SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. desember 2018

Ellefu konur tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Í gærdag var tilkynnt, við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum, hvaða bókmenntir eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þar voru konur í miklum meirihluta.

Í flokki barna-og ungmennabóka voru fjórar konur tilnefndar: Hildur Knútsdóttir fyrir skáldsöguna Ljónið, Ragnheiður Eyjólfsdóttir fyrir Rotturnar og Sigrún Eldjárn fyrir Silfurlykillinn. Auk þeirra var Rán Flygenring tilnefnd, ásamt Hjörleifi Hjartarsyni, fyrir Söguna af Skarphéðni Dungal sem setti fram kenningar um eðli alheimsins.

Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis voru fimm konur tilnefndar: Auður Jónsdóttir, Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir fyrir Þjáningarfrelsið. Óreiðu hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir fyrir Skúla fógeta: Föður Reykjavíkur - sögu frá átjándu öld og loks Þóra Ellen Þórhallsdóttir, ásamt Herði Kristinssyni og Jóni Baldri Hlíðberg, fyrir Flóru Íslands. Blómplöntur og byrkningar.

Loks voru tvær konur tilnefndar í flokki fagurbókmennta: Gerður Kristný fyrir Sálumessu og Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Ungfrú Ísland.

Myndin er sótt á vefsíðu RÚV.