• Helga Kress

Gegnum orðahjúpinn - Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum


Myndskreyting: Gegnum orðahjúpinn - Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum

I Takmark ferðarinnar Í bréfi sem Haraldur Níelsson skrifaði Ólöfu Sigurðardóttur á Hlöðum tæpum mánuði eftir lát konu sinnar Bergljótar, og dagsett er í Reykjavík 14. ágúst 1915, þakkar hann henni enn og aftur fyrir samúð og segir svo:

[...] sízt má eg gleyma því, að þakka þér fyrir það, sem þú mintist á ömmu mína Guðnýju. Hana hefi eg elskað, síðan eg man eftir mér. Sorgarsaga hennar greip huga minn sem barn, og eg lærði mjög ungur hið viðkvæma kvæði hennar, sem prentað var í Fjölni. Og nú skaltu vita þetta: allri norðurferðinni var hleypt af stað, til þess að eg gæti fengið að sjá Grenjaðarstað og komið að Klömbrum, þar sem hún varð fyrir sorginni. Eg ætlaði norður í Þingeyjarsýslu frá Akureyri: ætlaði að skoða Slútnes, koma að Reykjahlíð, og halda þaðan norður að Grenjaðarstað; það var takmark ferðarinnar.1

Ferðin að Klömbrum var aldrei farin, því í þann mund sem Haraldur var að leggja af stað frá Akureyri, þar sem hann hafði dvalist um skeið við fyrirlestrahald, fékk hann tilkynningu um lát Bergljótar og sneri við svo búið heim.

Í löngu bréfi sem Ólöf skrifar Haraldi og dagsett er á Hlöðum 19. og 21. júlí 1915 vitnar hún í samtal þeirra á Akureyri nokkrum dögum fyrr um væntanlegt ferðalag hans að Klömbrum. Það er ekki aðeins að hún fylgi honum eftir í huganum „þarna norður á þjáningar-stöðvum hennar Ömmu þinnar,“ heldur gerir hún sig, með hans orðum, að ömmunni um leið og hún afsakar hvað hún hefur skrifað mikið um sjálfa sig:

Nú ertu sennilega orðinn þreyttur á að lesa þessar sjálfslýsingar, sr. Haraldur , sem ekkert er eiginlega markvert við, nema ef vera skyldi það, að þjer yrði skiljanlegri sú tilfinning þín, að þjer finnst að jeg vera Amma þín, sú sem þjer er svo einkar mæt.

Áður en Ólöf hefur lokið þessu bréfi fær hún bréf frá Haraldi, dagsett á Akureyri 19. júlí 1915, þar sem hann segir henni frá láti Bergljótar. Í því biður hann Ólöfu að „setja saman lítið ljóð“ um hana og gefur að því forskrift. Eigi það að byrja á línum sem Ólöf hafði áður sent honum, fjalla um andlátið í sambandi við akureyrardvöl hans og „vera ávarp til okkar Bergljótar beggja frá þér“. Ef marka má dagsetningar var bréfið tvo daga á leiðinni frá Akureyri til hlaða. Í samúðarbréfi Ólafar, dagsettu 21. júlí 1915, kl. 4 e.h., segist hún hafa fengið bréfið frá Haraldi fimm klukkustundum fyrr og sé þegar byrjuð á ljóðinu sem hann hafi beðið hana um:

Hvort jeg vildi geta sagt eitthvað gott nú handa þjer! Fyrst þú þá líka ljetst þjer koma til huga að óska þess. Jeg fór, auðvitað, undireins að reyna, þó mjer finnist þjer ekkert fullgott það sem að jeg get sagt, og ekki svipað því. 3 vísur eru komnar á miðann og læt jeg þær líklega fara, af því að jeg held að þær sjeu heitar, þó annars sjeu þær ekki mikils virði.2 Undir lok bréfsins huggar hún Harald með því að minnast á ömmu hans:

Jeg man ógreinilega eptir hjartnæmri sorgarsögu um Ömmu þína, Guðnýju, sem mikið var umtalað kringum mig unga, og vakti mikla samúð hjá konum. Heit og sterk ljóð voru sögð ort af henni, sem að jeg lítið man úr, en nú, innfrá, vaktist þetta alt upp fyrir mjer, af viðtali við gömul hjón sem kunnu ljóð hennar og mundu meir enn jeg um hana, og þau gáfu einnig þá upplýsingu, að yfirburðir þínir og gáfur væru frá henni komnar. Þjer er að sjálfsögðu kunnugt um þjáningar Ömmu þinnar, og alt þetta.

