• Soffía Auður Birgisdóttir

Fæðingarsögur íslenskra kvenna

Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð. Fæðingarsögur íslenskra kvenna. Ritstjórar: Eyrún Ingadóttir, Margrét Jónsdóttir, Sóley Tómasdóttir og Svandís Svavarsdóttir. Forlagið 2002

Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð er ekki bók sem maður á að gleypa í sig í einum bita. Svo haldið sé áfram að líkja lestrinum við át má segja að hér sé boðið upp á glæsilegt hlaðborð með alls konar réttum og eins og allir vita getur manni orðið bumbult á því að úða í sig öllu sem á boðstólum er – þótt það skapi kannski ákveðna nautn meðan á því stendur.


Skyldulesning fyrir fólk sem starfar í heilbrigðisgeiranum

Þessi bók er hvalreki, ekki síst fyrir starfsmenn í heilbrigðisgeiranum sem koma að málefnum barnshafandi kvenna á einhvern hátt. Bókin ætti að vera skyldulesning fyrir ljósmæður og ljósmæðurnema, lækna og hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. Þá hygg ég að foreldrar og verðandi foreldrar muni sækjast eftir að lesa bókina – og jafnvel einhverjir þeirra sem ekki eiga börn og ætla sér ekki að eiga börn því ekki er síður áhugavert að kynna sér „framandi heima“ en hina kunnuglegri.


Þessi tæplega fjögurhundruðsíðna bók hefur að geyma sjötíu frásagnir af meðgöngum og fæðingum, sagðar af mæðrunum sjálfum (og í einu tilviki föðurnum líka). Hugmyndin að bókinni er brilljant því eins og allar konur sem hafa orðið óléttar vita þá er mýgrútur slíkra sagna sífellt á sveimi meðal kvenna og heilu saumaklúbbarnir, leshringirnir, leikfimitímarnir og kvennapartýin geta farið í að segja slíkar sögur. Þó er það svo að flestar sögurnar sem óléttar konur fá að heyra eru sögur af afbrigðilegum meðgöngum og fæðingum. Það þykir kannski ekki eins frásagnarvert er allt hefur gengið „eins og í sögu“ – eiginlega missir þetta orðatiltæki merkingu sína þegar að óléttusögum kemur því þar þykir það aðallega frásagnarvert sem ekki hefur gengið „eins og í sögu“.


Mikil fjölbreytni frásagna ...

Það er því einn af mörgum kostum þessarrar bókar að hér eru sögur af öllu tagi: sögur af konum sem hafa jákvætt viðhorf til meðgöngunnar og fæðingarinnar og gengur allt vel, sögur af konum sem hafa neikvætt viðhorf til meðgöngu og fæðingar og gengur hvoru tveggja hálf brösulega, og einnig sögur af konum sem hafa jákvætt viðhorf en þurfa engu að síður að glíma við erfiðleika og konur sem hafa neikvætt viðhorf í upphafi en komast upplifa síðan fæðinguna sem frábæra reynslu. Hér eru sögur af gleði og hamingju, en einnig af harmi og sorg. Í flestum tilvikum fæða konurnar heilbrigð börn en frá því eru að sjálfsögðu undantekningar og sumar sagnanna fjalla um meðgöngur sem enda með fósturláti eða fæðingu veikra barna, og hér má einnig finna frásagnir af fæðingu andvana barna.


Fjölbreytni sagnanna verður ekki of oft tíunduð. Þessar sögur segja frá reynslu sem er ein sú persónulegasta og sérstæðasta reynsla sem hver kona getur gengið í gegnum, en um leið er þetta reynsla sem (flestar) konur eiga sameiginlega. Þrátt fyrir að þetta sé vissulega gangur lífsins – að ganga með og eignst barn – þá kemur glögglega í ljós að hver fæðing er sérstök, um það vitna ekki síst þær ‚margrabarnamæður‘ sem segja frá í bókinni. Það er líka kostur að hér er fjallað um margar og mismunandi aðferðir við að fæða barn, liggjandi á bakinu, standandi, á fjórum fótum o.s.frv., þannig að óléttar konur geta velt fyrir sér hinum ýmsu möguleikum. Þá er sagt frá heimafæðingum, fæðingum á sjúkrahúsum, í bílum, sumarbústöðum ...


