• Soffía Auður Birgisdóttir

Í skugga jarðar. Framtíðarsýn Grétu SigfúsdótturÁrið 1969 kom út skáldsagan Í skugga jarðar eftir Grétu Sigfúsdóttur. Á bókarkápu segir að sagan sé framtíðarsaga sem gerist eftir aldarfjórðung frá útgáfuári, sem sagt árið 1994. Hér verður skáldsagan kynnt, heimsmynd hennar skoðuð og athugað hvernig hugmyndir höfundur hafði um framtíðina á Íslandi. Var Gréta sannspá um lífið á síðasta áratug tuttugustu aldar í skáldsögu sinni – eða skjátlaðist henni.


Þótt bækur Grétu Sigfúsdóttur hafi vakið verðskuldaða athygli þegar þær komu út – seint á sjöunda áratug tuttugustu aldar og í byrjun þess áttunda – þá fór fyrir henni eins og svo mörgum öðrum rithöfundum (ekki síst konum) að nafn hennar hefur fallið að mestu í gleymsku og bækur hennar ber sjaldan á góma í bókmenntaumræðu samtímans.


Á bókarkápu Í skugga jarðar er sögunni lýst svona:


„Í skugga jarðar er framtíðarsaga sem gerist eftir aldarfjórðung. Atburðarásin er spennandi og stíllinn býr yfir töfrum, sem heilla lesandann, svo að hann getur ekki slitið sig frá bókinni fyrr en henni er lokið. Sögusviðið er höfuðborgin og álverksmiðjan í Straumsvík, þar gerast helstu atburðir sögunnar, fjárglæfrar, valdabarátta og forsetamorð. Höfundur hefur kynnt sér tækninýjungar í þessu sambandi og eykur við því, sem vísindamenn ætla að verði algengt á tíma sögunnar. Auk þess sem saga þessi er bráðskemmtileg, býr hún yfir þægilegri kímni og napurri þjóðfélagsádeilu, sem hittir í mark, þó að hvergi sé gripið til stóryrða eða sleggjudóma. Þetta er óvenjuleg bók er mun vekja athygli allra þeirra, sem skyggnast undir yfirborð hlutanna, auk þess sem hún hefur bestu kosti raunsærrar skáldsögu, svo sem spennu, fjölbreyttan stíl og listræna byggingu.”


Framtíðarsaga – útópía


Við skulum staldra aðeins við skilgreininguna framtíðarsaga. Framtíðarsögur er nokkuð algeng bókmenntagrein erlendis, en slíkar sögur hafa verið að sækja í sig veðrið á Íslandi undanfarin ár. Fyrstu framtíðarsögurnar voru svokallaðar „útópíur“ og drógu þær nafn sitt af skáldsögu breska 16. aldar rithöfundarins Thomas More, Utopia. Þetta voru skáldverk sem lýstu fyrirmyndarríki á einhverjum tilbúnum stað, hvort sem var á jörðunni eða jafnvel á öðrum hnöttum. Elsta þekkta ritið af þessu tagi er Ríkið eftir gríska heimspekinginn Platón, og á því byggði Thomas More nokkuð þegar hann skrifaði sína útópíu, þar sem hann lýsir jarðnesku fyrirmyndarríki, sem byggt var á einhverskonar sameignarskipulagi.Slíkar útópíur – eða ólönd – bókmennta fyrri alda áttu það flestar sameiginlegt að lýsa framtíðarsamfélagi manna eins og höfundar þeirra gátu helst óskað sér að þau væru. Reyndar mátti alltaf inn á milli finna einn og einn höfund sem notaði framtíðarsagnaformið til þess að deila á samtíma sinn; höfund sem þóttist vera að lýsa fjarlægu furðulandi, en var í raun að hæðast að sínu eigin heimalandi. Á tuttugustu öldinni varð slík þróun á framtíðarsögum afgerandi; í stað þess að lýsa óskasamfélaginu lýstu þær ógnarsamfélagi – samfélagi manna á hraðri niðurleið vegna þeirrar óheillabraut þróunar sem höfundarnir töldu samtíma sinn vera á. Þetta eru nokkurs konar anti-útópíur – eða dystópíur – kannski hin einu og sönnu ólönd. Einn angi slíkra framtíðarsagna eru vísindaskáldsögur, þar sem byggt er á ímyndunarafli og vangaveltum um nýjungar í vísindum og tæknilegri þróun.


