SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. ágúst 2018

Vel heppnuð Jakobínuvaka

jAKOBÍNUVAKA

Það var fullt út að dyrum á Jakobínuvöku í Iðnó síðastliðinn laugardag. Vakan var til heiðurs Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu þar sem hundrað ár eru liðin frá fæðingu hennar. Dagskráin samanstóð af fróðlegum erindum um skáldkonuna í bland við tónlist og upplestur úr verkum hennar. Tvær dætur Jakobínu tóku þátt í dagskránni, ásamt fleiri ættingjum; Sigrún Huld Þorgrímsdóttir stýrði vökunni og Sigríður K. Þorgrímsdóttir sagnfræðingur hélt erindi en hún er með bók í smíðum um móður sína sem byggir á bréfasafni hennar. Helga Kress steig einnig á stokk og hélt fróðlegt erindi um uppreisn kvenna og samskipti kynjanna í sögum Jakobínu. Þá flutti Ástráður Eysteinsson erindi um verk skáldkonunnar og loks komu ritlistarnemarnir Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir og Karítas Hrundar Pálsdóttir og lásu upp úr eigin verkum sem voru innblásin af verkum Jakobínu.

Auk fróðlegra og skemmtilegra erinda sungu Margrét Hrafnsdóttir og Þorsteinn Freyr Sigurðsson valin ljóð Jakobínu við lög Ingibjargar Azima og undirleik Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur. Þar á meðal var frumflutningur á ljóðinu Ást. Þá lásu Guðný Sigurðardóttir, Arnar Jónsson og Guðni Kolbeinsson úr verkum skáldkonunnar.

F.v. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Helga Kress, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir og Karítas Hrundar Pálsdóttir, Guðný Sigurðardóttir.

Myndir: Skáld.is