• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Fjöldi kvenna hlaut tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar

Síðastliðinn laugardag var tilkynnt hvaða fimmtán bækur hlutu tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar árið 2019. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum og voru fimm bækur tilnefndar úr hverjum flokki. Það var ánægjulegt að sjá að konur voru í miklum meirihluta tilefndra.

Í flokki frumsaminna barna- og unglingabóka voru þrjú verk eftir konur tilefnd: Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur og Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn. Auk þeirra voru tilnefndar bækurnar Svarthol Hvað gerist ef ég dett ofan í? Eftir Sævar Helga Bragason og Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson.

Í flokki bestu myndskreytinga eru fjórar konur tilnefndar fyrir eftirtalin verk: Ljóðpundari með myndum Sigrúnar Eldjárn og ljóðum eftir Þórarin Eldjárn, Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins myndlýst af Rán Flygenring við texta Hjörleifs Hjartarsonar, Milli svefns og vöku með myndum Laufeyjar Jónsdóttur við texta Önnu Margrétar Björnsson og Snuðra og Tuðra eiga afmæli, myndlýst af Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur við texta Iðunnar Steinsdóttur. Þá var Halldór Baldursson tilnefndur fyrir myndlýsingar sínar í Sjúklega súr saga en textinn er eftir Sif Sigmarsdóttur.

Í flokki bestu þýðinga á barna- og unglingabók eru tvær konur tilnefndar fyrir þýðingar sínar: Þórdís Bachmann fyrir bók 2 í bókaflokknum Hvísl hrafnanna eftir Malene Sølvsten og Erla E. Völudóttir fyrir Ferðalagið eftir Timo Parvela. Í þessum flokki voru þrír karlar tilefndir: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir Meira af Rummungi ræningja eftir Otfried Preußler, Guðni Kolbeinsson fyrir þýðingu á Villimærin fagra eftir Philip Pullman, og Björn Sortland, og Jóns St. Kristjánsson fyrir þýðingu sína á Seiðmenn hins forna eftir Cressida Cowell.

Athöfnin fór fram í menningarhúsi Borgarbókasafnins í Gerðubergi og af því tilefni steig á stokk ungt tónlistarfólk úr Tónlistarskóla Sigursveins. Þá bauðst gestum að skoða sýninguna Þetta vilja börnin sjá, sem geymir myndskreytingar úr nýútkomnum íslenskum bókum, og að þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu, en þau hafa verið veitt óslitið allt frá árinu 1973, og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á gildi góðra bókmennta fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs.

Í dómnefnd að þessu sinni sitja Tinna Ásgeirsdóttir formaður, Helga Birgisdóttir, Magnús Guðmundsson, Rakel McMahon og Valgerður Sigurðardóttir. Þau þurfa að gera það upp við sig hvaða bækur bera sigur úr býtum og verða verðlaunin afhent síðasta vetrardag í Höfða, samkvæmt venju.