• Soffía Auður Birgisdóttir

Steinsnar frá ragnarökum

Mér telst til að ekki færri en átta ný íslensk smásagnasöfn hafi komið á markað á þessu ári, sem hlýtur að sæta tíðindum. Þá má einnig nefna smásagnaflokkinn Smásögur heimsins sem hefur verið að koma út undanfarin ár – Asíubindið kom út nýverið – og fleiri þýðingar á erlendum smá- og örsögum hafa komið út á nýliðnum árum. Smásagan virðist því í sókn í íslenskum bókmenntaheimi, líkt og ljóðið, en báðum þessum tegundum skáldskapar var ítrekað spáð andláti á ofanverðri tuttugustu öld.


Þrjú af hinum nýju íslensku smásagnasöfnum eru eftir konur, Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Kláði eftir Fríðu Ísberg og Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Minna má á að margir af okkar helstu smásagnameisturum hafa verið kvenkyns – Ásta Sigurðardóttir, Jakobína Sigurðardóttir, Svava Jakobsdóttir, Fríða Á. Sigurðardóttir og Steinunn Sigurðardóttir, svo einhverjar séu nefndar. Áður fyrr var leitt að því líkum að formið hentaði önnum köfnum konum betur en langar skáldsögur, en á þeirri röksemd eru margar hliðar sem ekki gefst færi á að ræða hér. Hér á eftir verður litið á eitt af þessum nýju íslensku smásagnasöfnum – en hinum verða gerð skil síðar.


Keisaramörgæsir

Um er að ræða fyrstu útgefnu bók Þórdísar Helgadóttur en áður hafa birst eftir hana sögur í tímaritum. Á baksíðu bókarinnar er fullyrt að Þórdís sé einn efnilegasti höfundur landsins. Gagnvart slíkri fullyrðingu um nýjan höfund gæti lesandi fyllst tortryggni en ekki þarf að lesa lengi til að sannfærast um að fullyrðingin stendur vel undir sér. Þórdís hefur greinilega mjög gott vald á tungumálinu, sögur hennar eru frumlegar; alls konar í laginu og misjafnar að lengd, en aðall þeirra er firnasterkt andrúmsloft sem henni tekst að skapa í flestum sagnanna. Sá samsláttur ólíkra bókmenntagerva sem hún vinnur með er hneigð sem virðist sækja í sig veðrið í verkum ungra höfunda, hér má greina áhrif frá íslenskum þjóðsagnaarfi og fantasíu, vísindaskáldskapur fléttast raunsæi í blöndu sem oftar en ekki skapar óhugnað sem sendir kaldan hroll niður bakið á lesandanum. Við bætist að textinn er mjög fyndinn á köflum, auk þess sem hann gefur mikla möguleika á vangaveltum og túlkunum.

Keisaramörgæsir skiptist í þrjá númeraða hluta: I, II og III. Ekki er þó augljóst hvað ræður þessum kaflaskiptum því hvorki þema né frásagnarform virðist tengja sögur hvers hluta betur en þær tengjast sögum hinna hlutanna. En vera kann að þarna sé einhver lógík að baki sem opinberast við endurtekinn lestur.


Sögur bókarinnar eru 16 og eins og áður sagði er það hið sterka andrúmsloft þeirra sem fyrst grípur athyglina. Söguefnin snerta beint samtímatilveru okkar með öllum þeim vandræðum og ógnum sem steðja að lífi á jörðinni í dag. Ekki síst kemur við sögu ungt fólk sem á framtíðina vísa - eða ekki. Hér er skrifað um samskipti kynjanna af innsæi og háðskri hreinskilni; hér er fjallað um móðurhlutverkið, börn (sum ofurgáfuð), vinkonusambönd, líkamann, náttúruna, dýr og furðuskepnur, vísindi og tækni, svo fátt eitt sé talið.


Heimspekilegur undirtónn

Í frásagnarhætti Þórdísar býr heimspekilegur undirtónn og það kemur því ekki óvart að uppgötva að hún er menntuð bæði í heimspeki og ritlist. Í sögunni „Greinar“ segir:

„Eftir því sem ég eldist finnast mér ýmsar hliðar veruleikans líkari vísindaskáldskap. Og ég er ekki að tala um tæknina heldur fyrst og fremst tímann en líka minnið og allt hitt.“ (62)


„Við horfum inn í fortíðina hvert á sinni tímalínu. Það sem við vitum um okkur núna litar allt sem við sjáum í ljóskeilunni fyrir aftan okkur,“ (63)

Tæknin, tíminn, minnið, staða manneskjunnar í veröld sem er ógnað á ýmis konar hátt; allt eru þetta heimspekilegar spurningar sem eru undirliggjandi í textum Þórdísar en úrvinnslan er aldrei fyrirsjáanleg, hún snýr ætíð upp á veruleikann á óvæntan hátt. Orðin sem ég hef valið að fyrirsögn vísa í setningu í þessari sögu: „Haltu þig frá skógareldunum en farðu samt ekki svo langt að þú stígir inn í fellibyljina. Mér líður eins og við stöndum steinsnar frá ragnarökum [...]“ (63). „Greinar“ er stutt saga, í bréfaformi, lýsir sambandi tveggja vera sem hafa vaxið sundur. Hana má lesa sem lýsingu á vinasambandi en þó er eitthvað á skjön og verurnar undarlegar. Sagan er að nokkru leyti dæmigerð fyrir þá skjönun sem sífellt er á ferðinni í þessum sögum: Veruleiki og hliðarveruleiki vefjast saman og koma lesanda oft í opna skjöldu. Það er kannski ekki síst slíkur samsláttur vísindaskáldskapar og veruleika í texta Þórdísar sem ljær þeim andrúmsloft óhugnaðar og spennu.


