• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Bókamessa í Hörpu 2018


Bókamessa verður haldin næstu helgi í Hörpu. Bókamessa er orðin árlegur viðburður en þar verja tíma sínum saman rithöfundar, útgefendur og lesendur. Boðið er upp á skemmtilega bókmenntadagskrá þar sem fjöldi skáldkvenna stígur á stokk.

Bókamessan er sem fyrr segir 24. og 25. nóvember í Hörpu. Opið er báða dagana frá 11-17 og er frítt inn á alla dagskrána.

DAGSKRÁ BÓKAMESSU Í HÖRPU ÁRIÐ 2018

LAUGARDAGUR 24. NÓVEMBER

UNDRALAND BÓKANNA Í FLÓA

11:00 – 17:00 Bókasmakk fyrir krakka á öllum aldri Allar nýjar barna- og ungmennabækur ársins á einum stað til að fletta og skoða.

RÍMA A

13:00 – 14:00 Framandi heimar Gauti Kristmannsson ræðir við þýðendur um verk að utan sem sæta tíðindum í bókmenntaflóru ársins, þau Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur (Smásögur heimsins – Asía og Eyjaálfa), Ingunni Ásdísardóttur (Sakfelling: forboðnar sögur frá Norður-Kóreu) og Gunnar Þorra Pétursson (Hinir smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskíj).

14:30 – 15:00 Höfðingjaspjall Veru og Illuga Feðginin Vera Illugadóttir og Illugi Jökulsson spjalla um þjóðhöfðingja Íslands frá upphafi til okkar tíma út frá bók Veru um efnið. Þar varpar hún fróðlegu og fjörlegu ljósi á þjóðhöfðingja Íslands allt frá Hákoni gamla til Guðna Th. Jóhannessonar. Hverjir voru allir þessir kóngar og drottningar fortíðarinnar, hvaða skandala drýgðu þau og hver voru afrek þeirra?

15:15 – 15:45 Ærumissir Ólafur Þ. Harðarson og Davíð Logi Sigurðsson ræða saman um stjórnmálamanninn Jónas frá Hriflu en Davíð Logi sendir nú frá sér bókina Ærumissi um þennan umdeilda forystumann og samskipti hans við Einar M. Jónasson sýslumann á Patreksfirði. Þetta er pólitísk saga einstaklinga sem urðu leiksoppar í valdatafli á umbrotatímum þegar Ísland var að brjótast til nútímans.

16:00 – 17:00 Lærðu að hnýta Macramé er nýjasta æðið og nú hefur bókin Macramé - hnútar og hengi litið dagsins ljós. Ninna Stefánsdóttir, annar af höfundum bókarinnar, hefur kennt þessa aðferð við miklar vinsældir og hér deilir hún þekkingu sinni á þessari bráðfallegu og einföldu handavinnu.

RÍMA B

13:00 – 14:00 Leitandi sögur Maríanna Clara Lúthersdóttir spjallar við höfunda þriggja ólíkra verka sem þó má segja að fjalli öll um einhvers konar ferðalög í tíma eða rúmi. Júlía Margrét Einarsdóttir sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu (Drottningin á Júpíter. Absúrdleikhús Lilla Löve) og verður hún hér í félagsskap þekktari en ekki síður nýstárlegra höfunda, þeirra Eiríks Guðmundssonar (Ritgerð mín um sársaukann) og Ófeigs Sigurðssonar (Heklugjá – leiðarvísir að eldinum).

14:30 – 15:30 Stórar sögur Guðni Tómasson fær til sín höfunda þriggja nýrra bóka sem fjalla hver með sínum hætti um uppruna, fjölskyldutengsl og ólíka menningarheima, þær Sólveigu Jónsdóttur (Heiður), Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur (Hasim, götustrákur í Kalkútta og Reykjavík) og Önnu Rögnu Fossberg (Auðna).

15:45 – 16:45 Hinsegin sögur Ásta Kristín Benediktsdóttir ræðir við þau Guðjón Ragnar Jónasson (Hin hliðin – hinsegin leiftur og örsögur), Heiðrúnu Ólafsdóttur (Homo sapína e. Niviaq Korneliussen) og Þorstein Vilhjálmsson (Dagbækur Ólafs Davíðssonar) um þrjár bækur sem snerta á hinsegin málefnum, hvort sem er í sögu ellegar samtíð á Íslandi eða Grænlandi dagsins í dag.

KRAKKAHORN SLEIPNIS

14:30 Fíasól og réttindi barna Kristín Helga Gunnarsdóttir höfundur bókanna um Fíusól spjallar um réttindi barna og býður krökkum að hugsa um sín eigin réttindi í anda Fíusólar. Hægt verður að skreyta réttindatré barna með eigin óskum.

15:00 Spurningaleikur - Veistu svarið? Á hvoru auganu er Stjáni blái blindur? Hvernig drepa bóaslöngur bráð sína? Hvort lokar maður hurðinni með dyrunum eða dyrunum með hurðinni? Höfundar Stóru spurningabókarinnar stýra skemmtilegum spurningaleik fyrir hressa krakka og fylgdarfólk þeirra.

16:00 Svartholið Sævar Helgi Bragason leiðir gesti í allan sannleika um hin spennandi og dularfullu fyrirbæri svarthol.

UNDRALAND BÓKANNA

12:30 – 14:20 Sögustundir, lesið úr nýjum barnabókum Komdu þér vel fyrir á söguteppinu og farðu í ævintýraferð með höfundum nýrra barnabóka eða fulltrúum þeirra.

Þessi lesa upp:

  • Ragnheiður Gröndal og Bergrún Íris Sævarsdóttir: Næturdýrin

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir: Freyja og Fróði rífast og sættast

  • Hjörleifur Hjartarson: Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins

  • Bjarki Karlsson: En við erum vinir eftir Hafstein Hafsteinsson

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir: Elstur í leynifélaginu

  • Þórarinn Már Baldursson: Maxímús Músíkús fer á fjöll eftir Hallfríði Ólafsdóttur

  • Þórarinn Eldjárn: Ljóðpundari

STORYTEL HEIMUR Í FLÓA

13:00 Hallgrímur Thorsteinsson ræðir við Snjólaugu Bragadóttur.

13:30 Baldur Trausti Hreinsson les úr Krýsuvík eftir Stefán Mána.

14:00 Hallgrímur Thorsteinsson spjallar við Stefán Mána.

14:30 Kristján Franklín les úr bókinni Þetta var bróðir minn ... Theó og Vincent Van Gogh eftir Judith Perrignon í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur.