SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. júní 2018

Ljóð vikunnar er: Hestafl sorgar

tólf hestar
frá Breiðabólstöðum
steinbæ Þórunnar ömmu
héldu til heljar rétt fyrir jól
um ístjörn Bessastaða
tólf ára systir Snorra á Húsafelli
tekin af Furhmann amtmanni
drukknaði í sömu tjörn
á átjándu öld
„boðar ófögnuð“
sagði ég við Eggharð
sem sat í prestastól
að greiða sítt hár sitt
blautt grásprengt slegið
kvöldið áður en hjartað sprakk
síðasta virka dag árs og lífs
bað um hárblásara
fyrsta og eina sinn
honum var kalt
fagur í kistunni
höfðinginn minn
hefur tólf með til Valhallar
óminnisdjúpið þangað
sannlega dó hann
á vígvelli pennans
sama draumsæi sér
hvernig hann rotnar
við hvítblátt sængurlín
franskar liljur
sorgin sá svarti fnykur
kom úr Faxaflóa
hvítu hryssanna
að sturla mig
Sleipnir
hentist með mig
heim í hjarta lífs
sem er sterkara
en dauðinn

Úr nýrri ljóðabók Þórunnar J. Valdimarsdóttur, Villimaður í París (JPV 2018). Umfjöllun um bókina í Kvennablaðinu.

Þórunn er í skáldatalinu.