Ég kveiki á kertum mínum


Guðrún Böðvarsdóttir (1902-1936) var prestsdóttir, tónelsk, skáldmælt og skyggn. Hún lést ung úr berklum. Hún samdi lagið við sálminn fallega, Ég kveiki á kertum mínum, sem sunginn er í flestum kirkjum landins á föstudaginn langa. Sr. Sigurður Ægisson segir svo frá tilurð lagsins:

„Guðrún Böðvarsdóttir (Dúna Böðvars) var dóttir séra Böðvars Bjarnasonar, prests á Hrafnseyri við Arnarfjörð, og fyrri konu hans, Ragnhildar Teitsdóttur frá Ísafirði. Þegar foreldrar hennar skildu flutti Guðrún með móður sinni til Reykjavíkur. Tvo bræður átti hún, þá Ágúst og Bjarna. Allt var þetta mikið tónlistarfólk og er Bjarni þeirra þekktastur (Bjarni Bö). Þær mæðgur voru mjög samrýndar. Guðrún veiktist af berklum og milli þess sem hún var á Vífilsstöðum dvaldi hún heima hjá móður sinni og dó þar rúmlega þrítug að aldri. Nokkru eftir dauða hennar dreymir móður hennar að Guðrún (Dúna) kemur til hennar og segir: „Mamma, ég var að semja lag.“ Svo syngur hún lagið fyrir mömmu sína. Er konan vaknaði dreif hún sig að píanóinu. Hún spilaði laglínuna nokkrum sinnum til þess að festa sér hana í minni. Að því búnu náði hún í nótnapappír og skrifaði lagið niður. Þetta er hið vinsæla lag: Ég kveiki á kertum mínum. Frásögn þessa heyrði ég fyrir um 60 árum af vörum mágkonu minnar, Bryndísar Böðvarsdóttur, en hún var hálfsystir Guðrúnar Böðvarsdóttur.“

En Guðrún var ekki aðeins tónskáld heldur var hún bæði skáldmælt og ofurnæm. Nokkrum árum eftir dauða hennar kom út bók með hugleiðingum hennar um lífið og tilveruna, Dul og draumar (1944) sem hún skrifaði í veikindum sínum, bæði þegar hún dvaldi á Vífilsstöðum sér til heilsubótar og í sjúkdómslegunni heima. Þar segir m.a.:

„Nú stöndum við fyrir dyrum huga míns, ég ætla að lyfta tjaldinu ofurlítið frá og lofa þér að skyggnast inn. Skipstjórinn á sálarfleyinu mínu heitir „Vilji.“ Hann leyfir ekki landganginn, nema þeim, sem engin andleg sýkingarhætta stafar af.

Margir eru óvinirnir, sem vilja komast að og mjög eru ágengir og er „þunglyndið“ þeirra erfiðast. Er svört, drungaleg ský og dimm þoka umlykja á alla vegu, er hætta á ferðum, því að víða eru blindsker og boðar, er sálarfleyinu getur stafað alvarleg hætta af, en þau ber að varast, svo að ei illa fari, því að ekki er ávallt byr, en oft blæs sterkt á móti.

En vita á ég þann hinn mikla stóra, er vitið mér gaf, og meðan hans ljós skín yfir hugarhafið, er ég örugg. En sumir eiga vita, en villast þó.

Einn af skipverjunum heitir „Kjarkur“. Hann er ungur drengur og óharðnaður. Það var einkennilegt, hvernig ég fann hann og reyndar mesta lán, að ég skyldi finna hann. Því að það er sjaldan að manni hlotnast að hafa þann dreng í návist sinni, er örvæntingarbyljir skella yfir sálarfleyið.

− Það var eitt sinn, eftir einn vonbrigðastorminn, að ég var á gangi, döpur, þreytt og niðurdregin, eftir djúpum sálarfylgsnanna. Myrkur var þar mikið og margt óþekkt, eða órannsakað − því miður þekkjum við svo lítið okkar eigin sál. Margt lítið frækorn var þar hulið, sem vantaði bæði birtu og næringu, til að geta vaknað til lífsins − þroskast.

Ég gekk með lampa hugsunarinnar í hendinni. Á botni djúpsins dulda sá ég lítinn dreng, við glætuna frá ljósi hugsunarinnar. Það leyndist aðeins lífsmark með honum. Ég fagnaði yfir því að hann skyldi þó vera til þarna og ekki alveg dáinn, þótt lítið væri lífsþrekið, eins og hjá þeim, er oft verða fyrir áföllum. Ég tók hann með mér upp á yfirborðið, í þeirri von að hann þyrði að horfa beint framan í veruleikann, því nú var „Kjarkur“ litli búinn að fá öruggan verndara, „Viljann“ og ég vildi reyna að láta hann þroskast og dafna í skjóli hans. Oft hafði ég áður að honum leitað og fundið hann. En „Kjarkur“ litli var baldinn drengur og strauk í burt þegar mest reyndi á, því að þá vantaði strangan vilja til að gæta hans.

Kjarkur á systur, er „Viðkvæmni“ heitir. Það er lítil stúlka, ljóshærð, bláeygð og blíðlynd. Oft fellur þeim ekki vel, eins og hjá systkinum er títt. Hann vill hafa ráðin, svo að hún verður þá oft að lúta í lægra haldi og tapar við það. En við það að sigra systur sína styrkist hann. Þess vegna eiga orð skáldsins svo vel við, er það segir: „Það sem mitt þrek hefur grætt, það hefur viðkvæmnin misst.“

Nú er „Kjarkur“ litli óðum að þroskast og dafna. Þeir vinna saman í bróðerni, „Vilji“ fóstri hans og hann. −“

Guðrún samdi líka bæði lag og texta við verkið Ég er að byggja bjarta höll sem hefur heyrst í flutningi kammerkórsins Hymnodiu á Akureyri. Óhætt er að segja að þegar í lifanda lífi hafi Guðrún verið kunn fyrir tónskáldagáfu sína en ekki síður einstaka draumgáfu og dulskyggni. Dul og drauma er hægt að lesa hér, ásamt formála og minningargreinum um Guðrúnu.