• Sigríður Albertsdóttir, ritdómur

Hamingjan er hér og nú

Eflaust lítum við mörg til baka á miðjum aldri og finnst útkoman ekki frásagnarverð. Við sjáum röð hversdagslegra atburða og minni okkar er fullt af misskýrum myndum sem saman virðast tæpast mynda efni í heillega og burðuga sögu. Fæstum finnast minningar sínar þess virði að skrá þær á blað, hvað þá að gefa út á bók, en vera kann að einhverjum snúist hugur eftir lestur á 90 sýnum úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen. Bókin inniheldur minningar úr lífi höfundarins sem í inngangi bendir lesendum á að hér sé athyglinni beint að hversdagslegum viðburðum sem jaðra við að vera ekki í frásögur færandi. Í framhaldi af því segir hún: „Er ég velti fyrir mér viðburðasnauðu lífi mínu, kemst ég að raun um að ég hef þrátt fyrir allt skilið eftir óafmáanleg spor, sveigt tímarúmið hér og þar rétt eins og aðrir. Ég, sjálfskipuð miðja alheimsins.“ (5)

Þegar jafn líflega er sagt frá og í þessari bók breytist hversdagsleikinn í skondið og skemmtilegt ævintýri. Hér er sagt frá atburðum sem margir kunna að þekkja af eigin raun, eins og þegar stelpan Halldóra stelst í varalit móður sinnar og fólk heldur að hún hafi stórslasað sig! Halldóra er alin upp í fjörugum systkinahópi og lesandinn fær innsýn í óveður sem stundum geysa á stórum heimilum. Í einu frásagnarbrotinu rífast þær mæðgur út af Sjéríóspakka og svo langt gengur rifrildið að Halldóra grípur kúst og hyggst berja móður sína. Móðurinni tekst að flýja með yngri systurnar inn í herbergi og Bauja, systir Halldóru, læsir þær inni og tekur lykilinn. Halldóra heldur mæðgunum í herkví lengi dags eða allt þar til móðirin hrópar: „Hleypið mér út, leyfið henni að drepa mig.“ Og sagan endar á þessum orðum: „Þá fannst okkur öllum að þetta væri orðið of líkt fimmta þætti í harmleik eins og Nonni orðaði það.“ (22)

Frásagnarbrotin enda flest á þessum nótum, á stuttum kankvíslegum setningum, og frásögnin kraumar af kímni, gleði og léttleika. Þau frásagnarbrot sem greina frá barnæsku Halldóru sýna glöggt að hún er alin upp við sósíalíska hugmyndafræði og fá börnin að leggja sitt til málanna og gera persónulegar uppreisnir ef þeim sýnist svo. Foreldrarnir eru heiðarlegar og æðrulausar persónur og launfyndnar eins og merkja má af svari pabbans þegar Halldóra spyr hann um hamingjuna. Hann svarar afundinn þegar stúlkan gengur á hann: „Ertu viss um að þetta sé íslenskt orð? Þetta var ekki mikið notað þegar ég var að alast upp.“ (28)

Í bókinni úir og grúir af kátlegum athugasemdum á borð við þessa og tengjast stundum þekktum persónum úr bókmenntaheiminum, eins og Jóhannesi úr Kötlum, Halldóri Laxness og Degi Sigurðarsyni en Dagur var bróðir Halldóru. Hann birtist af og til með hnyttin tilsvör á vör, svo og Nonni, bróðir Halldóru sem er skondin og skemmtileg persóna. Hið sama má segja um aðrar persónur bókarinnar og frásagnir Halldóru af tilhugalífinu og samskiptum hennar við börn sín og eiginmann eru fullar af lífi og fjöri.

90 sýni úr minni mínu sýnir að hamingjan býr hér og nú. En hún býr einnig í fortíðinni sem hér birtist í fallegri og litríkri mósaíkmynd Halldóru Thoroddsen.

Birtist fyrst í DV 11. desember 2002