Það er við þessum orðum sem Haraldur bregst í bréfinu frá 14. ágúst og vitnað er til hér í upphafi. Hann spyr hver gömlu hjónin séu sem kunniljóð ömmu hans, segir frá eigin söfnun á ljóðunum og tengir ömmusystur sinni, Hildi:

Haraldur Níelsson

Eg hef safnað öllum þeim ljóðum, er menn kunna og varðveizt hafa eftir hana. Hildi systur hennar, þá gamalli konu, kyntist eg á Hafnarárum mínum, og hún fræddi mig mjög. Hildur ömmusystir mín held eg sé kristnasta, og yndislegasta konan að ýmsu leyti, sem eg hefi kynst á æfinni. Hún var mér afburðagóð árin sem eg kyntist henni. Amma mín Guðný hafði verið gædd einhverjum dulrænum gáfum, sá stundum sýnir, fann margt á sér, sagði stundum fyrir óorðna viðburði, og hana dreymdi merkilega drauma, t.d. einn um það, hve gamlar þær yrðu systurnar; rættist hann nákvæmlega. Hildur sagði mér hann sjálf, var þá ein eftir lifandi af fjórum. Því miður held eg, að lítið af gáfum hennar hafi gengið í arf til mín. En móðir mín (Sigríður Sveinsdóttir og Guðnýjar) var mjög gáfuð kona; svo var og um Jón Aðalstein albróður mömmu. En eg held eg hafi erft eitthvað af tilfinningunum frá ömmu minni. Aftur á móti nokkuð af tápi og fjöri frá föður mínum, held eg. –

Það er athyglisvert að Haraldur telur ekki til neins sérstaks skyldleika við móðurafa sinn en rekur tilfinningar sínar og viðkvæmni til kvenleika móðurömmunnar og styrkleikann til karlmennsku föðurins. Lýsingin á Guðnýju sem Haraldur hefur eftir Hildi gæti eins átt við um Ólöfu sem einnig var gædd dulrænum gáfum, sá sýnir og dreymdi merkilega drauma. Báðar voru þær skáld og í lýsingu Ólafar eru ljóð Guðnýjar „heit“ eins og hennar eigin.

Í bréfinu vitnar Haraldur í tvö kvæði eftir ömmu sína, „Á heimleið“ og „Endurminningin er svo glögg“, en bæði fjalla þau um sáran aðskilnað móður og barna. Um fyrra kvæðið segir hann og leggur áherslu á tildrög þess:

Til er vísu-brot eftir ömmu, sem eg elska og mér finst lýsa henni furðuvel: gáfum hennar, viðkvæmni, guðstrú og stillingu. Hún orti það, þá er hún var neydd til að koma mömmu minni fyrir á öðrum bæ um túnasláttinn fyrir önnum heima. Mamma var þá á 1. eða 2. ári, að mig minnir.

Hann vitnar síðan í brot úr kvæðinu sem því miður vanti línur í og segir: „Þetta er svo einfalt, en þó fallegt, og tilfinningarnar, sárar og viðkvæmar, gægjast alstaðar út gegnum orðahjúpinn.“

Þá skrifar hann upp erindi „úr einu kvæða hennar, sem margir kunna“, og er lokaerindið í því „viðkvæma kvæði“ sem hann segist fyrr í bréfinu hafa lært mjög ungur:

Vonin og kvíðinn víxlast á, veitir honum þó langt um betur, hvort börnin muni og megi hjá mér framar hafa gott aðsetur. Sú áhyggjan er söm og jöfn sælu þar til eg kemst í höfn.

