SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. mars 2019

FRAMI EIGINMANNSINS, FÓRN KONUNNAR? - Ævisaga Þórunnar Jóhannsdóttur

Fyrir sléttum 10 árum kom út ævisaga Þórunnar Jóhannsdóttur, undrabarns í píanóleik sem síðar giftist píanóleikaranum fræga, Vladimir Ashkenazy. Bókin heitir Íslenska undrabarnið. Saga Þórunnar Ashkenazy og Elín Albertsdóttir blaðamaður skrásetti.

Þórunn var ekki nema þriggja ára þegar hún lék fyrst opinberlega á píanó. Faðir hennar var mikill tónlistarmaður og líf undrabarnsins einkenndist af krefjandi tónlistarnámi og stífu tónleikahaldi. Hæfileikar Þórunnar voru tekjulind fjölskyldunnar og bernska hennar snerist um að æfa og spila. Erfiðum fjölskylduaðstæðum vegna alkóhólisma föður Þórunnar er lýst af heiðarleika og skilningi í þessari bók. Tónlistarástríðan leiddi Þórunni til Moskvu í nám þar sem hún kynntist „Valdimar Davíðssyni“ (111), rússneskum píanósnillingi sem síðar var oft kallaður tengdasonur Íslands. Þá lagði Þórunn píanóleik á hilluna, sneri sér alfarið að frama manns síns og varð heimsfræg eiginkona.

Í bókinni er það rödd Elínar Albertsdóttur, skrásetjara, sem hljómar hæst en víða er haft orðrétt eftir Þórunni og fleirum. Frásögnin er í réttri tímaröð og á vönduðu máli, í bókinni eru birt brot úr bréfum, fréttum, viðtölum og tónleikagagnrýni auk ljósmynda. Það hefði verið gott að fá enn víðara sjónarhorn, t.d. einhvers barnanna fimm eða Ashkenazys sjálfs þar sem hann er fyrirferðarmikill í bókinni.

Eftir að Þórunn giftist snýst ævisagan um flótta þeirra hjóna frá Sovétríkjunum sem voru heimsfréttir, um fjölskylduhagi og ferðalög og loks um glæsta framabraut Ashkenazys en þau hjónin störfuðu náið saman að tónlistarferli hans. Líf Þórunnar hefur vægast sagt verið viðburðaríkt og hlutur þeirra hjóna í íslensku menningar- og tónlistarlífi er óneitanlega stór.

Þetta er skemmtileg ævisaga um óvenjulegt lífshlaup sem er samofið brennandi tónlistarástríðu. Þórunn þráði sem barn að eignast sérherbergi (183) eins og fleiri og það hvarflar að manni hvort það hafi orðið hlutskipti hennar eins og svo margra kvenna að fórna frama sínum fyrir eiginmanninn. En Þórunn iðrast einskis. Kannski fékk hún bara nóg af pressu og píanóleik sem barn. Hún og maður hennar hafa átt gott líf saman og Þórunn segir í bókarlok:

„Músíkin er mitt líf og yndi og ég gæti ekki lifað án hennar. Ég er og hef alltaf verið fullkomlega sátt við að vera í því hlutverki sem ég er, að vera aðstoðarmaður hans í einu og öllu“ (162).

 

 

 

 

 

 

Myndir: mbl og getty images

Greinin birtist áður í Mbl, 23.11.2009