SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. júní 2018

Draumur - Vilborg Dagbjartsdóttir

Ljóð vikunnar er Draumur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur en þar lýsir hún svo vel viðhorfi skáldskaparguðsins (karlsins) til hennar; hann virðir skáldkonuna að vettugi og veitir eingöngu líkama hennar athygli, logandi af girnd.

Draumur

Mér þótti ég stödd á eyri eða nesi. Lá vegur af eyraroddanum austanverðu á ströndinni en efra tóku við klettabelti. (Aldrei hef ég hvorki í svefni né vöku séð útyflislegra landslag.) Gekk ég sem leið lá norður tangann með hafið á aðra hönd en hamravegginn á hina. Sá ég þá hvar maður kom á móti mér í nokkurri fjarlægð. Þegar hann nálgaðist sá ég að þetta var karlmaður, mikill vexti, klæddur stuttum, gráum stakki með dökkan hatt, slútti annað barðið svo það huldi nær hálft andlitið.

Svo þröngt var á einstiginu að ég straukst við hann þegar við mættumst og um leið laust því í hug mér sem eldingu hver hann var. Kallaði ég þá til hans, því ég þóttist eiga við hann margt vantalað.

Hann snögg stansaði, vatt til höfðinu, og undan hattbarðinu glitti í auga logandi af girnd.

Rann þá upp fyrir mér að jafnvel Óðinn sjálfur á ekki nema eitt erindi við konur. Og ég sem hélt ég væri skáld – mér tókst að hrista af mér svefninn og komst yfir í vöku – í sál minni brann reiðin.

(Ljóð, 1981)

Myndin af Vilborgu er sótt á vísi.is