• Ása Jóhanns

Ný ljóðabók frá Guðrúnu Hannesdóttur


Út er komin sjöunda ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Þessa heims. Bókin er 67 blaðsíður og hefur að geyma fimmtíu og sjö ljóð. Kápu skrýðir ranghverfa altarisklæðis úr Laufáskirkju frá 1694.

Guðrún hefur á síðustu árum skipað sér í raðir góðskálda og hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 1996 fyrir bókina Risinn þjófótti og skyrfjallið og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 fyrir bók sína Offors.

Ljóðabók hennar Humátt var tilnefnd til Fjöruverðlauna 2016 með eftirfarandi umsögn: ,,Humátt er eftirminnileg, innihaldsrík og vönduð ljóðabók sem einkennist af skörpu innsæi, aðdáunarverðum stílbrögðum og óbilandi tilfinningu fyrir möguleikum ljóðsins."

Nánari upplýsingar um Guðrúnu má finna í Skáldatali.