SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 4. mars 2019

KRISTÍN BRENNDI VERK SÍN

Grein eftir Ásu Jóhannsdóttur

 

 

Kristín Sigfúsdóttir frá Kálfagerði skrifaði ljóð, leikrit og smásögur hálfhokinn yfir litlu borði í koti fyrir norðan á milli þess sem hún sinnti búi og sex börnum við kröpp kjör. Hún var skarpgreind, sjálfmenntuð og einbeitt kona með innsæi og leiftrandi sköpunargáfu. Kona sem brann af þrá til ritstarfa og sem bókstaflega brenndi mörg af sínum verkum.

,,Það var reisn yfir Kristínu Sigfúsdóttur sem manni og skáldi og hana brast aldrei kjark né kend til að taka málstað lítilmagnans í þjóðfélaginu og tjá í listinni tilfinningar hans og aðstöðu alla." (Réttur, bls. 76)

 

Kristín Sigfúsdóttir frá Kálfagerði

Sjálfmenntuð, sex barna móðir

Kristín frá Kálfagerði er ein af þeim íslensku skáldskonum sem urðu þekktar fyrir verk sín á fyrri hluta 20.aldar en náði þó ekki að njóta þeirra forréttinda að starfa eingöngu við skriftir. Kristín var sjálfmenntuð bóndakona, sex barna móðir sem þurfti að takast á við þörfina til að skrifa og kröfur um að sinna búi og börnum. Hún var vel gefin en naut ekki skólagöngu en faðir hennar kenndi henni að lesa og skrifa. Kristín var sjálfmenntuð í tungumálum og vel lesin og hafði allt frá barnæsku samið tækifærisvísur. Hæfileikum hennar var vel tekið og fékk hún ákveðna hvatningu og varð þekkt fyrir að yrkja. Kristín reyndist bóngóð og ,,á yngri árum orti hún mikið af tækifærisljóðum, m.a. eftirmælum, sem hún var mikið beðin um og skiptu líklega hundruðum." (Herak.)

 

,,Eina vísu man ég, sem ég orti til bróður míns, þegar ég var 12 ára. Hún er svona:

 

Hvar þú gengur guðs á storð,
gæt þess, enginn kraftur
liðinn tíma og töluð orð
tekið getur aftur." (Embla, bls. 33)

 

Að fara laglega með lítið

Aðstæður hennar og umhverfi voru skáldskapnum ekki hliðholl enda ritstörf kvenna unnin til hliðar við það sem samfélagið og umhverfið krafðist af þeim. Kristín giftist Pálma Jóhannessyni árið 1901 og bjuggu þau lengst af á Kálfastöðum í Eyjafirði. Hlutverk hennar sem eiginkonu, húsmóður og móður tók yfir og var skrifum sjálfhætt á tímum barnauppeldis og bústarfa. Segir Kristín sjálf að hún hafi ekki skrifað neitt nema erfiljóð á þar til elstu börnin náðu henni í öxl þar sem það sótti ekki mikið á hana á þeim árum. Jón Helgasson heimsótti Kristínu á Kálfagerði árið 1929 og getur þess að hún hafi verið þar einyrki við þröngan kost.

 

,,Kálfagerði er lítið kot í samanburði við heimajörðina, hefir því verið erfitt að komast þar áfram með stóran barnahóp; sagði Kristín, að hæfilegt væri, að þar væru 4 manneskjur í heimili, en hún hefir haft 7—8 manns, og hefir þá þurft að kunna að »fara laglega með lítið«, og eru fáar stundir afgangs til ritstarfa fyrir húsmóðurina, sem er einyrki." (Heimilisblaðið, bls. 116)

 

Brennandi þrá

Sjálf virtist hún reyna að bægja sköpunarþörfinni frá sér frá unga aldri, hugsanlega meðvituð um það bratta fjall sem þyrfti að klífa til að geta opinberlega sinnt skáldskap sem kona, hvað þá ómenntuð bóndadóttir á þessum tíma. En í viðtali við tímaritið Emblu segir hún frá því þegar hún var unglingur hafi hún upplifað mikla skömm þegar aðrir komust að því að hún væri að skrifa: ,, Ég lifði alveg í þessu. Og þegar ég gat farið að pára, skrifaði ég sögur á laun. Svo komst mamma að þessu, og ég heyrði hana segja ókunnugum frá öllu saman. Þá skammaðist ég mín svo fyrir þetta, að ég brenndi öllum sögunum og hætti að skrifa." (Embla, bls.34) Þetta var ekki í síðasta sinn sem Kristín brenndi verk sín.

 

Hörð átök

Barátta Kristínar við skáldagyðjuna hætti í raun aldrei þó að hún væri ekki alltaf sýnileg á yfirborðinu. Aðspurð sagði hún að samkomulag húsmóðurinnar og skáldkonunnar hafi ekki verið hávaðamikið ,,en stundum urðu nokkuð hörð átök. Mest langaði mig til að skrifa á morgnana, en þá hafði ég ekki tíma til þess." (Embla, bls. 34) Þannig varð skáldkonan oft að lúta í lægra haldi fyrir húsmóðurinni en sköpunarþráin var aldrei langt undan.

 

Skrifaði við lítið eldhúsborð

Kristín sinnti ritstörfum alla tíð við erfiðar aðstæður og eins og Sigurður Norðdal lýsir í umfjöllun sinni um Sögur í sveitinni sem birtist í tímaritinu Iðunni árið 1925 þá skrifaði Kristín ,,leikrit sín og sögur við lítið borð í eldhúsinu, skotist í að skrifa setningu og setningu milli þess sem hún sinti heimilisstörfum einyrkjahúsfreyju með fimm börn" (73). Hún naut ekki þeirra forréttinda að hafa herbergi útaf fyrir sig, sitt eigið skrifborð eða athvarf til skrifta. En hún skrifaði þrátt fyrir það.

 

Kristín Sigfúsdóttir

Andstæð öfl

Barátta andstæðra afla voru henni hugleikin og hvernig þau birtast í aðstæðum kvenna og samskiptum. Hún nálgaðist viðfangsefni sitt af yfirvegun en þó með skörpu innsæi. Sigurður bendir á þetta innsæi í verkum Kristínar þegar hann segir að trú hennar á sigur hins góða ,,er ekki fengin né varðveitt með því að loka augunum fyrir því, sem ilt er, né gera sér glýju í augu, svo að alt renni í eina móðu, ilt og gott" (76).

 

Landsfundur kvenna 1926

Skáldið, bóndakonan og móðinn lét sig málefni kvenna varða og ritaði bæði smásögur um líf kvenna í fátækt og tók þátt í kvennahreyfingunni sem var að eflast á þessum tíma. Saga hennar Örbirgð fjallar um aðstæður fátækra vinnukvenna og hún virtist réttsýn og ærleg í lífi og starfi. Hún var heiðursfulltrúi á öðrum landsfundi kvenna sem haldinn var á Akureyri 8-14 júní 1926 ásamt fimm öðrum konum, þeim Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Aðalbjörgu Sigurðardóttur og Halldóru Bjarnadóttur frá Reykjavík, Sigurborgu Kristjánsdóttur frá Múla í Ísafjarðarsýslu og Sigurlínu Tryggjavadóttur frá Æsustöðum í Eyjafjarðasýslu. (Hlín, 1926)

 

Íslenskum bókmenntum til sóma

Í umfjöllun Sigurðar í Iðunni kemur fram að Kristín ritar ,,óbrotið og kjarngott íslenskt sveitamál, sem ekkert verður að fundið. Samtölin eru altaf eðlileg, og mætti vel ráða af þessum sögum, að höfundi þeirra myndi vera sýnt um að rita fyrir leiksvið, þótt maður vissi það ekki áður. Sögurnar eru á allan hátt íslenskum bókmentum til sóma." (76)

 

Innri barátta

Þó að Kristínu hafi tekist að gera ,,hversdagslegustu atburði nýja og heillandi og fataðist hvergi tök á list og stíl," (75) átti hún alltaf í ákveðinni innri baráttu. Þrá eftir menntun bjó innra með henni og sköpunarþörfin var sterk allt hennar líf. Ytri kröfur, innri efasemdir og álag hversdaglífsins tóku þó sinn toll.

 

Kvíðinn þjáir þreytta lund,
þungt mig beygir stritið,
eg hef fáa yndisstund
á ævidegi litið.

 

Töpuð verk

Barátta hennar við skáldskapinn birtist einnig í því hversu miklar kröfur hún gerði til verka sinna og sjálfrar sín. Hún brennir fyrst verk eftir sig á unglingsaldri, þá af skömm eins og hún sagði sjálf frá en seinna brennir hún einnig leikverk um leið og þau hafa verið flutt í sveitinni og voru þau því aldrei gefin út. Síðar á ævinni fargaði hún einnig mörgum að æskuverkunum, tækifærisvísum, ljóðum og eftirmælum.

 

Aðstæður og ástæður

Það er með Kristínu eins og svo margar íslenskar skáldkonur að það er tilgangslaust að rýna í hvað hefði getað orðið ef aðstæður hefðu verið aðrar en þær voru. En það læðist að sá grunur að æviverk hennar hefði getað orðið stærra og meira hefði hún starfað sem rithöfundur í umhverfi sem hefði stutt við þá gáfu í stað þess að setja henni þær skorður sem hún lifði við. Að sama skapi má segja að aðstæðurnar móti höfundinn og að verkin hefðu ekki náð þessum kjarna hefðu þau ekki verið skrifuð undir álaginu sem því fylgdi að ala upp sex börn sem íslensk almúgakona á fyrri hluta síðustu aldar.

 

Heimildir:

Annar landsfundur kvenna haldinn á Akureyri 8.—14. júní 1926. Hlín, 10. Árgangur 1926, 1. Tölublað
Jón Helgason, Norðurlandsferð vorið 1929. Heimilisblaðið, 18. Árgangur 1929, 10. Tölublað.
Kristín Sigfúsdóttir sjötug. Embla, 2. árgangur 1946, 1. tölublað.
Réttur, 59. árgangur 1976, 2. Hefti.
Sigurður Norðdal. Iðunn: nýr flokkur, 9. Árgangur 1925, 1. Tölublað. Bls. 73.
www.herak.is/is/frettir/kristin-sigfusdottir-skaldkona-fra-kalfagerdi

 

 

Tengt efni