• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Breytingar og byltingar í lífi skáldkonu

Næstkomandi laugardag, 23. febrúar, verður haldið þing um þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur. Af því tilefni rifjum við hér upp endurminningabók Ingibjargar, Veruleiki draumanna, sem kom út árið 2007. Eftirfarandi ritdómur um bókina birtist í Morgunblaðinu 12. desember 2007.

Havana Cuba

LJÓÐSKÁLDIÐ og þýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir sendir frá sér endurminningabók þetta haustið þar sem hún segir frá uppvexti sínum í Reykjavík á fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldarinnar og náms- og mótunarárum sínum í Rússlandi og á Kúpu á þeim sjöunda og áttunda. Bókinni lýkur desember 1975 þegar Ingibjörg snéri aftur alkomin til Íslands með hálfs árs gamlan son sinn meðferðis. Árið áður hafði fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, komið út hjá Máli og menningu. Það má því segja að Veruleiki draumanna lýsi aðdragandanum að farsælum ferli Ingibjargar sem skálds, sem flestir þekkja, þótt Ísland hafi reyndar tekið nokkuð óblíðlega á móti henni og hún lýsir í sinni næstu ljóðabók, Orðspor daganna, sem kom ekki út fyrr en 1983.

Bókinni skiptir Ingibjörg í þrjá kafla sem bera yfirskriftirnar: Reykjavík, Moskva, Havana. Áhugavert er að lesa um líf hennar í þessum þremur ólíku borgum því þeir tímar sem hún lýsir eru mikilir umbrotatímar á hverjum stað fyrir sig um leið og staðirnir þrír eru eins ólíkir hverjir öðrum eins og framast getur. Fátæktin og húsnæðisbaslið sem Ingibjörg ólst upp við í bernsku minnir okkur á hversu ótrúlega miklar breytingar íslenskt þjóðfélag gekk í gegnum á síðari hluta tuttugstu aldar.

Hún lýsir því sjálf best þegar hún kemur heim aftur eftir að hafa búið sex ár í útlöndum og hálft annað ár er frá síðustu Íslandsdvöl hennar: „Mér fannst ég stíga inn í nýjan heim“ (275). Hér er hún reyndar að tala um hippamenninguna sem hafði gjörbreytt bæði klæðaburði og háttalagi ungs fólks í Reykjavík eins og víða um heim. „Fannst ég vera amma þessara krakka. Það var ekki þægileg tilfinning fyrir 27 ára konu“ (276). En það er ekki bara hugarfar hinna ungu sem breytist á þessum árum, á Íslandi verður efnahagsbylting sem hugsanlega hefur náð hápunkti í samtímanum.

Veruleiki draumanna Ingibjörg Haraldsdóttir

En Ingibjörg upplifir annars konar byltingarumhverfi bæði í Moskvu og Havana. Sjálf er hún að brjóta blað; að læra til kvikmyndaleikstjóra í Moskvu þótt ekki hlyti hún síðar nafnbótina „móðir íslenskrar kvikmyndalistar“ eins og einn kennari hennar spáði (196). Kvikmyndagerð stundaði hún ekki að meistaranámi sínu loknu en skólavistina hefur hún þó ríkulega launað með þýðingum sínum á rússneskum bókmenntum.

Til Kúpu flutti Ingibjörg með kúbönskum eiginmanni sínum sem hún kynntist í Moskvu og þar starfaði hún í framsæknu leikhúsi, lengst að sem aðstoðarleikstjóri og nýttist þar vafalaust menntun hennar sem kvikmyndaleikstjóri vel. En eftir því sem árin liðu leitaði hugurinn til Íslands og heim kom hún aftur reynslunni ríkari, eins og áður sagði.

Frásögn Ingibjargar er í tímaröð og samanstendur af miklu leyti að n.k. skyndimyndum úr lífi hennar. Ljósmyndir og bréf fléttast inn í frásögnina sem og draumar sem Ingibjörgu dreymir, jafnvel sama drauminn endurtekið. Veruleiki draumanna er titill bókarinnar en erfitt er að sjá hvernig (nætur)draumarnir sem sagt er frá tengjast titlinum eða þeirri reynslusagt er frá. En draumarnir sem hin unga Ingibjörg ræktaði með sér um menntun, ferðalög og listræna sköpun rættust kannski á annan hátt en lagt var upp með í upphafi.

Sá heimur sem Ingibjörg lýsir í endurminningum sínum er að mörgu leyti bæði framandlegur og forvitnilegur en stundum er hún full varkár í lýsingum, t.a.m. á tilfinningum, þar tekur hún sér kannski stíl Íslendingasagna til fyrirmyndar en lesandi saknar meiri nálægðar.

Ingibjörg lést í Reykjavík 7. nóvember 2016.