• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Blálogaland og Túlípanafallhlífar


Sigurbjörg Þrastardóttir hefur sent frá sér margar ljóðabækur, skáldsögur og skrifað leikrit. Hér er fjallað um tvær ljóðabækur eftir hana, Blálogaland (1999) og Túlípanafallhlífar (2003).

NÁTTÚRAN SÆKIR Á

BLÁLOGALAND er fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur sem er þó ekki alls kostar óvön að vinna með texta því hún er menntuð í bókmenntafræði og hefur starfað sem blaðamaður. Þessi reynsla skilar sér vafalaust í ljóðagerðinni því það er lítill „byrjendabragur“ á þeim ljóðum sem fylla þessa bók.

Ljóðin mætti sjálfsagt flokka sem náttúruljóð og hér er ort um íslenska náttúru, oft á mjög skemmtilegan hátt, en ekki síður um náttúruna í manneskjunni í margs konar skilningi. Bókin er þétt í byggingu, skiptist í fjóra kafla og heiti hverskafla vísar til náttúrunnar: JÖRÐ AF JÖRÐU, VATN FRÁ VATNI, LOFT ÚR LOFTI og ELDUR UM ELD. Fyrstu þrír kaflarnir innihalda ellefu ljóð hver, en sá síðasti fimmtán ljóð. Ort er í „frjálsu formi“ en höfundur nýtir sér kunnugleg skáldskaparbrögð, til dæmis er stuðlasetning áberandi í flestum ljóðanna.


Það er íslensk náttúra sem alls staðar blasir við af síðum Blálogalands og titill bókarinnar vísar til. Höfundur yrkir beint til landsins í ljóðum eins og „Föðurland“ og „Ísafold“. Ísland birtist sem kalt, hreint og blátt í ljóðunum og tilfinning ljóðmælanda gagnvart landi sínu er væntumþykja og undrun í bland. Afstaða ljóðmælanda gagnvart landinu minnir nokkuð á ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur og er þar ekki leiðum að líkjast.


Oft eru dregnar óvæntar og skemmtilegar myndir af tengslum manns og náttúru eins og til að mynda í ljóðinu „Slóðir“ þar sem lýst er fjallgöngu sem endar þannig:

hér vil ég fótbrotna

hér vil ég liggja

og bíða björgunar. (19)

Þessi kankvísi, „húmoríski“ tónn kveður víða við í ljóðum Sigurbjargar og fer hún sérlega vel með hann. Nefna má ljóðið „Vitnisburður“ sem segir skemmtilega sögu:


Sat þarna í nóttinni

og næðingnum

leit til með ánum

öfundaði þær af ullinni

þegar

skyndilega var með mér

herskari furðufugla

(var þó alls óhræddur)

þeir ræsktu sig vandlega

en

áður en nokkur þeirra

kom upp orði

reið yfir mikil vindhviða

sá á eftir þeim

út um öll tún

eltandi geislabauga. (28)

Í öðrum ljóðum bókarinnar eru dregnar stuttar einfaldar myndir sem byggjast á hnitmiðaðri myndhverfingu eða líkingu, svo sem í ljóðinu „Skjótt“:

Kemur nóttin

á hljóðlátu skeiði

dimmblá hryssa

með beinhvíta stjörnu

í enni. (44)

Í ljóðinu „Vaka“ leikur höfundur sér á skemmtilegan hátt með orð sem tengjast tölvunni (atvinnutæki nútímarithöfunda) og bregður upp dulúðugri og tvíræðri mynd:

Hálfur skjár

fáir á ferli

væl í uglu

slegnir lyklar

krafs í hurð

von bráðar

afturelding

= fullur skjár

nýtt tungl

músin enn

við þröskuldinn. (45)

Það er athyglisvert að náttúran er að sækja á sem yrkisefni íslenskra ljóðskálda af yngri kynslóðinni og það má vel tala um nýja og ferska náttúrusýn í skáldskap síðustu ára. Sigurbjörg Þrastardóttir bætir hér við tón í þessa nýju symfóníu með Blálogalandi sínu með eftirtektarverðum hætti.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 1999.

"VARST ÞÚ AÐ PANTA BYLTINGU?"

Ljóðabókin Túlípanafallhlífar eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur kom úr árið 2003 og var þriðja ljóðabók hennar. Sigurbjörg hefur síðan sent frá sér fjölda bók, sagna og ljóða, og er í fremstu röð íslenskra skálda.

Þegar Sigurbjörg Þrastardóttir sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Blálogaland (1999), vöknuðu strax vonir um að hér væri á ferðinni ljóðskáld sem ætti eftir að auðga íslenska samtímaljóðlist. Ísland sem uppspretta undrunar og væntumþykju var yrkisefni Sigurbjargar og mörg ljóðanna miðluðu kankvísri náttúrusýn sem minnti á bestu skáld á borð við Steinunni Sigurðardóttur, Lindu Vilhjálmsdóttur og Gyrði Elíasson. Ljóðmálið var vandað og ljóst að hér var á ferðinni höfundur sem kunni að vinna úr áhrifum og hefð á sjálfstæðan hátt.


