SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. maí 2019

LAUFEY OG LÍFSBÓKIN

Ein af perlum íslenskrar tónlistar er lagið Lífsbókin, sem Bergþóra Árnadóttir flutti svo eftirminnilega. Bergþóra samdi lagið en samnefnt ljóð samdi Laufey Jakobsdóttir (1915-2004):

Lífsbókin
 
Ljúktu nú upp lífsbókinni
lokaðu ekki sálina inni.
Leyfðu henni í ljóði og myndum,
leika ofar hæstu tindum.
 
Svipta burtu svikahulu.
Syngja aftur gamla þulu
líta bæði ljós og skugga,
langa til að bæta og hugga.
 
Breyta þeim sem böli valda
breyta stríði margra alda.
Breyta þeim sem lygin lamar,
leiða vit og krafta framar.
 
Gull og metorð gagna ekki
gangir þú með sálarhlekki.

 

Hér má sjá Bergþóru Árnadóttur flytja lagið

 

Laufey rataði einnig sjálf inn í texta frægs textahöfundar og söngvara en Megas minnist hennar í Krókódílamanninum. Laufey var búsett lengi vel að Grjótagötu 12 og var hún kölluð „amman í Grjótaþorpinu.“ Hún barðist fyrir því að opnað yrði almenningsklósett á svæðinu og vildi tryggja unglingunum, sem í þá daga sóttu Hallærisplanið, öruggt skjól.

Í Krókódílamanninum segir frá því þegar ógeðfelldur maður ætlar að notfæra sér ástand dauðadrukkinnar stúlku en þá mætir bjargvætturinn Laufey, líkt og frá greinir í lokaerindum lagatextans:

. . .
er einhver sem heyrir
þó æpi ein drukkin dama
ætli nokkur heyri
þó æpi litla daman
jú allt í einu birtist
 
bjargvætturinn Laufey
blásvört í framan
krókódílamaðurinn
kemst undan á flótta
kerlingin finnur hann loks
á útidyratröppunum
lamaðan af ótta
 
ímyndiði ykkur bara
hefði Laufey ekki komið
enn ein drukkin pía
á planinu hún væri
ekki lengur hrein mey
 

Laufey barðist ævinlega fyrir rétti lítilmagnans. Auk þess að ala upp átta börn og sinna unglingunum í miðbæ Reykjavíkur var hún einn af stofnendum Kvennalistans og heiðursfélagi í Dýraverndunarfélagi Íslands, þá sinnti hún málefnum aldraðra og gegndi formennsku Torfusamtakanna um tíma. Laufey var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorði 17. júní árið 1996 og var vel að henni komin.