SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn31. ágúst 2018

INGVELDUR OPNAR SKÚFFUNA SÍNA - Viðtal við Ingveldi Thorarensen

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Júlía Sveinsdóttir hitti Ingveldi Thorarensen á kaffihúsi í miðbænum á einum af þessum fallegu (og sjaldséðu) sólardögum í sumar. Eftir að hafa dásamað og mært blessuðu sólina bið ég Ingveldi að segja aðeins frá sér og sínum högum. Að hennar sögn er hún fyrst og fremst fjögurra barna móðir, eiginkona og ekki hvað síst amma sem henni finnst eitt skemmtilegasta hlutverkið. Ömmustelpan hefur algerlega brætt okkar konu, eins og smjör á pönnu, og Ingveldur ljómar þegar hún talar um Úu. Framan af lífinu var nóg að gera í barnauppeldinu og allskyns vinnu og það fór lítið fyrir námi þó að löngunin hafi verið til staðar. Ingveldur bætti úr því um leið og hægðist um; hún fór í kvöldskóla upp úr þrítugu og náði sér í stúdentspróf og rúmlega fimmtug dreif hún sig í Háskóla Íslands. Vorið 2014 útskrifaðist Ingveldur með BA í almennri bókmenntafræði. Hún naut áranna í Háskólanum þar sem hún kynntist fullt af yndislegu fólki á öllum aldri og færði námið henni aðra sýn á lífið og heiminn.

Orðin, vísurnar og hagyrðingar

,,Ég var send í sveit þegar ég var tíu ára gömul og var ég heppin með sveitadvölina en ég dvaldi fjögur sumur á Skálpastöðum í Lundarreykjadal. Þar voru bændurnir afar hagmæltir og ég man alltaf þegar svokölluð töðugjöld voru um haust og vísur voru skrifaðar á smjörpappír og settar inn í smákökur áður en þær voru bakaðar. Kökurnar voru gómsætar og þegar þú fékkst þér smáköku og beist í þá þurftir þú að taka smjörpappírinn úr kökunni og lesa upp vísuna. Ég varð gersamlega heilluð og strax þarna tíu ára samdi ég mína fyrstu vísu. Fann þá strax að mér fannst gaman að tala og skrifa í bundnu máli og hef gert síðan. Er eiginlega alltaf að raula og ríma allan daginn. Um leið og þú Júlía falaðist eftir viðtali þá datt þessi vísa í huga minn:

 

Komdu og skoðaðu í skúffuna mína,

skrifað ég hef nokkur ljóðin á blað,

nú mun ég ófeimin eitthvað þér sýna,

ekki samt dæma mig hart fyrir það."

 

Nútímaljóð og áhrifavaldar?

,,Ég var, og er, nokkuð föst í gamla ljóðaforminu og mér fundust „nútímaljóð“ ekki spennandi fyrr en ég las ljóðabók eftir Einar Má Guðmundsson. Þar opnaðist nýr heimur fyrir mér og síðan hef ég aðeins reynt fyrir mér í þeirri deildinni. Það er samt erfiðara finnst mér. Ég er nokkuð ánægð þó með þetta ljóð mitt sem ég dreg hér með upp úr skúffunni. Það samdi ég þegar eitt af mínum börnum varð fyrir erfiðri lífsreynslu:

 

Ef ég aðeins

gæti tekið sorgina þína og kvíðann

og brotið snyrtilega saman ofan í kassann á háaloftinu

þar sem ég geymi fötin þín

sem þú þurftir ekki á að halda þegar þú varst lítill.

 

Annar áhrifavaldur er Sjón. Bókina hans Skugga-Baldur gæti ég lesið á hverju kvöldi og smjattað á hverri setningu. Ég á mér draum um að geta skrifað þannig bók. Það má láta sig dreyma! Ég hef aldrei gefið út ljóðabók og er ástæðan helst sú að mér finnst ég aldrei nógu góð eða hafa eitthvað nógu merkilegt fram að færa. Maðurinn minn og börn fá þó oft að sitja undir ljóðalestri þegar mér finnst ég hafa skapað eitthvað áhugavert. Elskulega fésbókin hefur líka stundum platað mig til að henda einhverju út í loftið og það er alltaf gott að fá viðbrögð frá vinum og vandamönnum. Á ferðalagi um landið fyrir nokkrum árum leit ég Goðafoss í fyrsta skipti með berum augum. Þetta kom upp í hugann við þá upplifun:

 

Fór að skoða

fossinn goða.

