• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Spennandi Jakobínuvaka framundan


Það er vert að vekja athygli á afar spennandi dagskrá um Jakobínu Sigurðardóttur í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá fæðingu hennar. Jakobínuvakan verður á laugardaginn í Iðnó og hefst kl. 15.

Dagskráin geymir erindi um Jakobínu, upplestur og tónlistarflutning við ljóð hennar; Ástráður Eysteinsson, Helga Kress, Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir og Karitas Hrundar Pálsdóttir flytja erindi um skáldkonuna; Guðni Kolbeinsson, Hilmir Snær Guðnason og Guðný Sigurðardóttir sjá um upplestur úr verkum Jakobínu og Margrét Hrafnsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Guðrún Dalía Salómonsdóttir flytja lög við ljóð Jakobínu, eftir Ingibjörgu Azima. Rithöfundasamband Íslands setur dagskrána og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir stýrir henni. Nánar um dagskrána hér.

Myndin af Jakobínu er sótt á vefsíðu um skáldkonuna.