• Sigríður Albertsdóttir, ritdómur

Að fingra sig fram


Þórunn Valdimarsdóttir hefur á undanförnum árum sýnt og sannað að hún er ekki aðeins góður sagnfræðingur heldur afburða skáldsagnahöfundur. Hróður hennar vex með hverri nýrri bók og Stúlka með fingur, setur Þórunni í flokk okkar bestu rithöfunda.

Sögusviðið er Reykjavík og London, frá aldamótum og fram til ársins 1960 eða 70. Aðalpersónan er Unnur, stúlka komin af alþýðufólki sem fer ung í vist hjá sér hátt settara og ríkara fólki. Þar nýtur hún strax meiri hylli en vinnufólk naut almennt á þessum árum. Hún er umvafin gæsku hinnar „Gömlu“, húsmóðurinnar á heimilinu, og einnig er húsbóndinn, sýslumaðurinn í héraðinu, notalegur við hana. En babb kemur í bátinn þegar hún og sonur sýslumanns fella hugi saman.

Þetta þema er kunnuglegt í íslenskum bókmenntum en í meðförum Þórunnar verður það ferskt og algjörlega nýtt. Við lestur bókarinnar renna hugleiðingar lesandans saman við hugleiðingar Unnar; af hverju mega þau ekki elskast og eigast? Unnur er ágætlega menntuð og skarpgreind ung kona en hvaða ljón eru í veginum? Jú, þessi venjulegu. Menn giftust ekki niður fyrir sig á þessum tíma og það lögmál bar að virða. Og trú þessu lögmáli slítur Unnur öllu sambandi við ástmann sinn, sendir honum tilfinningaþrungið bréf og siglir til Englands til að forframast og jafna sig á sorginni.

Í London býr hún hjá manni sem hafði heillast af henni í heimsókn sinni til Íslands einhverjum árum fyrr. Hún aðstoðar hann við rannsóknarvinnu og drekkur um leið í sig erlenda menningu. Einhverjum misserum síðar siglir hún heim, giftist og fer að kenna. En Þórunn býður upp á óvænt endalok sem brenna sig ekki aðeins inn í vitund Unnar heldur einnig inn í vitund lesandans.

Meginþema bókarinnar er sorg; sorg þeirra sem ekki fá að njótast og unna – og hugleiðingar Unnar um þá þjáningu rata rakleiðis inn í huga lesandans. Lesandi fer ósjálfrátt að pirra sig á óréttlæti, heimsku og duttlungum yfirséttarinnar allt þar til sannleikanum er dengt fram í bókarlok. Sá sannleikur kemur lesanda svo á óvart að minnir á bestu sakamálasögur. Hugsanlega mætti flokka endalokin sem klisju en að mínu mati kemur bygging sögunnar í veg fyrir það.

Þórunn byggir sögu sína meistaralega upp. Hún vinnur úr efni sem flestir þekkja, eymd og fáfræði almúgans í upphafi 20. aldar andspænis hrokafullri yfirstétt. En hún gerir það á nýjan og hressilegan hátt, býr til persónu sem er stolt, klár og ákveðin og lætur hvorki stéttamun né kynferði stöðva sig. Hún er nútímaleg í hugsun, hafnar gömlum reglum og lætur hjartað ráða för – sem vissulega verður henni fjötur um fót um stundarsakir en hún er nógu sterk til að fara sínar eigin leiðir. Stúlka með fingur er áhrifamikil og mögnuð saga, þrungin sorg og söknuði en um leið er hún óður til lífsins því þótt ástin svíki og sorgin lami má vel lifa af ef trúin á eigið sjálf og ágæti er nógu sterk.

Birtist fyrst í DV 17. nóvember 1999