• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Rambað á brúninni

Hátt uppi við Norðurbrún eftir Hlín Agnarsdóttur (Salka, 2001)


Óhætt er að segja að Hlín Agnarsdóttir fari af stað með látum í sinni fyrstu skáldsögu Hátt uppi við Norðurbrún. Í fjörlegri frásögn af „þerripíunni“ Öddu Ísabellu Ingvarz ægir saman sundurleitum persónum, fjarstæðukenndum plottum og fjölbreytilegum frásagnarháttum í frásögn sem rambar á brúninni í margs konar skilningi.


Hlín hefur áður getið sér gott orð sem leikskáld og leikrit hennar Konur skelfa og Láttu ekki deigan síga, Guðmundur (samið í samvinnu við Eddu Björgvinsdóttur) teljast án efa með fyndnustu íslensku gamanleikritum sem á svið hafa farið hérlendis á síðustu áratugum. Af þeim má glöggt merkja að Hlín hefur gott auga fyrir spaugilegum hliðum samtímans og lætur vel að draga fram í dagsljósið neyðarlegar aðstæður í mannlegum samskiptum.


Tilgangur Hlínar virðist vera svipaður í þessari skáldsögu; hér er ætlunin að gera látlaust grín af samtímanum („rasskella íslensku þjóðina,“ segir víst í tilkynningu útgefenda) og draga íslenskan samtímaveruleika sundur og saman í háði og spéi. Að vissu marki tekst þetta ágætlega en frásögnin er þó afar „köflótt“ og skopið nær ekki alls staðar tilætluðu flugi og víkur reyndar á köflum fyrir uppskrúfaðri dramatík og aulabröndurum. En þegar best tekst til er frásögnin leiftrandi fyndin og háðið hittir víða í mark.


Ekki myndi ég þó skrifa undir að sú skopmynd sem Hlín dregur upp í bókinni lýsti þjóðinni allri – eða þjóðinni í hnotskurn, þvert á móti að það sé fremur afmarkaður menningarkimi sem helst verður fyrir barðinu á penna höfundar. Adda Ísabella, hin glæsilega, sjálfhverfa söguhetja sem er í forgrunni frásagnarinnar lifir og hrærist í heimi sem er hannaður af fjölmiðlum og tískutímaritum og þótt kunningjar hennar og nágrannar séu af ýmsu tagi (íslenskt/taílenskt hommapar, uppgjafa austfirskur bóndi og pólsk snyrtidama) þá er það fyrst og fremst þessi tilbúni fjölmiðlaheimur sem skapar sögusvið og ádeiluramma frásagnarinnar.


Að þessu leyti minnir sagan mjög á skáldsögu Hallgríms Helgasonar frá 1994: Þetta er allt að koma. Söguhetja Hallgríms, Ragnheiður Birna, og Adda Ísabella eiga margt sameiginlegt. Óheft frásagnarflæðið minnir líka á sögu Hallgríms þótt stíll þessa tveggja höfunda sé mjög ólíkur. Á meðan Hallgrímur er sjálfum sér mjög samkvæmur í stíl í öllum sínum verkum væri hægt að líkja stíl Hlínar við kamelljón því hún skiptir sífellt um ham; framan af er um hreinræktaða skopsögu að ræða; síðan tekur við lágstemmdari og alvarlegri tónn; undir lok fyrsta hluta notar hún upphafið ljóðform með góðum árangri; þá bregður fyrir kostulegri paródíu á hnignandi form hinnar íslensku minningargreinar og í kafla sem nefnist „Myrkviðurinn“ notar Hlín svokallað „hugflæði“ á frábæran hátt. Þannig mætti í raun áfram telja mismunandi stílbrögð höfundar, sem oft tengjast breyttu sjónarhorni, og er þessi sundurgerð í stíl reyndar með skemmtilegri hliðum bókarinnar, að mínu mati.


Hlín Agnarsdóttur er ekki hægt að skamma fyrir skort á hugmyndaflugi. Sundurgerð stílsins sem lýst var hér að framan á ekki síður við söguefnið sjálft. En á meðan stíltilbrigðin ljá sögunni skemmtilega fjölbreytta tóntegund grafa hinar ótal mörgu aðal- og hliðarfléttur frásagnarinnar verulega undan nauðsynlegri tilfinningu fyrir söguheild og traustri uppbyggingu söguþráðar. Hlín hefði gjarnan mátt geyma sér nokkuð af þeim fjölmörgu hliðarsögum sem hér fljóta með, til að mynda hefðu þær getað verið henni efniviður í skemmtilegt smásagnasafn síðar. Hér er ekki bara sögð sagan af Öddu Ísabellu og hennar rústuðu stórfjölskyldu; eða sagan af þerapíu-starfi hennar í rúminu heima á Norðurbrún; eða sagan af leigumeðgöngu hennar fyrir hommaparið; heldur líka sagan af Janínu hinni pólsku; sagan af hinum frelsaða Páli og kærustunni hans, Elínu lögfræðingi, og sagan af gospel-hljómsveitinni hans Páls; sagan af Huldu Benediktsdóttur grunnskólakennara, manni hennar Karli Jóhanni og syni þeirra Jonna; sagan af samdrætti Ara Ferdinands (bróður Öddu Ísabellu) og flugfreyjunnar Auðar; sagan af Huldu, fréttakonu á Skjá beinum; sagan af austfirska bóndanum Eiríki; sagan af garðyrkjubóndanum Önnu í Hveragerði – og svo mætti lengi telja.


Vissulega tengjast allar þessar sögur á einn eða annan hátt en hér hefði mátt skera burt og þétta – í þágu betri sögubyggingar og heildar. Sú saga sem mér þótti einna best lukkuð á mælistiku skopsins er frásögnin af Suðurlandsskjálftanum mikla og hvarfi Hreins, fyrrverandi eiginmanns Öddu Ísabellu, í kjölfarið. Hér nýtur húmor Hlínar sín einna best í kostulegri sögufléttu sem ber hugmyndaflugi hennar gott vitni. Það er líka í þessari frásögn (í sínum kolsvarta absúrdisma) sem Hlín fer á kostum í mismunandi stíltilbrigðum: ljóðið, hugflæðið, minningargreinin o.fl. Sagan af hvarfi Hreins og nýju lífi þeirra Öddu Ísabellu sitt í hvoru lagi eftir „dauða“ hans, ásamt þeim tveimur barnsfæðingum sem sigla í kjölfarið, hefði í sjálfu sér verið nægt söguefni í góða skáldsögu. Inn í þá sögu hefði fléttast á eðlilegan hátt saga Thorsteinssonhjónanna (hommanna) og saga HveragerðisÖnnu. Hér hefðu ritstjórar mátt sýna nýjum höfundi sínum meiri grimmd og niðurskurð, öllum til heilla!


Titillinn Hátt uppi við Norðurbrún er margræður. Hann vísar til heimilis Öddu Ísabellu um leið og hann vísar til landsins alls sem kúrir hátt uppi við norðurbrún jarðarinnar. Þá má einnig skilja á honum að söguhetjan sé „hátt uppi,“ sem eru orð að sönnu. Með þessari frumraun sinni á skáldsagnasviðinu sýnir Hlín svo ekki verður um villst að hún er afar ritfær, með hugmyndaflug á við marga og hefur glöggt auga fyrir skoplegum hliðum samtímans. En hún þarf að beita sjálfa sig meiri aga, læra að skera niður og hemja flæðið.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 21. nóv. 2001