• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Fersk og frjó, húmorísk og harmræn

Ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið kom út á dögunum á vegum Benedikts bókaútgáfu. Þetta er þriðja ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur en hún hefur áður sent frá sér bækurnar Heimsendir fylgir þér alla ævi (2013) og Tappi á himninum (2016).

Ljóðabókin er tæplega 80 síður og henni er skipt upp í tvo hluta. Sá fyrri nefnist „Far til að sýna öllum heima: Föst flétta ofin úr gömlum skuggum“ og geymir hann stutta, tölusetta leikþætti. Seinni hlutinn er án titils og þar eru ljóð og örsögur í bland við stöku ljósmyndir.

Nauðgun og niðurlæging

Aftan á kápunni kemur fram að bókin fjalli „meðal annars um nærfatakaup í sólarlandaferðum og far til að sýna þeim heima.“ Þessi orð gefa ekki rétta mynd af efni ljóðanna. Af þeim mætti ráða að bókin geymi spé og skop um skemmtiferð til sólarlanda en svo er aldeilis ekki. Vissulega er nálgun höfundar gjarna skemmtilega frumleg og oft meinhæðin en það er mjög grunnt á harmleiknum; ofbeldi, nauðgun og niðurlægingu, líkt og má t.d. sjá í leikþætti númer fjögur:

4.

Viðtalsmeðferð á yfirgefnu diskóteki.

Embættisbúningurinn: Lýstu hótelherberginu.

Ung kona: Í miðju herberginu, sófinn – minnir á leikfang í Barbie-húsi frá níunda áratugnum.

Skræpóttur og doppóttur í senn. Hrópandi allan viðbjóðinn sem hefur átt sér stað í herberginu.

Embættisbúningurinn: Skilgreindu viðbjóð.

Ung kona: Þú brosir á meðan eitthvað meiðir þig. Sársaukinn kemur ekki strax.

Hann ferðast löturhægt. Stundum gegnum kynslóðir.

En bíddu nú við, meiða, - meiða þig – er það ekki bara orð fyrir börn?

Embættisbúningurinn: Æ nei, ég nenni ekki að hlusta á þetta. Haltu áfram með hótelherbergið.

Ung kona: Fyrir ofan sófann, í plastramma: eftirprentun af Renoir, siðaðar dömur sitja og drekka vín með betri borgurum í huggulegri bátsferð.

Já, svo eru svalir. Sem opnast beint út á aðalgötuna.

Embættisbúningurinn: Ég heyri einhverja píkuskræki frá þessum svölum. Hvað er á seyði?

Ung kona: Ég man það ekki.

Embættisbúningurinn: Jú, þú ert að strippa. Þú ert sveipuð einhverjum ómeginsljóma. Líkami þinn eins og líkneski til sölu. Minjagripur um óreiðu og doða. Far í veröldinni eftir hnjask.

En þú lætur eins og þú sért í einhvers konar hópefli. Hress, æst, tætt að innan, sæt að utan.

Fyrir neðan, hópur af fólki, börnum með ís, gömlu fólki sem þarf að setjast á bekk til að horfa upp, af hópnum skín sú einskæra sæla sem fylgir því að sjá ungar konur niðurlægja sig. (16-17)

Þessi leikþáttur er nokkuð lýsandi fyrir þessa „skemmtiferð“ kvennanna á sólarströndina sem ætla má að hafi þróast á annan veg en lagt var upp með. Þarna eru dregnar upp afar sláandi andstæður milli þeirrar glansmyndar sem hangir á veggnum, og sýnir konur hafa það huggulegt í útlandinu að sötra vín, og raunveruleikans sem gefur mynd af drykkjuskap og hömluleysi og um leið bjargarleysi konunnar þegar þannig er ástatt fyrir henni. Það sem er ekki hvað síst hryllilegt við þá mynd sem þarna er dregin upp er að hún er allt of þekkt úr djammheimi kvenna. Það má einnig ætla að sagan sé sönn eða að minnsta kosti byggð á sannsögulegum atburðum því haft er eftir Evu Rún að ljóðabókin sé byggð á ferð sem hún fór 18 ára til Benedorm: „Ferð sem var botninn á löngu niðurrifsskeiði og um hana hefur ekki verið rætt í fjöldamörg ár.“1

Kynfrelsi kvenna

Í bókinni er einnig fjallað hispurslaust um kynhvöt og kynlíf kvenna. Öðrum þræði er þetta nokkuð ögrandi en fyrst og fremst hressilega berorð umfjöllun um eðlilega kynhvöt kvenna. Þarna er þó einnig stutt í tryllinginn og nöturleikann, líkt og sjá má í eftirfarandi textabroti sem sýnir samtal vinkvennanna þar sem þær rifja upp misjafnlega eftirminnilegar samfarir:

11.

Fullorðnar konur í löngu liðnu partíi. Klæðast bolum með reistu typpi framan á og áletruninni: Halló Bless.

B: Samfarir við vini þína.

A: Samfarir við vinkonur þí