Þannig er það tjáning viðkvæmra tilfinninga sem hann, kennimaðurinn, leitar að og finnur í skáldlegu tungumáli ömmu sinnar. Bréfinu lýkur hann síðan á þessum kveðjuorðum til Ólafar: „Ef við hittumst síðar á æfinni, sem eg vona, skal eg sýna þér það, er eg á til af kvæðum eftir hana.“

Í svarbréfi Ólafar, dagsettu á Hlöðum 8. október 1915, er hún uppteknari af „trúspekinni“ en gömlu hjónunum og hún svarar spurningu Haralds um þau bara óbeint og á spássíu: „húsfreyja bóndans hjer á Hlöðum var eitt ár í þjónustu Ömmusystir þinnar gömlu frú Hildar á Akureyri og segir að hún hafi margar sögur sagt sjer af ömmu þinni og þótti konunni hjerna merkilegt að heyra af mjer, að þú værir dóttursonur þeirrar frægu konu sem svo mikill orðstír fór af hjer norðanlands og kannske um land alt, sem þó ekki þá var títt um konur.“

Í bréfi, dagsettu í Borgarnesi 10. ágúst 1917, trúir Haraldur Ólöfu fyrir áfalli sem hann hafi orðið fyrir og sé honum slík hugarkvöl og hann langi ekki til að lifa lengur: „Eg ætla ekki að segja þjer meira af mínu harmsefni,“ skrifar hann. „En mikið hlakka eg til að losna við jarðlífið – það á víst að verða mjer nær því óslitin sorg.“3 Í beinu framhaldi verður honum hugsað til ömmunnar sem hann bæði samsamar sig og sækir til styrk: „Eg er dóttursonur ömmu minnar Guðýjar sem m.a. kvað þetta,“4 segir hann og vitnar í „Endurminning er svo glögg“ eins og Ólöf kunni framhaldið: „hugprýðin verður heldur smá / hjartað sorgunum léttir varla; / á morgnana kvíðvænt þykir þá / þennan að lifa daginn allan o.s.frv.“ Þannig leitast hann við að orða tilfinningar sínar á skáldlegu máli ömmunnar um leið og hún verður honum táknmynd óslitinnar sorgar.

Eins og sjá má á bréfaskiptum þeirra Ólafar skipti amman miklu máli í lífi Haralds. En það voru ekki aðeins ljóð hennar sem höfðu áhrif á hann heldur einnig ævi hennar og sorgarsaga í munnlegum frásögnum Hildar og bréfunum sem hún skrifaði systur sinni og systurdóttur.5

II Myrkt er af kvíða Ljóð Guðnýjar sem varðveist hafa eru ekki mikil að vöxtum, alls 28 í Guðnýjarkveri sem kom út árið 1951 í vandaðri útgáfu Helgu Kristjánsdóttur og með ítarlegum inngangi eftir hana. Áður, eða í meira en heila öld, höfðu ljóð Guðnýjar gengið manna á milli í fjölmörgum uppskriftum. Sýnir það vinsældir þeirra, og það kannski fyrst og fremst meðal kvenna, eins og Ólöf líka nefnir í bréfinu til Haralds 19. júlí 1915. Í handritinu „Kvennaljóðmæli“ sem hefur að geyma ljóð eftir 18 skáldkonur frá 18. og 19. öld og varðveist hefur á Landsbókasafni Íslands eru ljóð Guðnýjar höfð fremst.6 Ekkert af ljóðum hennar er til í eiginhandarriti. Að mati Helgu Kristjánsdóttur mun margt hafa glatast af skáldskap hennar „og sumt viljandi eyðilagt“.7