Vonirnar voru strax uppfylltar árið eftir með ljóðabókinni Hnattflug þar sem farið var á flug um veröld víða, auk þess sem föðurlandið var kannað sem fyrr. Hnattflug er með glæsilegustu ljóðabókum sem komið hafa út hérlendis á undanförnum árum – og á sú lýsing bæði við útlit og innihald bókarinnar sem hlaut viðurkenningu dómnefndar um Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar sem kennd eru við Tómas Guðmundsson árið 2000 og var valin besta ljóðabók ársins af afgreiðslufólki í bókabúðum sama ár. Sjálf Tómasarverðlaunin hlaut Sigurbjörg síðan fyrir sína fyrstu skáldsögu, Sólar sögu, í fyrrahaust, og ekki lét hún þar við sitja heldur hlaut hún einnig verðlaun í einþáttungasamkeppni Leikfélags Akureyrar fyrir nokkrum mánuðum.


Svona glæsilegt upphaf á höfundarferli er óvenjulegt og gæti jafnvel verið erfitt fyrir ungan höfund að standa undir væntingum sem óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið. En velgengnin virðist ekki vera þessu skáldi fjötur um fót; Sigurbjörg heldur sínu striki og bætir enn einu brotinu í sinn ljóðaheim með nýjasta verki sínu, ljóðabókinni Túlípanafallhlífar, sem kom út snemma vors. Það er ekki af tilviljun sem ég nota orðið „ljóðaheim“ því Sigurbjörgu hefur tekist að skapa í verkum sínum sérstakan heim sem lesendur hennar eru að verða kunnugir. Þessum heimi er miðlað í gegnum kvenkyns ljóðmælanda sem oftast er einn á ferð um Ísland og önnur lönd og lýsir skynjun sinni og hugsunum á hnitmiðaðan, hugmyndaríkan og oftast mjög skemmtilegan hátt. Þótt þessi kvenvera sé yfirleitt ein á ferð og jafnvel einmana, er hún ekki kvartsár og lítið fer fyrir þjáningunni sem margir telja forsendu skáldskaparins. Hún veit „að það er kjaftæði“ „að vanræktir akrar vaxi best,“ eins og segir í ljóðinu "Yfirgefa", og gerir grín að mýtunni um skáldið þjáða í ljóðinu "Úlnliðirnir mínir" sem hefst á þessum ljóðlínum:

Mér finnst eiginlega glatað

að hafa aldrei þjáðst af þunglyndi

ég meina svona alvöru

svartnætti

skúffandi

að geta ekki rakið

þjáingavetur

í þakíbúðum [...] (22)


En að þessu sögðu er þó engu að síður staðreynd að Túlípanafallhlífar er dekkri ljóðabók en hinar fyrri tvær – og kannski ekki svo fráleitt að tengja hann við skáldsögu Sigurbjargar, Sólar sögu, þar sem fjallað er um ofbeldi og andlegt skipbrot. Einnig má benda á að titilinn er myndhverfing fyrir tár, eins og sjá má af ljóðinu "Og tárin þín".


Túlípanafallhlífar skiptist í fjóra kafla: ELSKU HELÍOS [djöfuls rómantíkin], BLÓMSTRIÐ EINA, VERÖLD HLÝ & RJÓÐ og HAUSKÚPA [falska gamla fjögurra gata]. Fyrirsagnirnar gefa vísbendingu um þema eða andrúmsloft innan hvers kafla, þó því fari fjarri að hvert eitt ljóð sé sniðið að ákveðnu þema og aðalþemun teygja sig einnig út fyrir mörk hvers kafla. Í upphafi hvers kafla er að finna ljóð sem lesa má sem e.k. einkunnarorð fyrir það sem á eftir kemur og í lok hvers kafla er að finna eftirmála eða „Epilogus“. Í ELSKU HELÍOS ef fjallað um ástina og ástarsorgina að töluverðri kaldhæðni og jákvæðum húmor og þar hefur upphafsljóðið að geyma „kenningu hins beiska“ sem þykist vita að „hjartað sé í eðli sínu svikult“ enda er það „bústið og mjúkt efst en / endar í hvössum oddi“. Í næstu 14 ljóðum er síðan að finna fjölbreytilegar hugleiðingar um eðli ástarinnar og kaflinn endar síðan á skemmtilegu og margræðu ljóði, Epilogus I, þar sem ljóðmælandi svífur til himins í loftbelg „hærra & hærra & helíumið / flæðir & allt er svo fallegt ...”.


Ljóðin í næsta kafla tengjast flest dauða, eins og fyrirsögnin gefur vísbendingu um. En dauðinn getur birst í ýmiss konar líki: ástleysis, einmanaleika, stöðnunar eða ótta við að eldast, svo fátt eitt sé talið. Í fyrstu tveimur ljóðunum má sjá skemmtilega samsömun líkama og náttúru og í því síðara, "Vaxa", myndast ljóðveran við að breiða yfir sig „torfurnar“ strax, áður en hún verður úrskurðuð fullorðin. Myndin sem hér er dregin upp af lifandi líkama sem samsamast jörðinni minnir dálítið á „Kartöfluprinsessu“ Steinunnar Sigurðardóttur úr samnefndri ljóðabók og má velta fyrir sér hvort hér sé á ferðinni „kvenlegt mótíf“ (fleiri ljóð þeirra beggja mætti nefna í þessu samhengi, svo og ljóð fleiri skáldkvenna).


