• Hugvísindaþing Háskóla Íslands 2019

Listakonur, húsmæður, netagerðarkonur og kvenlíkaminn

Föstudaginn 8. mars, kl. 15:15-17:15 í stofu 201 í Odda verður haldin málstofan Listakonur, húsmæður, netagerðarkonur og kvenlíkaminn: sýnishorn úr rannsókninni "Í kjölfar kosningaréttar" á Hugvísindaþingi Háskóla Ísland. Þar munu fjórir sagnfræðingar halda erindi.


Lýsing málstofunnar er eftirfarandi:


Hvernig tókust íslenskar konur á við þær hindranir sem komu í veg fyrir að þær fengju notið sín sem fullgildir borgarar? Í málstofunni verða dregnar upp nokkrar hliðar á yfirstandandi rannsóknarverkefni sem beinir sjónum að konum sem menningarlegum og pólitískum gerendum á Íslandi 1915-2015.


Málstofan samanstendur af eftirfarandi fyrirlestrum:


Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir: Þingvellir/París (1930). Um myndlist, mæður og "fagran fugl úr norðri".


Á myndlistarsýningu Alþingishátíðarinnar árið 1930 var meirihluti málverka landslagsmyndir, m.a af Þingvöllum. Má greina í orðræðu um myndlist árin fram að hátíðinni að landslagsmyndir ættu að endurspegla hið sanna, íslenska, karlmannlega en hinu kvenlega gjarnan teflt fram sem andstæðu. Orðræðan um kvenleikann er áberandi um 1930 samstíga því að átakalínur skerpast um kvenréttindamál, þátttöku kvenna í opinberu lífi og þjóðernislegt húsmóðurhlutverk. Ef til vill má sjá verkið Móðurást eftir Nínu Sæmundsson sem sett var upp í Mæðragarðinum árið 1930, sem táknmynd fyrir þá flóknu orðræðu og nýja tíma; fyrsta opinbera listaverkið eftir myndlistarkonu, verk sem hafði hlotið mikið lof á Haustsýningu í París. Önnur myndlistarkona gerir garðinn frægan í París, Ingibjörg S. Bjarnason, en þar sýndi hún verk árið 1930 með framsæknum hópi abstraktlistamanna og var jafnframt ein af stofnendum hans; engu að síður var hún af sumum þar einungis þekkt sem “fagur fugl úr norðri”. Mörgum konum þótti framhjá sér gengið á Alþingishátíðinni 1930 og því má segja að “flekaskilin” á Þingvöllum séu táknræn fyrir orðræðuna og ólíkar hugmyndir um myndlist, mæður, kvenleika og nútímann.Ragnheiður Kristjánsdóttir: Halldóra og sígarettuverksmiðjan í Grikklandi. Netavinnukonur á Íslandi og stóra samhengi jafnlaunabaráttunnar upp úr seinna stríði.


Halldóra Ó. Guðmundsdóttir var formaður Nótar, félags netavinnufólks. Árið 1946 gerði félagið tímamótasamning sem gerði ráð fyrir að karlar og konur fengju sömu laun fyrir sömu vinnu. Í fyrirlestrinum verður spurt hvað sé fengið með því að setja sögu íslenskra verkakvenna í samhengi við hnattræna þróun jafnlaunabaráttunnar eftir stríð. Hvernig tengist barátta íslenskra „netakerlinga“ baráttu kvenna sem unnu í tóbaksverksmiðju á Pelópsskaga, í vopnaverksmiðju í Belgíu, eða klæðaverksmiðju í New York? Og hvaða rullu spiluðu þverþjóðleg samtök, alþjóðlegar stofnanir og mannréttindasáttmálar? Til þess að svara því verður m.a. tekið mið af hugmyndinni um hinn marglaga borgara (e. multi-layered citizen).Erla Hulda Halldórsdóttir: Húsmæður í krísu. Átök um hugmyndafræði og samfélagslegt hlutverk ca. 1945-1960.


Tímabilið frá lokum seinni heimsstyrjaldar til þess að nýja kvennahreyfingin kom fram af fullum þunga um 1970 hefur löngum verið talin hluti af „stöðnunartímabili“ kvennahreyfingarinnar. Raunin er aftur á móti sú að á þessum tíma áttu ýmsar breytingar sér stað. Eldri hugmyndir um hlutverk kvenna sem húsmæður voru teknar til endurskoðunar, þær endurmótaðar og að lokum hafnað. Þannig stigu konur smám saman, og með ákveðnari hætti en áður, út fyrir móður- og húsmóðurhlutverkið og kröfðust þess að vera virtar sem fullgildir þegnar í samfélaginu. Engu að síður var heimili og fjölskyldan enn á ábyrgð kvenna og í opinberum gögnum var stærstur hluti kvenna skilgreindar sem húsmæður. Róttækari armur kvennahreyfingarinnar velti fyrir sér hugtökum á borð við þegn og þegnrétt ásamt því að velta fyrir sér gerendahæfni kvenna. Voru þær fullgildir þegnar í samfélaginu eða einhvers konar viðhengi eiginmanna sinna? Húsmæðrahugmyndafræðin sem hafði ráðið ríkjum á árunum milli stríða átti undir högg að sækja og margar konur spurðu hvert hlutverk þeirra ætti að vera ef ekki að sinna börnum og búi. Í augum sumra kvenna fólu nýjar hugmyndir í sér hrun húsmóðurhlutverksins og jafnvel samfélagsins en í hugum annarra frelsi.

Í fyrirlestrinum verður rætt um hvernig skiptar skoðanir á hlutverki kvenna á tímabilinu frá c. 1945-1960 birtast á síðum kvennablaðanna, einkum 19. júní (Kvenréttindafélag Íslands) og Húsfreyjunni (Kvenfélagasamband Íslands).

Þorgerður Þorvaldsdóttir: Kroppurinn og kvennabaráttan. Kvennasýningar, grænar konur og druslur


Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að því hvernig kvenlíkaminn hefur ítrekað birtist sem vettvangur átaka og umróts í íslenskri kvennabaráttu frá því Rauðsokkur stigu fram með risavaxið Venusarlíknesi og þar til þjóðin klofnaði í afstöðu sinni gagnvart málverkum af berbrjósta konum í Seðlabankanum. Rifjaðar verða upp ýmsar andófsaðgerðir femínista þar sem (kven)líkaminn var í forgrunni, svo sem mótmæli gegn „kvennasýningum“, klámvæðingu, druslustimplun og hvers kyns kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun undir millumerkinu #metoo. Jafnframt verður hugað að oft á tíðum ofsafengnum viðbrögðum samfélagsins við líkamaðri kvennabaráttu þar sem tekist er á um skilgreiningarvaldið yfir líkamanum.


Nánari upplýsingar um þingið, dagskrá þess og málstofur er að finna á heimasíðu Hugvísindaþings.