SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 7. september 2018

KONUR SKRIFA UM KONUR í Skírni, Sögu, Són og Tímarit Máls og menningar

Síðastliðið vor streymdu bókmennta- og sögutímarit í hús áskrifenda: Skírnir, Saga, Són og Tímarit Máls og menningar. Svo ber við að greinar eftir konur og um konur eru óvenju margar í þessum tímaritum og ástæða til að vekja athygli á áhugaverðu efni sem þarna er að finna.

 

Konur skrifa um konur í Skírni, Sögu, Són og Tímarit Máls og menningar

 

Fjallað um Gerði Kristnýju og Elísabetu Jökulsdóttur

Í ársritinu Són, tímariti um óðfræði (sem reyndar hefur ártalið 2017 þótt það hafi ekki komið út fyrr en í vor) er mjög góðar greinar um konur og ljóðlist. Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson skrifa saman greinina: „Átti hún ekki alltaf inni hjá þér ljóð?“ – Gerður Kristný og raddir kúgaðra kvenna.“ Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir skrifa saman fyrstu fræðigreinina sem birst hefur um skáldskap Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur: „eða er það ástin sem er að missa hárið“ – Um ást, þrá og sársauka í bókinni Ástin er ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett. Þá skrifar Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík grein um Ölvis rímur sterka. Ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, Þórdísi Helgadóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Hrafnhildi Þórhallsdóttur og Valgerði Benediktsdóttur prýða einnig þetta hefti Sónar.

 

Bríet og aðrar kvenfrelsiskonur

Í vorhefti Skírnis skrifar Helga Kress skemmtilega grein um skáldsöguna „Kvenfrelsiskonur“ eftir Stefán Daníelsson, frá árinu 1912, margt spaugilegt þar á ferðinni. Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur skrifar Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og skó Jóns Sigurðssonar. Helga Hilmisdóttir skrifar grein um unglingamál. Myndlistarmaður Skírnis er að þessu sinni Þórdís Aðalsteinsdóttir.

 

Húsmæður og aðrar athafnakonur

Í Sögu, tímariti Sögufélagsins skrifar Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur um barnsfarasótt á Íslandi á 19. öld. Sigurbjörg Elín Hólmarsdóttir sagnfræðingur skoðar gestgjafahlutverk húsmæðra í íslenskum matreiðslubókum og þær Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur og Þorgerður Einarsdóttir félagsfræðingur fjalla um athafnakonur meðal íslenskra vesturfara. Í Sögu er einnig tekið fyrir álitamálið ritskoðun og tjáningarfrelsi í sögulegu tilliti. Um það skrifa m.a. Ásta Kristín Benediktsdóttir doktorsnemi í bókmenntafræði og Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur.

 

Gyðjurnar og litla gula hænan

Mynd af ástar- og frjósemisgyðjunni Freyju prýðir kápu 2. heftis Tímarits Máls og menningar en í heftinu er m.a. að finna grein eftir Hallfríði J. Ragnheiðardóttur sem ber titilinn „En er hún fer …“ sem fjallar um Freyju og Brísingamenið. Kristín Ómarsdóttir birtir eitt af sínum dásamlegu viðtölum, í þetta sinn ræðir hún við bandarísku skáldkonuna Eileen Myles. Sigríður Jónsdóttir er með skemmtilega og óvænta útleggingu á Litlu gulu hænunni og skáldin Þórhildur Ólafsdóttir, Fríða Ísberg og Auður Styrkársdóttir eiga líka skáldskap í heftinu. Í ritdómum er m.a. fjallað um Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur og Móðurlífið, blönduð tækni eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur.