Karldýr í kirsuberjagarði


Sögusvið Jöklaleikhússins, skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur frá 2001, er Papeyri, „vinabær“ rússneska skáldsins Antons Tsjekovs (1860-1904). Kvótakóngurinn í bænum finnur upp á því að reisa glæsilegt leikhús á eigin kostnað til að heiðra skáldið – og og sjálfan sig. Frumsýna á Kirsuberjagarðinn eftir Tsjekov, með karlmenn í öllum aðalhlutverkum. Í sögunni segir frá tveggja ára undirbúningi vígslusýningarinnar; ástum og örlögum fólksins í bænum meðan á öllu þessu stendur; hönnun og smíði hússins og þrotlausum leikæfingum með allskonar uppákomum óborganlegra persóna.

Konur hvísla

Beatrís Mánadóttir, hvíslari og aðstoðarleikstjóri, er sögumaður. „Það fer vel á því að konur séu hvíslarar. Hvísli bara endalaust“ (bls. 180) segir móðir hennar, beiskur og sjálfhverfur drykkjusjúklingur sem beitir fólk andlegu ofbeldi. Beatrís býr yfir hæfileikum sem eru arfur úr uppeldinu: hún er samningamaðurinn, diplómatinn sem tekst alltaf að gera gott úr öllu og hafa alla góða. Þessir hæfileikar hennar nýtast óspart í þágu leikhússins þegar blíðka þarf skapharðar prímadonnur og stífsinnaða kostunaraðila. En Beatrís á í harðri baráttu innra með sér; hún þarf að taka á öllu sínu til að komast undan sjúku lífsmunstri móður sinnar; hún gerir framtíðaráætlanir með manninum sem elskar hana en hún elskar giftan mann sem elskar aðra manneskju… Líkt og í verkum Tsjekovs eru persónur Jöklaleikhússins ástfangnar en ást þeirra er ekki gagnkvæm eða endar með ósköpum. Þannig er með ást Beatrísar í meinum, óendurgoldna ást Brands á Ljúðmílu og vonlausa ást leikstjórans Dýra Blængs. Flóttaáætlun elskendanna Hnefils og Sóleyjar til Svartaskógar (þar sem Tsjekov dó úr berklum) endurspeglar tragikómík sögunnar og vekur upp ýmsar spurningar um ást og fórn.

Algildin fara á skrið

Kynferði og kynhneigð er mjög til umræðu í Jöklaleikhúsinu enda hefðbundnum kynhlutverkum snúið við í uppfærslunni á Kirsuberjagarðinum. Dýri Blængur er „tvístur og bíbí“ (166), Hugi hinn fagri á báðum áttum og Jósef smyrjari (!) er hommi. Karlmennskan öðlast nýja vídd í sögunni, allir karlarnir sem leika í Kirsuberjagarðinum þurfar að gangast undir það sem leikstjórinn kallar afkynjun þar sem stefnt er að einhvers konar kynleysi (onesex) til að hægt sé að lifa sig almennilega inn í kvenhlutverkin: „… ég vil að þið þrýstið ykkur allir niður á kvenstigið. Það er okkar vinnustig. Afkynjun fyrst til að ná fram kvenkynjun. Síðan trillum við upp og niður kynskalann eftir því sem við á. Og við vinnum út frá konunni, út frá móður alls sem er. Karlmóður kvenmóður barnsmóður. Alls ekki út frá dýrinu í karlinum og karldýrinu“ (155). Dýri Blængur leikstýrir völdum áhugaleikurum sínum með aðferðum Stanislavskíjs sem ganga út á að leikararnir verði að skilja leikritið til fullnustu, lifa sig algerlega inn í rullurnar og lúta í einu og öllu þeim kröfum sem leiklistargyðjan gerir til þeirra. Brjóstahöld og hælaskór, sítt hár og lífstykki verða því aðaláhyggjuefni þrekvaxinna glímukappa og stórbænda. Kvenkynjunin heltekur þá suma svo hastarlega að hjónalíf leggst alveg niður og horfir til vandræða. Fleiri algildi en kynferði fara á skrið á Papeyri; í öllum látunum eignast menn börn framhjá konum sínum og börn afneita jafnvel mæðrum sínum og taka saman við nýjar.

Margboðað sjálfsmorð

Persónur (leikendur) sögunnar eru stórskemmtilegar og fyndnar í grátbroslegum aðstæðum. Kvótakóngurinn Vatnar Jökull er bæði óútreiknanlegur og einfaldur í sjálfsupphafningu sinni. Listamaðurinn Hugi getur ekki heitið neinu öðru nafni, hann teiknar Jöklaleikhúsið af gríðarlegu hugviti og útfærir það á snilldarlegan hátt, allt frá hvíslaragryfju til norðurljósaþaks. Hann er tragískasta persónan í sögunni og fórnar lífinu fyrir listina og ástina. „Lillinn“ er undarlegt fyrirbæri í sögunni, draugur sem birtist af og til í sögunni og virðist ekki hafa annan tilgang en vera gamaldags fyrirboði eða sýna hjátrú bæjarbúa. Valdi bóksali, þýðandi verksins, er stórfyndinn og kemst ekki til þess að fremja margboðað sjálfsmorð vegna anna. Að lestri loknum þekkir lesandinn hvern mann á Papeyri og nágrannasveitum og gæti heilsað þeim eins og gömlum kunningjum.

Harmrænn farsi

Stíll sögunnar er yfirlætislaus og lúmskt fyndinn, gert er m.a. stólpagrín að sjálfumgleði og sjálfhverfu leikenda og leikstjóra. Orðaleikir og vísanir, tilsvör og tengingar; allt er þetta vel undirbyggt og útpælt. Stillt er upp andstæðum eins og karlmennsku og kveneðli; viðkvæmri listamannslund andspænis greddu og gróðahyggju; og drepið er á spennuna milli landsbyggðar og höfuðborgar án þess að gera lítið úr öðru hvoru. Andi Tsjekovs svífur yfir vötnum þar sem sagan hvorki predikar eða kveður upp dóma heldur sýnir venjulegt fólk í amstri hvunndagsins – og grimm örlög þess ráðast á meðan. Sagan endar á hárréttum stað: á hápunktinum.

Jöklaleikhús Steinunnar Sigurðardóttur er harmrænn farsi - líkt og leikrit Tsjekovs, eða eins og segir í sögunni: „…ljúfsár dásemd þar sem glens og harmur eru systkin að vega salt“ (31).

Greinin birtist áður í Mbl. 28. nóvember 2001