Dauðadæmd pláneta


Bessadýr

„Það eru liðin þrjú ár síðan við áttuðum okkur á því að heimurinn væri að farast“ segir í upphafi sögunnar „Bessadýrin“ sem er með þeim óhugnanlegri, stutt en mögnuð, samsett af merktum textabrotum sem virðist vanta eitthvað inn í eins og gloppótt handrit. Textabrotin lýsa dauðadæmdri plánetu þar sem allir sitja saman í súpunni“ – nema auðvitað Bessadýrin, sem „þurftu ekki neitt“ (20). Þetta er líklega hreinræktaðisti vísindaskáldskapur bókarinnar og hrollurinn sem hann vekur minnir einna helst á sumar sögur Steinars Braga, svo vísað sé í íslenskan höfund. Vonandi vísa hin gloppóttu textanúmer í sögunni á að höfundur eigi fleiri brot úr þessu handriti og því möguleiki á að efna í enn stærri sögu - nema að það sé einmitt punkturinn, að hér sé um brot úr glötuðu handriti að ræða.


Í sögunni: „Það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommaso Marinetti“ er sett upp viðtal við persónu sem hefur lifað margar aldir og sver af sér samband við fútúristann Marinetti. Líkt og á við um „Bessadýrin“ er hér um stutta en þétta og efnismikla sögu að ræða. Hér er meðal annars snúið upp á hugtakið „náttúrusinni“ á gráglettinn og mjög írónískan hátt þegar persónan segir:


Ég er náttúruvinur. Ég aðhyllist lögmál náttúrunnar. Ekki náttúruverndarsinni, alls ekki skrifa það. Mannkynið hefur sjaldnar verið heimskara en daginn sem það byrjaði að tala um að náttúran þyrfti á vernd að halda. Vernd okkar! Vernd fyrir okkur! Valdagröðustu despótar sögunnar gátu ekki skrúfað hrokann upp í svoleiðis hæðir.“ (22)


Aðeins síðar segir: „Að útrýma öðrum tegundum er nú eiginlega bara skylda hverrar þeirrar lífveru sem á annað borð kemur sér í þá stöðu að geta gert það“ (22-23). Það er eftir gangi náttúrunnar að mannkynið eyði sjálfu sér í leiðinni, fullyrðir sögupersóna: „Þú sérð að það þarf að rýma svolítið til hérna“ (23). Og einnig:


Það er augljóst að náttúran kann best að meta öfgar. Almennilegan kulda til dæmis. Vetnissprengjur og hörku. Ekki eitthvert svona blautt og fínstillt lífríki úti í mýri eins og við höfum hér. Nei, náttúran hefur mest gaman af því að horfa á harða hluti skella hvorn á öðrum á miklum hraða. Náttúran er þriggja ára. Hún vill árekstra. Síendurtekna. Sársaukalausa. Og svo alls konar gastegundir inn á milli. (23)


Sannarlega er hægt að tala hér um umsnúning og ögrandi sjónarhorn, slíkt er alltaf áhugavert.


Skjönun veruleikans


Nokkrar hinna lengri sagna í bókinni fjalla um sambönd ungs fólks og þar er skýrari tenging við veruleikann, eins og við þekkjum hann, en í ofannefndum sögum. Þó á sér alltaf stað einhvers konar skjönun sem grefur undan hinum raunsæja grundvelli frásagnarinnar og kemur lesanda á óvart - jafnvel illilega. Sem dæmi má nefna sögurnar „Út á milli rimlanna“ og „Leg“ sem eru afar ólíkar en báðar magnaðar. Sú fyrrnefnda sýnir okkur úrvinda en sakbitna móður sem reynir að hvíla sig í stuttri ferð til útlanda en þarf þar að horfast í augu við ýmsa djöfla, innra með sér og ytra. Sú síðarnefnda er hreint kostuleg lýsing á sambandi ungs fólks, þar sem heilsurækt og matarklúbbur koma við sögu og endirinn er sannarlega óvæntur.


Hér gefst ekki færi á að kafa ofan í sögur Keisaramörgæsa, ég hef aðeins staðnæmst við nokkrar sem gripu athyglina við fyrsta lestur en mun fleiri hefði verið vert að nefna. Ég stenst þó ekki mátið að nefna eina enn, söguna „Bylgja“ sem er ein af mínum uppáhalds. Þar fylgir sjónarhornið ofurgáfuðu barni sem er að reyna að púsla heiminum saman. Inn í frásögnina fléttast þemu í ætt við draugasögur og stemningin magnast eftir því sem á líður.


Í viðtali við Þórdísi á leslistinn.com nefnir hún höfunda sem hún hefur hrifist af og gleypt í sig. Meðal þeirra er Stephen King og vel má sjá áhrif frá honum í þessum sögum - kannski má segja að hér mæti skáldskaparaðferð Stephens King femínískum og heimspekilegum pælingum og úr verður frábær blanda.


Tímamót?


Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk. Mér virðist sem hér sé líka tekið ákveðið stökk og á von á að sögur Þórdísar verði umdeildar, að þær muni ekki falla öllum í geð, líkt og í tilviki Svövu. En hér er svo sannarlega eitthvað nýtt á ferðinni og ég hlakka til að sjá meira frá þessum höfundi. Sögur Keisaramörgæsa á ég eftir að endurlesa oft til að ráða í þann margbrotna 'veruleika' sem þar er settur fram.


Soffía Auður Birgisdóttir