Guðný er fædd 21. apríl 1804 í Saurbæ í Eyjafirði, næstelst sjö systkina, og voru foreldrar hennar séra Jón Jónsson (1772-1866) og kona hans, Þorgerður Runólfsdóttir (1776-1857).8 Hún ólst upp með foreldrum sínum, fyrst á Auðbrekku í Hörgdal og síðan Stærra-Árskógi þar til þau fluttust vorið 1827 að Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu.9 Þar giftist Guðný síðsumars aðstoðarpresti föður síns, séra Sveini Níelssyni (1801-1881). Þau Guðný hefja búskap að Klömbrum austan Laxár, gegnt Grenjaðarstað, og eignast fjögur börn. Þau missa tvö þau fyrstu, soninn Jón Aðalstein, og dótturina Sigríði, bæði um ársgömul.

Guðný missti tvö börn, soninn Jón Aðalstein og dótturina Sigríði, bæði um ársgömul.

Eftir soninn yrkir Guðný þrjú ljóð, eitt þeirra í orðastað hans, ómálga barnsins, þar sem hann er látinn þakka Hildi, móðursystur sinni, fyrir umönnun og hugga hana í sorginni: „Sé ég þig / syrgja mig horfinn / af döprum hug, / mín dýra fóstra." Honum þykir leitt að geta ekki lýst fyrir henni þeirri sælu sem honum er gefin á himnum svo að hún geti glaðst með honum:

Þó að framar þér ég vildi herma frá högum mínum máli jarðnesku, má ekki það skýra mig svo að skiljir þú. 10

Með þessu kvæði hefur móðir hans gefið honum skáldlegt mál í dauðanum og gert hann að skáldi. „Sorgartölur saknandi móður“ er eitt af átakanlegustu kvæðum Guðnýjar og það sem flestar uppskriftir eru til af í handritum. Þegar sonurinn veikist liggur Guðný á sæng að öðru barninu og er kölluð að banabeði hans á Grenjaðarstað. Kvæðið er lengsta kvæði hennar, alls 19 erindi, og svo áköf er sorgin að það er eins og það geti ekki hætt því að þá muni hún missa samband við barnið. Hún talar við soninn látinn þar sem hann liggur „hulinn í mold“, minnist þjáninga hans og dauða, horfir á litlu fötin hans sem vermdu hann lifandi og hugsar um tungumálið sem hann aldrei fékk:

Eg gat ei svoddan yndis notið orða þinna að merkja skil, því æviskeið var áður þrotið, aldursins þess er komstu til. Nú lærir andlegt englamál elskuverð þín hjá guði sál.11

Eins og fleiri kvæði Guðnýjar endar þetta á tilraun til sátta. Hún huggar sig við að sonurinn sé á góðum stað með nýjum leikfélögum og hlakkar til endurfunda á himnum. Dóttirin nýfædda lifir ekki nema tæpt ár og Guðný yrkir einnig eftir hana: „illa nú grónar / undir mér blæða, / þegar Sigríði / sé ég náfölva.“ Þannig horfir hún á barnið dáið um leið og hún trúir ljóðinu fyrir því að hún muni eiga nýtt barn í vændum: „ei veit nema vaxi / og að viði gerist, / aðrir sem þeygi / enn bólar á.“12

Átta mánuðum eftir lát Sigríðar eignast Guðný soninn Jón Aðalstein (1830-1894) og rúmu ári síðar dótturina Sigríði (1831-1907), móður Haralds Níelssonar. Ekki fær Guðný að hafa litlu dótturina hjá sér, því 10 mánaða gamalli kemur Sveinn henni fyrir í fóstri hjá Þuríði ljósmóður hennar í Reykjahlíð, „til þess, eins og sagnir herma, að Guðný gæti gengið út til heyvinnu“.13 Guðný fór sjálf með dóttur sína í fanginu yfir heiðina til Reykjahlíðar og á leiðinni heim yrkir hún enn eitt ljóðið um sáran aðskilnað og missi. Þetta er stutt kvæði, það sama og „vísubrotið“ sem Haraldur dóttursonur hennar vitnar til í bréfinu til Ólafar. Sársaukinn er beinlínis líkamlegur og Guðný grætur fram ljóðið í eins konar þulu:

