Komið við á Staðastað eftir Kristínu R. Thorlacius

 

Kristín R. Thorlacius (1933-2018) hefur nú bæst við Skáldatalið og af því tilefni á hún ljóð dagsins. Ljóðið heitir Komið við á Staðastað en þar bjó Kristín lengst af ásamt eiginmanni sínum, sr. Rögnvaldi Finnbogasyni, og börnum.

 

Ljóð Kristínar birtist í ljóðabókinni Fley og fleiri árar sem Ljóðahópurinn Ísabrot gaf út árið 2002.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Komið við á Staðastað

 

Þá spyr

þessi kaldi dagur:

Hvers vegna ertu hér?

Hvað ertu að gera

á þessum stað

þar sem norðanvindurinn

blæs skeifum undan hestunum

og höfuðin af kúnum?

Hvaða erindi átt þú hingað?

 

Það er komið rof

í garðinn sem við hlóðum

tjörnin næstum horfin

og þarf að fara að mála þökin

Samt er ég komin hingað

einu sinni enn

 

En jökullinn gnæfir

í vestri

og Ljósufjöll í suðri

Þótt enn sé kalt

er kollan líka komin

í Gamla hólma

og krían í Kringlumýrina

og lambærnar skýla sér

undir kirkjugarðshleðslunni

Allt eins og var

 

Og ég veit hvers vegna

ég er hér

að ylja mér í norðannepjunni

það var oft svo gaman

hér léku krakkarnir mínir sér

og kannski bíður ástin mín

einmitt á þessum stað

 

 

Facebook
Líka við
Please reload

Please reload

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband