SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn22. febrúar 2019

ÖRSÖGUR UM ÖRLÍTIÐ LÍF OG ANNAÐ MEÐ ÞVÍ

Tónlist hamingjunnar - Vala Þórsdóttir

Ása Jóhannsdóttir:

Vala Þórsdóttir hefur getið sér gott orð í gegnum tíðina fyrir leikrit sín, bækur og skjáverk. Meðal leikverka hennar eru einleikurinn Háaloft og Eldhús eftir máli, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og tilnefnt var til 6 Grímuverðlauna. Örsögusafnið Tónlist hamingjunnar kom út árið í 2009 en í því fangar Vala svipmyndir úr hversdagslífinu og leikur sér með þær. Hún nær, í því sem kalla mætti prósaljóð á köflum, að fanga kjarna þeirra augnablika sem glæða lífið tilgangi eða gefa því gildi. Hún skoðar einnig hið skondna við tilveruna og leyfir sér að fabúlera og daðra við súrrealisma. Örsögurnar eru þannig rammaðar inn í gráglettinn húmor sem kemur þægilega á óvart og snýr oft myndum og væntingum við þannig að úr verður ekki bara bros heldur ákveðin yfirlýsing um eðli hlutanna.

Í umsögn um bókina segir að Vala sýni hér ,,á sér nýja hlið þótt tengslin við leikverkin séu ef til vill undirliggjandi og sumar af hugmyndunum eigi sér rætur í þáttagerð fyrir sjónvarp. Örsögurnar eiga það sameiginlegt að birta sérstæða og broslega mynd af samtímanum. Persónur og atburðir koma stöðugt á óvart og fáránleikinn er sjaldnast langt undan.“ Geisladiskur með lestri höfundarins fylgdi bókinni og þar nýtur hlustandi nálægðar höfundar við eigin texta sem gefur sögunum aðra vídd.

 

Vala Þórsdóttir rithöfundur

Örsagan um Jötunuxann í Grjótaþorpinu gefur góða svipmynd af nálgun Völu í Tónlist Hamingjunnar.

 

Ímynd

Padda nokkur átti heima á bak við spýtu í porti í Grjótaþorpinu. Paddan hélt að hún væri útlensk en var reyndar rammíslensk padda. Jötunuxi. Jötunuxar eru tiltölulega lítil skordýr sem skríða á jörðinni og halda sig mikið í myrkri. Þeir fara ekki víða vegna þess hve fætur þeirra eru smáir og hugmyndaflugið lítið. Þess vegna var paddan ekki góð í landafræði og sagðist vera útlendingur frá Raufarhöfn. Engin hinna Jötunuxanna var betri í þeim fræðum svo að þeir töluðu alltaf ensku við þessa ,,norðlensku" pöddu.