SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. mars 2019

Gapriplar, tvífætt bráð og sori

Nú stendur yfir hið árlega Hugvísindaþing í Háskóla Íslands. Skáld.is heimsótti eina málstofu í gær sem bar yfirskriftina Hin tvífætta bráð og fjallaði um kúgun kvenna og þá mismunun sem enn fær að viðgangast í samfélaginu. Þar stigu á stokk þrjár fræðikonur með afar áhugaverð erindi.

Fyrst hélt Helga Kress erindið „Era gapriplar góðir“ - Um barnagirnd og barnaníð í íslenskum bókmenntum. Í erindinu staldraði Helga við fáeinar frásagnir í íslenskum bókmenntum af kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum og nefndi m.a. dæmi um úrvinnslu höfunda á borð við Halldórs Laxness á sögulegum heimildum sem vakti mjög til umhugsunar.

Þá tók við erindi Soffíu Auðar Birgisdóttur „Þessi tvífætta villibráð“ en það sneri m.a. að ótta kvenna við að vera einar að næturlagi. Þessi ótti virðist vera óhjákvæmilegur hluti af reynsluheimi kvenna og hafa verið um alllangt skeið því Soffía Auður tók dæmi úr tæplega fjörutíu ára gamalli grein eftir Svövu Jakobsdóttur. Þá er þetta býsna algengt þema í yngri verkum eftir höfunda á borð við Lindu Vilhjálmsdóttur, Gerði Kristnýju og Fríðu Ísberg.

Málstofan endaði á erindi Dagnýjar Kristjánsdóttur „Samsæri“ en yfirskriftin vísar til orða August Strindbergs sem lýsti kvennahreyfingunni sem alþjóðlegu samsæri kvenna sem væri beint gegn körlum. Í erindinu fjallaði Dagný m.a. um útópíur á borð við þá sem birtist í Sora: manifesto en þar lætur Valerie Solanas sig dreyma um heim sem er eingöngu byggður konum, alveg laus við karla.

Það var vel mætt á málstofuna og meira að segja svo að strax varð fullt út úr dyrum og þurfti því að flytja hana í stærri stofu í Árnagarðinum.