SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. desember 2018

Fjöldi kvenna hreppti Verðlaun bóksala

Í gærkvöldi var tilkynnt í bókmenntaþættinum Kiljunni hvaða bækur hlutu Verðlaun bóksala í ár. Þau voru ófá verkin eftir konur sem hrepptu verðlaunin.

Í flokki íslenskra skáldverka vermir Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur fyrsta sæti, Kláði eftir Fríðu Ísberg hlaut annað sæti og Þorpið eftir Ragnar Jónasson var í þriðja sæti.

Í flokki ljóðabóka hlaut Sálumessa eftir Gerði Kristnýju fyrsta sætið, Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur annað sætið og Því miður eftir Dag Hjartarson lenti í þriðja sætinu.

Í flokki ungmennabóka var Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur efst á lista, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur hreppti annað sætið og Sölva saga Daníelssonar eftir Arnar Már Arngrímsson lenti í þriðja sætinu.

Í flokki ævisagna vermir Hasim eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur efsta sætið, Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur hlaut annað sæti og Skúli fógeti eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur lenti í þriðja sætinu ásamt Hundakæti eftir Þorstein Vilhjálmsson.

 

 

 

 

Í flokki handbóka lenti Flóra Íslands eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Hörð Kristinsson og Jón Baldur Hlíðberg í fyrsta sæti, Stund klámsins eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur í öðru sæti og Gleðin að neðan eftir Ninu Brochmann og Ellen Støkken Dahl (í þýðingu Sögu Kjartansdóttur) í þriðja sæti.

 

 

 

 

 

 

 

Í flokki íslenskra barnabóka hreppti fyrsta sætið Ljóðpundari eftir Þórarinn Eldjárn (myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn) annað sætið kom í hlut Skarphéðins Dungal eftir Hjörleif Hjartarson (myndskreytt af Rán Flygenring) og Þitt eigið tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson lenti í þriðja sæti.

Í flokki þýddra barnabóka er bókin um Múmínálfana eftir Tove Jansson efst (í þýðingu Steinunnar Briem og Þórdísar Gísladóttur), Miðnæturgengið eftir David Walliams í öðru sæti og Handbók fyrir ofurhetjur eftir Elias og Agnes Våhlund (í þýðingu Ingunnar Snædal) í hinu þriðja.

 

 

 

Í flokki þýddra skáldsagna lenti Allt sundrast eftir Chinua Achebe (Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi) í fyrsta sæti, Smásögur heimsins: Asía og Eyjaálfa (ýmsir þýðendur) í öðru sæti og Homo sapína eftir Niviac Korneliussen (Heiðrún Ólafsdóttir þýddi) lenti í þriðja sæti ásamt Etýður í snjó eftir Yoko Tawada (í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur) .