SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. apríl 2019

19 skáldkonur - 131 skáldkarlar

Í Lesbók Morgunblaðsins frá 1975 er birt skáldatal sem hefur að geyma lista yfir þálifandi skáld sem Lesbókin birti ljóð eftir á tímabilinu janúar 1962 til september 1975. Alls eru skáldin 150 talsins en konur eru aðeins nítján – eða tæp 13%. Tekið er fram að ekki eru birt nöfn látinna skálda sem einnig áttu ljóð í Lesbókinni á þessu tímabili, né heldur nöfn ungra skálda sem áttu ekki höfðu birt eftir sig áður. Hefðu þau síðarnefndu verið með hefði hlutfallið ef til vill batnað aðeins, konum í hag, en hefðu þau fyrrnefnu líka verið með má ætla að það hefði minnkað aftur.

Tæp 13% - ekki er það mikið hlutfall kvenskálda í Lesbókinni á þessu tímabili. Það væri eflaust betra í dag – væri Lesbókin enn á lífi, sem hún er því miður ekki. Þær skáldkonur sem komast inn á listann eru ýmsar þekktar í dag – aðrar algjörlega óþekktar: Anna María Þórisdóttir, Björg Finnsdóttir, Fríða Guðmundsson, Gréta Sigfúsdóttir, Gunnvör Braga, Hugrún, Ingibjörg Þorgeirsdóttir, Jenna Jónsdóttir, Hanna Kristjónsdóttir, Nína Björk Árnadóttir, Ólöf Jónsdóttir, Sigríður Beinteinsdóttir, Sigrún Guðjónsdóttir, Steingerður Guðmundsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þóra Björk Benediktsdóttir, Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Þuríður Guðmundsdóttir.

Nokkrar þessarra kvenna eiga enn eftir að fá færslu um sig í skáldatalið okkar. Við höfum tekið saman lista yfir fleiri en 200 skáldkonur sem við eigum eftir að vinna færslur um og það bætist við skáldatalið í hverri viku. Allar upplýsingar eru vel þegnar, sem og upplýsngar um aðrar skáldkonur sem vantar í skáldatalið.