• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Bros og Hrútaljóð eftir Önnu S. Björnsdóttur

Ljóð dagsins eru tvö að þessu sinni og eru fengin úr ljóðabókinni Ströndum eftir Önnu S. Björnsdóttur sem kom út árið 1990. Ljóðin eiga það sammerkt að vera gáskafull; kalla fram bros og kitla hláturtaugarnar.

Bros

Dagarnir hlaupa

frá mér

eins og

litlir óþekkir krakkar.

Minning þeirra

skilur eftir

bros

á vörum mínum.

Hrútaljóð

Og svo hafið þig

hrútana hérna

sagði hún hressilega

mitt í sauðburðinum

og benti á kind

með horn

eða þekkir maður ekki

hrútana á hornunum?

Nei, þeir þekkjast aðallega

á klofinu

var svarið.

Ekkert meira

með það.

Myndin af Önnu er fengin af vefsíðunni berlinsoup.org