... og frásagnaraðferða

En frásagnirnar eru einnig mjög fjölbreyttar í stíl og efnistökum og misvel skrifaðar, eins og við er að búast því hér er engin ritskoðun á ferðinni, heldur fær hver kona að halda sinni rödd og sínum frásagnarhætti. Í heild eru sögurnar mjög læsilegar og engin er svo hroðvirknislega skrifuð að lesturinn sé þraut. Sumar eru hins vegar svo vel skrifaðar að eftirtekt vekur og eru hrein nautnalesning. Hér má til dæmis nefna titilsöguna „Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð“. Hún er svo vel stíluð og fyndin að ég orgaði af hlátri yfir lestrinum. Höfundur þeirrar frásagnar á vonandi eftir að virkja þessa frásagnargáfu sína til stærri verka. Írónískt sjónarhorn sögukonunnar á samskipti hinnar barnshafandi konu við ljósmóður og lækna hittir svo sannarlega í mark. Hún gerir makalaust grín af háalvarlegu málefni, sem er einmitt hvernig starfsfólk í heilbrigðisgeiranum á það til að koma fram við barnshafandi konur (og líklega almennt við ‚sjúklinga‘) sem viti rúnar verur sem þeim sé heimilt að ráðskast með að vild. Reyndar er það svo að þetta atriði brennur mjög á flestum þeirra kvenna sem segja frá í bókinni. Og óhætt er að fullyrða að þótt vissulega hafi margt í þessum efnum breyst til batnaðar á undanförnum áratugum, þá vantar enn mikið upp á að ástandið sé eins og best verður á kosið.


Einnig mætti nefna hér frásögn af allt öðru tagi, frásögn sem nefnist „Frumraun“, þar sem segir frá skelfingu lostinni unglingsstúlku sem fæddi son árið 1968, löngu fyrir tímann og barnið lifði ekki af. Hér er á ferðinni afar vel skrifuð frásögn af miklum harmi sem nístir lesandann inn að beini. Ekki síst fyrir þá sök að komið er fram við stúlkuna af þvílíku skilningsleysi að það jaðrar við grimmd. Mikinn lærdóm má draga af þessari frásögn og vonandi hafa tímarnir breyst þannig að engin kona þurfi að upplifa viðlíka framkomu í sinn garð eins og sú sem þarna segir frá af miklu æðruleysi.


Krafa um virðingu og kurteisi

Mörg stef mætti draga fram sem ganga í gegnum sögur kvennanna í þessari bók, en það sem mér finnst einna fyrirferðamest er sú sjálfsagða krafa fæðandi kvenna að komið sé fram við þær af virðingu og kurteisi og þær hafðar með í ráðum í málefnum sem snerta líkama þeirra og sjálf á eins afgerandi hátt og hér um ræðir. Þá er einnig morgunljóst að sú reynsla sem hér er miðlað er ein sú djúpstæðasta og dýrmætasta reynsla sem konur upplifa og frásagnirnar því mjög persónulegar; það er ekki síst í þeirri staðreynd sem gildi þeirra liggur.


Eins og ég minntist á hér að framan er ein frásögnin skrifuð af verðandi föður. Þær hefðu gjarnan mátt vera fleiri, því það er athyglisvert að bera saman ólíka upplifun hinnar fæðandi móður og hins verðandi föðurs. Blessaðir feðurnir upplifa að sjálfsögðu einnig allt litróf tilfinninganna þegar þeir horfa upp á konur sínar fæða börn og það hefði verið gaman að fá fleiri frásagnir frá þeirra sjónarhorni.


Ólíkindaóléttur

Að lokum þetta: Fyrir nokkrum árum skannaði ég allmarga bókmenntatexta (aðallega íslenska, en einnig erlenda) í þeim tilgangi að leita að lýsingum á meðgöngu og fæðingum. Árangurinn var ótrúlega rýr. Það er nefnilega staðreynd að þessari reynslu (þótt afar algeng sé) hefur afar sjaldan verið lýst í íslenskum bókmenntum. Og þau dæmi sem ég fann voru gjarnan tilkomin úr penna karlmanna! Aðeins ein íslensk skáldsaga, að mér vitandi, hefur meðgöngu og fæðingu barns að aðalefni. Það er skáldsagan Sóla, Sóla eftir Guðlaug Arason þar sem sjónarhornið er að mestu leyti bundið við hinn verðandi föður og lýst er (andlegu) sambandi hans við fóstrið. Þá má líka nefna stórkostlega frásögn Þórbergs Þórðarsonar á ímyndunaróléttu sinni í Bréfi til Láru. Aðra kostulega frásögn af ímyndunaróléttu er að finna í skáldsögunni Það sefur í djúpinu eftir Guðberg Bergsson. Óléttulýsingar bókmenntanna eru reyndar margar hverjar lýsingar á ‚ólíkindaóléttum‘ (munið eftir Pallas Aþenu sem stökk alsköpuð út úr höfði föður síns, eða lýsingunni á fæðingu Gargantúa sem kom út um eyrað á móður sinni Gargamelu eftir að hún hefur hámað í sig ósköpin öll af mörvuðum nautsvömbum, í sögu Rabelais).


Það er merkileg staðreynd hversu fátækar íslenskar bókmenntir eru af lýsingum af eðlilegum barnsfæðingum og í ljósi þessa má segja að bókin Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð fylli glæsilega upp í tómarúm í íslenskum bókmenntum.

Ritdómurinn birtist á vefritinu kistan.is (sem lögð hefur verið niður), 10. des. 2002