Á heimleið

Myrkt er af kvíða. Meybarnið fríða menn frá mér taka. Faðmur er snauður, alheimur auður, oft mænt til baka. Samt má ei gleyma, að sonurinn heima semur mér yndi. Augað hægt grætur, til alls liggja bætur, ef hver það fyndi.14

Ljóðið einkennist af skilyrðistengingum og viðtengingarhætti (og á það sameiginlegt með ljóðum margra kvenna): Samt má ei gleyma; til alls liggja bætur ef hver það fyndi. Einnig er í því athyglisverð og á þessum tíma djörf ásökun: „menn frá mér taka“. Það er samfélagið, karlinn, sem rífur barnið úr fangi móðurinnar með valdi og metur tilfinningar hennar einskis. Þannig má oft í ljóðum Guðnýjar sjá tvær raddir, þar sem önnur er rödd þægrar og þakklátrar konu, eins og samfélagið vill hana, og hin rödd kúgaðrar og óhamingjusamrar konu, bönnuð rödd, en um leið í uppreisn.

III Að heyra og sjá hennar dauðastríð Vorið 1835 sagði Sveinn skilið við Guðnýju, leysti upp heimilið og fluttist í aðra sýslu. Guðný flosnaði upp og fór með systur sinni, Hildi, og manni hennar til Raufarhafnar. Dóttirin var enn í Reykjahlíð og syninum var komið fyrir á næsta bæ. Í athugasemd um burt vikna úr Grenjaðarstaðasókn 1835 skrifar séra Jón faðir hennar við nafn Guðnýjar: „kastað úr hjónabandi saklausri af manni hennar.“15

Guðnýju leið illa á Raufarhöfn, hún saknaði mjög heimilis síns og barna og upplifir sig í útlegð. „Hér er eyðimörk hin mesta,“ segir hún í ljóðinu „Að norðan“ sem hún sendi Kristrúnu systur sinni á Grenjaðarstað í bréfi:

Nóg af tjörnum, keldum, klungri, klettum grettum, sandmöl þungri sem hylur landið lengst við haf.

Það eina sem hún fellir sig við eru skipin í höfninni, líklega vegna þess að á þeim mátti fara burt:

En það er líka þar með búið, þykir mér allri prýði rúið þetta landsins leiða stél.

Undir lok kvæðisins þrengist sjónarhornið við soninn sem hún sér með augum systur sinnar og biður hana fyrir: „Kveðju mína beztu berðu / barnið þegar frá Klömbrum sérðu, / sem föður og móður fjarlægt er.“16

Dvöl Guðnýjar á Raufarhöfn varð ekki löng. hún lést þar eftir rúmt misseri. „almenningur trúði því, að hún hefði dáið úr sorg.“17 Og faðir hennar skrifar í kirkjubókina: „Dó af sjúkdómi, orsökuðum af skilnaðargremjunni, á Raufarhöfn 11. jan. 1836.“18

Í bréfi til Kristrúnar, dagsettu á Raufarhöfn 12. janúar 1836, lýsir systirin Hildur andláti Guðnýjar, þjáningum hennar og síðustu orðum af næstum klínískri nákvæmni í bland við hamslausa sorg sem flæðir fram og ætlar engan endi að taka:19

Diddína mín! Hjartans mín! Æ, á sunnudagskvöldið sem nú er þriðjudagskv. skrifaði eg þér eymdarástandið allt, besta mín, og er þá að segja frá framhaldinu til endans þó sorglegur sé. – Þegar Guðný fór var hún þolanleg um nóttina, svitnaði undur mikið og svaf nokkuð, hafði um morguninn eptir góða rænu [...] svo fór að bólgna og blása upp allt lífið, sem ei lét undan neinu sem eg hafði [...], þorstinn ógnarlegur og þrautin og óhægðin á allan veg, sem á engan veg gat ko