SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. febrúar 2019

Bláar tennur og horfnar konur

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir greinir frá afar athyglisverðri uppgötvun í þættinum Orð um bækur. Fræðikonurnar Anita Radini og Christina Warinner rannsökuðu beinagrind af miðaldra konu sem virðist hafa lifað góðu lífi á tímabilinu 997-1162 í Dalheim í Þýskalandi. Það sem var athyglisvert við beinagrindina voru tennurnar en á þeim voru skærbláir blettir sem reyndust vera asúrsteinn eða heiðblár gimsteinn. Slíka steina var einungis að finna í Afganistan og voru þeir fluttir þaðan til Evrópu til að búa til rándýra bláa málningu. Lituðu blettirnir benda því til að konan hafi verið skrifari eða málari og þeir hafi ratað á tennurnar þegar hún bleytti pensilinn með tungunni.

Sagnfræðingurinn Alison Beach hefur starfað við að skrá handrit skrifuð af konum á 12. öld í Þýskalandi. Hún fann vísbendingar um að konur í nágrenni við Dalheim hafi verið virkar við handritaskrif og hefur varðveist a.m.k. eitt handrit frá þessum tíma sem er myndlýst með asúrsteins-málningu og skrifað af konu.

Beinagrind þessarar nafnlausu konu er staðfesting á því að kona hafi notað þennan rándýra lit sem einungis bestu málarar miðalda fengu að nota. Lítið er á heimildum um þetta tímabil að græða því þær eru fáar. Þess vegna hefur rannsókn ofangreindra fræðikvenna vakið upp spurningar um hversu margar konur sem fengust við skriftir á miðöldum hafi verið beinlínis strokaðar út úr sögunni – sögunni sem er að mestu skrifuð af körlum.

Myndirnar eru sóttar á vefsíðuna The Atlantic