Feldinn hvergi var að sjá.

Kristin, heiðin?

Í kross var leiðin

sem kljáði Þorgeir út um þá."

 

Þulurnar

,,Þulur eru mér hugleiknar og ekki síst vegna þess að þessi sérstaka tegund kvæða var oftast kvenna, sem skýrir líka fálætið sem þulur hafa fengið í bókmenntasögunni. Ömmuhlutverkið er yndislegt, eins og ég sagði í byrjun, og mér var það bæði ljúft og skylt að setjast niður og semja og færa ömmustelpunni minni þulu í sumargjöf í fyrra þar sem ég lýsi hennar persónuleika og því sem hún hefur gaman af. Í þulunni gef ég henni líka nokkur heilræði, eins og gjarnan eru í þulum:

 

Fína á ég ömmusnót

alltaf hleypur mér í mót

brosandi með fiman fót

fyrir ömmu er hún bót

allra heilsumeina.

Vandlát getur verið hót

viljinn sterkur eins og grjót

kjóla alltaf fer í fljót

fjólublátt og bleikt vill dót

og brúna uglu eina.

Lífið stundum erfitt er

engan láttu segja þér

annað en það sem þú vilt

umfram allt þá forðast illt

eitt er gott og annað gilt

gull á ekki alltaf skylt

við óskafjörusteina.

Mundu elsku Úa mín

amma verður alltaf þín

hvað sem verður hvað sem er

hvað sem lífið færir þér

aldrei dofnar Úa mín

ömmuástin hreina.

 

Ég gef mér alltof sjaldan tíma til að setjast niður og semja. Svo sjaldan að eitt sinn þegar ég gerði mér ferð í bókasafnið og hugðist næra huga og sál þá sá ég ástæðu til þess að semja um það:

 

Slekk á síma læsi hurð því nú þarf næði

Nördinn bóka fór á safnið tók þar æði.

Næring dagsins, víma kvöldsins; ljóð og kvæði."

 

Vinnan og skáldkonan

,,Ég hef unnið allskyns störf um ævina. Áður en ég fór í háskólann þá vann ég á leikskóla og einhverra hluta vegna er ég komin aftur á sama leikskóla eftir námið. Það er í góðu lagi, ég er í sérkennsludeildinni og bókalestur er stór partur af kennslunni. Ég vil taka undir það sem margir segja; það vantar sárlega fleiri barnabækur. Kannski ég skelli mér í málið!

Margoft hefur verið hóað í mig til vísnagerðar á tyllidögum, afmælum og slíku. Leikskólinn sem ég vinn á hélt upp á 30 ára afmæli núna í maí. Ég var beðin um að semja texta í tilefni þess og hafa umhverfið í huga þar sem krakkarnir hafa gert umhverfissáttmála og gefa sig út fyrir það að ganga vel um jörðina og endurvinna og flokka. Í huga mínum hljómaði alltaf laglína þegar ég var að semja textann og dóttir mín Sóley Stefánsdóttir aðstoðaði mig við að fínpússa lagið. Ég er mjög sátt með þennan texta og lagið og hreinlega táraðist þegar börnin frumfluttu lagið á afmælisdegi leikskólans. Samstarfsfólk mitt var allavega það ánægt með textann að viðlagið úr laginu er núna notaður sem nýi umhverfissáttmáli skólans:

 

-Við viljum gera betur en í gær

Ganga vel um og líta okkur nær

Heimurinn stóri alltaf er þó kær.

Við eigum saman jörðina og allt sem þar grær.-

 

Þarna er ég að vísa í að nærumhverfið er það sem við hugsum um fyrst og fremst en heiminn allan þurfum við að taka með í stóra samhenginu.

Eitt ljóð er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og er eitt af mínum fyrstu sem ég samdi eftir að ég fór að glíma við óformlegu gerðina. Og það tók langan tíma að þróast í það sem það er núna, sem er einkennandi fyrir mig þegar ég sem „nútímaljóð“ því mér finnst þau seint verða tilbúin, ég er endalaust að breyta og laga. Það er kannski viðeigandi að enda á því og eigum við ekki að segja þar með að ljóðið sé tilbúið:

 

Þegar tíminn stendur á tröppunum mínum

bankar og segir:

notaðu mig eins og þú vilt.

Þá ætla ég að bjóða andanum margumtalaða í heimsókn.

 

Saman munum við

tíminn, andinn og ég

eignast fullt af ljóðum

og nostra við þau

þar til þau eru tilbúin að fara að heiman."