• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Háð og snoppungar


Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um Bókmenntasögu Jóns úr Grunnavík (1705−1779), sem skrifuð var snemma á 18. öld. Í síðasta hluta bókarinnar er umfjöllun um skáld- og lærdómskonur en Jón var fyrstur til að fjalla um konur í slíku riti.

„Ei þykir mér vert að annotera þær sem ei hafa gjört annað en nokkrar liðlegar einstaka vísur, heldur þær sem í bóklegum kúnstum eður skáldskap hafa yfirgengið almennar konur og verið karlmönnum jafnvægar“ (229). Það er ekki nóg að hafa ort vísu til að komast í bókmenntasöguna en nægir að hafa ort einn sálm. Það gerði Þóra Tómasdóttir (17. og 18. öld); „einn sálm um útför Ísraelsfólks af Aegypto“ sem enginn veit frekari deili á en fram kemur að Þorvaldur einhver Magnússon hafi hæðst að þeim sálmi. Í greininni í Mbl. eru m.a. nefndar hinar fornu skáldkonur Sigga skálda og Steinunn Finnsdóttir sem vissulega er að finna í skáldatalinu okkar.

Þá er í lok greinarinnar í Morgunblaðinu skemmtileg saga úr Bókmenntasögu Jóns af Rannveigu Þórðardóttur frá Strjúgi (uppi á 17. öld). Skáldið Þórður lagðist útaf til að yrkja og þegar hann reis úr rekkju eftir að hafa ort 15 rímur Rollants, á Rannveig að hafa slengt fram þeirri sextándu, „meðan hún hrærði í grautarkatli, en faðirinn Þórður að henni heyrðri, slegið hana snoppung í meining sem hún hafi gjört skömm til sín en þetta er líkast fabulae...“ (225). Boðskapur sögunnar? Skáldskapariðja er aukageta hjá konum, og standi þær körlum á sporði eða framar en þeir fá þær að finna fyrir því!

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband