• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Lundurinn græni - Ólína og Herdís


Ljóð vikunnar að þessu sinni er kvæðabálkur eftir þær systur Ólínu og Herdísi Andrésdætur. Þessi bálkur kom út árið 1951 í myndskreyttri útgáfu Halldórs Péturssonar en bálkurinn rataði síðan í þriðju útgáfu ljóðmæla systra sem kom út 1976. Í bálkinum er slegið á létta strengi en forsagan er sú að systurnar voru tíðir gestir á heimili frænku sinnar, Ásthildar Thorsteinsson í Gerðinu í Hafnarfirði. Ásthildur bjó við heldur kröpp kjör, á þeim tíma er hér um ræðir, en var þó jafnan með fullt hús gesta. Einn vinur Ásthildar bar slíka umhyggju fyrir henni að hann óttaðist að gestrisni hennar væri um efni fram. Einhverju sinni fannst honum nóg um hversu oft og lengi Ólína og Herdís dvöldu á heimili Ásthildar og spurði óttasleginn: „Éta þær hérna á kvöldin líka?“ Af þessu atviki urðu vísurnar og þulan til.

Myndin er af systrunum Herdísi, Maríu og Ólínu Andrésdætrum.

Hér er birt brot úr kvæðabálknum:

Ólína kvað:

Orðin er ég á árum tveim

óþarfadýr í þessum heim,

sem etur, en ekkert vinnur.

Flakkandi kem ég þrátt til þín -

þar er nú von ég skammist mín

og finni til eins og Finnur.

Svo ef í daga sit ég þrjá,

sumum held ég fyndist þá,

að nægja mætti minna.

Að ekkert komist upp um þig,

ættirðu helzt að fela mig

og láta ekki Finn mig finna.

Herdís kvað:

Ef mér lífið leiðist heima,

læt ég hugann tíðum sveima

yfir lönd og græðisgeima -

í Gerðinu ætíð kem ég við.

Þar hef ég mestan fundið frið.

En sárt þó langi sál að dreyma

og sælu fá þar inni, -

ég þori það ekki fyrir honum Finni.

Hatar hann allar húsgangsferðir,

hefur hann sterkan vörð um Gerðið,

metur hann dýrast matarverðið,

mörgum veit hann þar er beint

vetur, sumar, ljóst og leynt.

Og þó ég stundum hugann herði

og hvíli mig þar inni, -

ég þori það varla fyrir honum Finni.