SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn13. mars 2019

Bókmenntakvöld með Álfrúnu Gunnlaugsdóttur

NÆSTKOMANDI fimmtudagskvöld verður haldið bókmenntakvöld til heiðurs Álfrúnu Gunnlaugsdóttur rithöfundi. Álfrún hefur sent frá sér átta skáldverk sem öll verða kynnt á bókmenntakvöldinu. Skipuleggjendur kvöldsins eru Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og Hermann Stefánsson, rithöfundur.

Auk þeirra koma fram bókmenntafræðingarnir Dagný Kristjánsdóttir, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ármann Jakobsson og rithöfundarnir Halldóra K. Thoroddsen, Oddný Eir Ævarsdóttir og Sverrir Norland.

Þá mun Einar Kári Jóhannsson kynna nýja endurútgáfu Unu útgáfuhúss á bók Hallgríms Hallgrímssonar, Undir fána lýðveldisins, en Álfrún byggir að hluta til á endurminningum Hallgríms í skáldsögu sinni Yfir Ebrófljótið.

Boðið verður upp á tónlistatriði og stefnt að notalegri kvöldstund, allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Miða á viðburðinn má nágast á tix.is en einnig í Hljóðbergi, Hannesarholti við upphaf viðburðarins. Veitingastaðurinn á fyrstu hæð hússins er opinn fyrir þá sem kynnu að vilja fá sér málsverð fyrir viðburðinn.

Álfrún Gunnlaugsdóttir verður gestur kvöldsins en hún mun þó ekki sitja fyrir svörum enda tala verk hennar fyrir sig sjálf.