• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Saga sem leynir á sér

KULAR AF DEGI eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Mál og menning 1999

Ekki veit ég hvort Kristín Marja Baldursdóttir á sér fyrirmynd í hópi rithöfunda en óneitanlega kemur hin breska Fay Weldon upp í hugann við lestur bóka hennar. Söguefni, stíll og frásagnaraðferð Kristínar Marju minna mjög á hina frábæru Weldon – og er þar ekki leiðum að líkjast. Báðar skrifa þær Kristín Marja og Weldon texta sem gneistar af kaldhæðnislegum og ísmeygilegum kvennahúmor eins og hann gerist bestur. Söguefni beggja snerta margbrotið líf nútímakvenna sem oftar en ekki eru „töff týpur“ sem kalla ekki allt ömmu sína og láta karlmenn ekki troða sér um tær – og hyggja á hefndir ef svo ber undir. Vel má skilgreina verk þeirra beggja sem kómískar úttektir á samskiptum kvenna og samskiptum kynjanna (með kvenrembuívafi) á yfirborðinu – en fleira hangir á spýtunni.


Hvað Kristínu Marju áhrærir kom fyrsta skáldsaga hennar, Mávahlátur (1995), sem ný og fersk rödd inn í íslenskar samtímabókmenntir. Lýsingin á hinni óborganlegu aðalpersónu sögunnar, Freyju, er með fyrstu ekta ‚femme fatale‘ lýsingum íslenskra bókmennta (a.m.k. frá sjónarhóli konu), sannkölluð ísdrottning. Lýsingin á kvennafansi Mávahláturs á sér varla samsvörun í íslenskum skáldsögum og einnig dregur höfundur upp bráðskemmtilega samfélagsmynd í verkinu.


Aðalpersóna skáldsögu Kristínar Marju, Kular af degi, heitir Þórsteina Þórsdóttir. Hún er kennari „af guðs náð,“ glæsileg, einhleyp og fjárhagslega vel stæð. Þórsteina hefur sjálfsálit í meira lagi, sýnir nemendum sínum hörku, er útsjónarsöm í kennsluaðferðum og kann að snúa karlmönnum í kringum sig, ef svo ber undir. Hún vill þó fremur lítið hafa saman við þá að sælda og kýs frekar að halda kvenkyns samkennurum sínum dýrðlegar veislur að frönskum hætti.


Óneitanlega minnir karakter Þórsteinu á aðra fræga töff týpu íslenskra samtímabókmennta, nefnilega Öldu í Tímaþjófi Steinunnar Sigurðardóttur. Lengra nær þó samanburðurinn á þessum tveimur skáldsögum varla því efni og stíll þeirra Kristínar Marju og Steinunnar er afar ólíkur. Þótt báðir höfundar noti kaldhæðni af unaðslegri list má segja að aðalstílbragð Steinunnar sé ljóðræna en stíll Kristínar Marju einkennist af smellnu og hnitmiðuðu talmáli.


Kular af degi er heldur ekki ástarsaga en í henni leynist vísir að sakamálasögu. Fyrst og fremst er hér þó um að ræða kostulega sögu af einhleypri og sérvitri konu, af samskiptum hennar við karlkyns nágranna sinn, við samkennara sína og nemendur, af ‚ritúalísku‘ háttalagi hennar heima fyrir, njósnum hennar um nágranna í næstu húsum, af ferðalögum hennar í Frakklandi og fleiru.


Þórsteina lýsir „kennslufræði“ sinni á sama afdráttarlausa mátann og hún lýsir skoðunum sínum á unglingum, hjónaböndum og bókmenntum, svo fátt eitt sé nefnt. Hún unir sér við lestur orðabóka en les síst af öllu skáldsögur: „ ... ég les ekki bull í fólki“ (6). Nemendur á að beita hörðum aga, að mati Þórsteinu, enda kennir hún illstjórnanlegum unglingum sem leita sífellt færis á að klekkja á kennaranum. Þegar háttalag nokkurra afvegaleiddra nemanda Þórsteinu leiðir til harmleiks tekur hún til sinna ráða. Hér verður að sjálfsögðu ekki gefin upp flétta verksins, en látið nægja að segja að lestur þessarar stuttu en þéttu sögu er hvoru tveggja skemmtilegur og spennandi.


Frásagnaraðferð Kristínar Marju er vel sniðin að þeirri fléttu sem liggur undir yfirborðinu, svo að segja, því undir „sakleysislegu“ masi Þórsteinu um eigið líf er fólgin frásögn af glæpaverkum. Frásögnin er í fyrstu persónu og gerist á einni helgi, þótt sögutíminn spanni mörg ár í lífi Þórsteinu í gegnum upprifjanir hennar og hugleiðingar. Þórsteina kryddar frásögn sína með innskotum þar sem hún talar bæði um sjálfa sig og til sjálfrar sín. Fyrrnefndu innskotin eru til dæmis í formi viðtals, minningaræðu og ævisögu, en síðarnefndu innskotin innihalda vísanir til glæpafléttunnar og skapa spennu frásagnarinnar:


- Heyrðir þú högg Þórsteina?

- Högg? Nei ég heyrði ekkert.

- Engin högg í húsinu?

- Ég heyri bara þögnina. Kannski komu hljóðin að utan þegar kerlingarálkurnar skelltu aftur bílhurðunum.

- Komu ekki höggin úr kjallaranum?

- Því trúi ég tæpast, þar býr enginn að mér vitandi, en svona brestir berast of upp með hitaveiturörunum. (21)

Kular af degi er ekki löng saga, aðeins 136 blaðsíður, en hún leynir á sér, kemur lesanda á óvart og skemmtir honum sífellt með ísmeygilegum húmor og hinu góða auga höfundar fyrir því neyðarlega í samskiptum fólks. Það sakar heldur ekki að undirtónn sögunnar er alvarlegur og tekur á ýmsum vandamálum sem brenna á samfélaginu í dag – að vissu leyti má segja að Kristín Marja laumi inn um kjallaradyrnar bakdyramegin glúrinni ádeilu í annars létta og skemmtandi frásögn.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 1999