stund og hentu slagorð hennar á lofti þá urðu margir til að svara henni og ummæli hennar voru hrakin svo oft að flestir voru búnir að fá nóg af karpinu.Og er þá við hæfi að kynna til sögunnar aðra bandaríska konu, Susan Faludi, og bók hennar Backlash. The Undeclared War Against Women, sem ég ætla að kalla Andófið á íslensku. Bók Susan Faludi, sem kom út 1991 í Bandaríkjunum og var á metsölulistum þar mánuðum saman, var gjarnan stillt upp við hlið bókar Camille Paglia í fjölmiðlaumræðunni í Bandaríkjunum, þær bornar saman, látnar „ræðast við" (reyndar sá ég einnig sjónvarpsþátt þar sem þær Paglia og Faludi voru báðar gestir og ræddu ágreiningsefni sín).


Susan Faludi sem er fædd 1960 hefur starfað sem blaðamaður um árabil og hlaut hún Pulitzer verðlaun sem veitt eru fyrir greinaskrif árið 1991. Arið 1992 hlaut bók hennar Andófið verðlaun gagnrýnenda (National Book Critics Award). Andófið er heljarmikill doðrantur, tæpar 600 blaðsíður, og þar greinir Faludi frá niðurstöðum fjögurra ára rannsókna sinna á því meðvitaða og ómeðvitaða andófi gegn kvenfrelsi og réttindum kvenna sem hún segir að farið hafi fram í hinum vestræna heimi á níunda áratugnum. Faludi rannsakaði þetta andóf í afþreyingariðnaðinum, í fjölmiðlunum, innan stjórnkerfisins, háskólanna og á hinum almenna vinnumarkaði. Hún fer í saumana á ýmsum samtímamýtum um nútímakonur, sýnir fram á skipulagðar falsanir í akademískum 'rannsóknum' og skoðanakönnunum um hag og stöðu kvenna.


Bók Faludi er vel kynnt í apríl-hefti tímaritsins Veru 1993 og vil ég benda á að þar er einnig fjallað um andóf gegn kvenfrelsi og réttindum kvenna á íslandi á síðasta áratug. Um leið og ég vísa á Veru, tímarit um konur og kvenfrelsi, langar mig að kasta fram þeirri áleitnu spurningu hvernig standi á því að enn þann dag í dag þurfi sérrit kvenna til að kynna bækur eins og Andófið og málefnaflutning eins og þann sem Susan Faludi hefur fram að færa?2


Og þá um leið hlýtur að vakna sú spurning hvernig standi á því að Camille Paglia hljóti svo gagnrýnislausa umfjöllun í Tímariti Máls og menningar? Þótt ég vilji gera flest til að varast hugsanir um andóf gegn femínistum á síðum þessa virta bókmenntatímarits, get ég ekki neitað að grunsemdum er sáð í hugann þegar litið er til nokkurra hefta síðastliðinna ára þar sem lítið hefur farið fyrir femínískum túlkunum, en þeim mun meira hefur verið af skammargreinum um bókmenntatúlkanir 'freudískra femínista'.


Lítum aftur á greinina "Madonna — loksins sannur femínisti." Það er athyglisvert að fyrirsögnin er ekki komin frá Camille Paglia, eins og ætla mætti, heldur er þetta fyrirsögn sem Árni Sigurjónsson velur (enska fyrirsögn greinarinnar er "Madonna I: Animality and Artifice"). Greinin fjallar um ákveðið tónlistarmyndband Madonnu, "Justify My Love," sem höfundi fínnst "klámkennt, . . . úrkynjað. Og frábært." Um þetta myndband segir einnig síðar: "J"ustify My Love" er ógnvekjandi, lostakennd svipmynd af útlifuðum tvíkynjungum, sem eru innlyksa í öngstrætum hins úrkynjaða. Sefjandi myndirnar eiga sér hliðstæðu í sadómasókískum kvikmyndum... ." (TMM, 1993:1, bls. 86).


Þessi athyglisverða greining Camille Paglia á þessu áhugaverða myndbandi Madonnu verður henni svo tilefni til að tjá sig um dómgreindarleysi 'femínista' (sem hún fullyrðir að hafi allar verið "heifúðugir andstæðingar Madonnu frá upphafi" (86)) og slæman smekk þeirra á karlmönnum! Madonna er hinn sanni femínisti, segir Camille Paglia, hún "hefur kennt ungum konum að vera að fullu kvenlegar og kynferðislegar en hafa jafnframt fulla stjórn á lífi sínu. Hún sýnir stúlkum hvernig þær geta verið aðlaðandi, hrífandi, kraftmiklar, metnaðarfullar, ágengar og sniðugar — allt í senn" (86). Og hvers vegna er Madonna svona góður kennari ungra stúlkna? Jú, það er af því að hún "hefur mun dýpri sýn á kynlíf en femínistar" (87). Og það er hvorki meira né minna en í þessari djúpu sýn Madonnu á kynlífið sem "framtíð femínismans" er fólgin! Það er eins gott að femínistar allra landa sameinist nú um að dusta rykið af Madonnuplötunum og hefji endurskoðun á hugmyndafræðinni.Það þarf ekki lengi að lesa í greinasafni Camille Paglia, Sex, Art, and American Culture, þaðan sem umrædd grein er komin, til að sjá að hrifning hennar á Madonnu er sjálfshrifning. Þetta verður ljóst af endurteknum samanburði Camille Paglia á Madonnu og sjálfri sér. Hún leggur áherslu á að þær komi frá sams konar bakgrunni, hafi sama tónlistarsmekk, séu báðar "pabbastelpur," o.s.frv. Þetta afhjúpast í setningum á borð við: "She is an Italian, Catholic, like me." "Like me, she sensed the buried pagan religiosity in disco." "Madonna, like me, is drawn to drag queens... ."3


Árni Sigurjónsson lýkur grein sinni um Camille Paglia með því að íhuga þá 'áleitnu spurningu' hvort Paglia "Veiti ferskum straumi inn í réttindabaráttu kvenna eða hvort hún spilli fyrir henni" (90). Það má vera ljóst orðið að mín skoðun á málflutningi Camille Paglia er að hann sé fyrst og fremst sjónarspil athyglissjúklings sem eigi lítið skylt við réttindabaráttu kvenna. Skoðanir hennar á kyneðli karla og kvenna sem grundvallaðar eru á ævagömlum mýtum og steríó-týpum veita engum ferskum straumi inn í umræðu um samskipti kynjanna í samtímanum — af þeim leggur öllu heldur fornaldarfnyk.


Neðanmálsgreinar:

1 Sjá Susan Faludi, Backlash, The Undeclared War Against Women, London: Vintage Books, 1992, bls. 352-353.

2 Einnig mætti benda á fleiri bækur um sama efni, t.d. The War Against Women, eftir Marilyn French, London: Penguin Books,1992.

3 Allar tilvitnanir úr greininni „Madonna II: Venus of the Radio Waves“, úr Sex, Art, and American Culture, London: Viking, 1992.Greinin birtist í Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 1993