Vísindaskáldsaga


Skáldsagan Í skugga jarðar eftir Grétu Sigfúsdóttur á ýmislegt skylt við ólandssögur sem vinsælt varð að skrifa í hinum tæknivædda heimi á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Og einnig ber hún keim af vísindaskáldsögu, þar sem leitast er við að lýsa tækninýjungum eins og höfundur „hafði kynnt sér og aukið við því sem vísindamenn ætla að verði algengt á tíma sögunnar,“ eins og segir á bókarkápunni. Ekki er dregin nein dul á það á bókarkápunni að sú þjóðfélagsmynd sem dregin er upp í skáldsögunni er svört: Lýst er fjárglæfrum, valdabaráttu, spillingu og morði á sjálfum forseta lýðveldisins. Í skáldsögu Grétu er dregin upp ófögur mynd af íslensku þjóðfélagi samtímans og með þessari dökku framtíðarsýn sinni hefur hún áreiðanlega haft í huga að vara samtíma sinn við þeirri óheillabraut sem henni virtist við blasa árið 1969.


Söguþráður skáldsögunnar snýst um valdabaráttu nokkurra óvandaðra og valdasjúkra einstaklinga sem eru þó í raun og veru aðeins handbendi alþjóðlegs stóriðju-auðhrings, sem er nánar tiltekið Álfélagið sem rekur verksmiðjuna í Straumsvík. Erlendir eigendur þess og stjórnendur svífast einskis til að tryggja völd sín á Íslandi og áframhaldandi gróða. Þeir halda fund þar sem borin er upp tillaga – og samþykkt þrátt fyrir veikburða og andvana fædd mótmæli eina Íslendingsins sem á sæti í stjórn Álfélagsins – sem felst í stuttu máli í því að myrða sitjandi forseta Íslands og koma nýjum forseta handgengnum auðhringnum til valda. Þetta á að gera til að tryggja að stóriðuverið verði ekki eign íslensku þjóðarinnar, heldur haldist áfram í eigu hins erlenda auðhrings.


Áverið í Straumsvík - tákmynd hins illaÞað er athyglisvert að álverið í Straumsvík hefur í hugum margra – meðal annars fleiri rithöfunda – orðið nokkurs konar táknmynd, með skírskotun til neikvæðrar framtíðarmyndar tengdri spilltu auðvaldi. Verksmiðjan í Straumsvík var meðal annars fyrirmynd af verksmiðjunni sem er sögusvið skáldsögunnar Snörunnar eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem kom út árið 1968 eða einu ári á undan skáldsögu Grétu. Í skáldsögunni Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, sem kom út 1993, er álverið einnig vinnustaður einnar aðalpersónunnar og nokkur konar táknmynd framtíðarvinnustaðar, þótt ekki sé lögð nein áhersla á vald eða spillingu ráðamanna verksmiðjunnar í þeirri sögu. Af hverju hefur álverksmiðjan slíkt táknlegt gildi í íslenskum bókmenntum? Skýringin kann að vera að fyrirtækið var fyrsta erlenda stóriðjan á Íslandi og að því að margir hugðu upphaf stórtækra stóriðjuframkvæmda á Íslandi. Margir óttuðust áhrif slíkrar þróunar á íslenskt samfélag. Menn óttuðust jafnvel að erlend stóriðja mynda leggja íslenskan landbúnað í rúst – að iðnaður yrði aðalatvinnuvegurinn. Þessa trú má sjá í skáldsögu Grétu. Þorri íbúa landsins býr í Reykjavík eða á öðrum þéttbýlisstöðum sem risið hafa í kringum verksmiðjur. Reykjavík hefur vaxið mjög og er byggðin runnin saman við Hafnarfjörð, sem er helsti hafnarstaður landsins. Þar leggjast að flutningaskip sem flytja iðnaðarvörur til annarra landa. Sveitir landsins hafa lagst í eyði, mest vegna stóriðjuframkvæmda sem hafa mengað land og loft svo að erfitt er að stunda landbúnað.


Banaráð brugguð


En víkjum aftur að söguþræðinum. Forsetakosningar standa fyrir dyrum. Hinir erlendu auðmenn sem stjórna álverinu óttast um áhrif sín og völd og brugga hinum vinsæla, sitjandi forseta, Grími Grímssyni, banaráð til að koma til valda lepp sínum. Til verknaðarins ráða þeir mann að nafni Geir Adolf, harðsvíraðan glæpamann sem hefur ýmislegt óhreint á samviskunni. En þeir láta ekki þar við sitja heldur koma málum þannig fyrir að grunur fellur á annan mann að nafni Birgir Búason sem ekkert hefur sér til saka unnið annað en að hafa búið í Alþýðulýðveldinu í Kína um árabil. Birgir býr með kínverskri konu sinni og börnum, við fátækt og atvinnuleysi í sögubyrjun. Birgir reynist auðveld bráð glæpamannanna. Hann vantar vinnu, sem þeir útvega honum í álverinu í Straumsvík, og með kænsku sinni fanga þeir hann í svikavef sem honum mun reynast ókleift að losna úr þegar hann er handtekinn fyrir morð á forseta landsins.


Fyrir tilverknað forseta Alþingis, sem