Eins og þegar er komið fram er bygging Túlípanafallhlífa útpæld og vel skipulögð. Ákveðið skipulag er á röð ljóðanna innan hvers kafla og jafnvel má lesa ákveðna sögu út úr titlunum einum og sér. Þannig finnst mér góður húmor í röð ljóðanna í öðrum hluta þegar heiti þeirra eru lesin: ... "Átta sig", "Yfirgefa", "Sakna", "Pipra", "Týnast" og "Eldast". Í ljóðinu "Pipra" er leikið með tvíræðni á óvæntan hátt, þar sem skortur á kynlífi er myndhverfður sem vík full af hafís sem fáir voga sér að sigla í gegnum. Ljóðið "Eldast" bregður upp eftirminnilegri mynd af líkamlegri hnignun, eftirsjá og iðrun (og maður þakkar forsjóninni fyrir að skáldkonan er enn ung og því tæpast að yrkja út frá eigin reynslu).


VERÖLD HLÝ & RJÓÐ hefur að geyma ljóð um heiminn allan og einstaka afkima hans og basl mannanna. Í síðasta ljóðinu, "Epilogue III", dregur höfundur fram á hnitmiðaðan hátt reynslu sinnar kynslóðar sem hefur þurft að óttast fátt annað en morrann:

ég öfunda þá sem eiga endurminningar

úr stríði þeir hafa forskot þegar kemur

að þakklæti mér líður einkennilega

á gamlársdag of margir óvæntir hvellir

samt gæti ég áreiðanlega skrimt á

niðursoðnum mat eins og hver annar

ég er líka staðráðin í að halda dagbók

eins og anna frank en þangað til sef ég

út og tef og lakka kommóður en stundum

langar mig mest að horfa á teiknimynd

helst einhverja einfalda fyrir lítil börn

síðan ég veit ekki hvenær kannski

múmínálfana en ég var alltaf smeyk

við morrann og veit að hann er hérna (53)

Í síðasta hluta bókarinnar, HAUSKÚPU, er haldið áfram að spinna þann þráð sem finna má í ljóðinu hér að ofan (og má reyndar rekja lengra aftur um fyrri bókarhluta). Það er líkast því að ljóðmælandinn þrái ógnina, þjáninguna og lífsháskann og kannski má reyna að særa þetta upp: „hvar er ástsýkin / hvar er hvítblæðið / hvar er glossasteinninn þinn / og blúndueilífin“ má syngja með ljóðamælanda í upphafi HAUSKÚPU (undir lagi ræningjanna í Kardemommubæ) og síðan hefst ferð í gegnum þennan lokahluta Túlípanafallhlífa sem kannski er sá besti af fjórum góðum.


Í ljóðinu "Þeir sem hata eldhússtörfin" háir ljóðmælandi sitt einkastríð í eldhúsinu, í því næsta "Í þessu landi er engin herskylda" er fjallað um „fyrirséðar blóðsúthellingar“ kvenna á skemmtilegan hátt. Í ljóðinu "Heimsending" kemur undarlegur maður hjólandi inn í stofu hjá ljóðmælanda, „eyrnastór og drýpur af honum / óeirðaolía“, og spyr: „já, varst þú að panta byltingu?“. Næsta ljóð kallast "Njósnir um nágranna", og það þarnæsta hefst á orðunum: „Helst vildi ég drepa / eins og Rósa á heiðinni / helst af öllu lítið lamb / sökkva / höndum í blóð og innyfli.“ Á eftir þessari morðfantasíu kemur annað ljóð sem heitir einfaldlega "Morðsaga" sem lýsir „fallegasta dauðdaganum“, að láta „rammíslenskt laufblað / næfurþunnt“ loka á sér kokinu!


Kannski er skýringuna á hinum myrka leik ljóðmælandans í svo mörgum ljóða bókarinnar að finna í þessum einföldu ljóðlínum næstsíðasta ljóðsins:


daglega falla

turnar úti í heimi

í fáeinum rjóðrum

er allt krökkt af ást

annars fátt nýtt (69)

Ógnin og ástin (og ótal afbrigði af hvoru tveggja) eru óumdeilanlega hlutskipti mannsins og Sigurbjörg Þrastardóttir reynir að ná utan um þetta hlutskipti á athyglisverðan og oft á tíðum afar skemmtilegan hátt.


Í ljóðum Sigurbjargar er krökkt af tilvísunum í íslenskar bókmenntir, ekki síst í ljóðahefðina. En úrvinnsla hennar er bæði sjálfstæð og frumleg og ég er þess fullviss að Túlípanafallhlífar mun ekki valda aðdáendum Sigurbjargar vonbrigðum og vonandi kemur hún fleirum á bragðið.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 24. júní 2003