• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Orð um bækur og konur


Orð um bækur er vikulegur bókmenntaþáttur á RÚV þar sem hugað er að öllu mögulegu á sviði bókmennta. Þátturinn hóf göngu sína haustið 2012 undir styrkri hönd Jórunnar Sigurðardóttir en hún hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, á degi íslenskrar tungu 2013, fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í þessum þáttum sem og öðrum sem hún hefur haft umsjón með hjá Ríkisútvarpinu. Undanfarið hefur Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttur sinnt umsjón þáttanna með Jórunni en Brynhildur hefur lengi látið sig kvenréttindi varða; hún er m.a. framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands og formaður stjórnar Fjöruverðlaunanna.

Bókmenntaþættirnir Orð um bækur eru allrar athygli verðir en hér verður bent á tvo þeirra þar sem konur koma mjög við sögu. Í þætti frá því 17. mars er fjallað um ofsóknir á hendur þremur skáldkonum; Elínu Thorarensen, Olgu Guðrúnu Árnadóttur og Vigdísi Grímsdóttur. Bækurnar Angantýr eftir Elínu, Uppreisnin á barnaheimilinu í þýðingu Olgu Guðrúnar og Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi ollu miklu fjaðrafoki í samfélaginu þegar þær komu út og er farið vandlega yfir þau mál hér. Annar afar athyglisverður þáttur var á dagskrá laugardaginn 2. júni. Hann fjallar um eiginkonur rithöfunda, þátt þeirra í verkum eiginmannanna og þeirra eigin skrif. Annars vegar segir frá hjónunum Soffíu Tolstaja og Leó Tolstoj og hins vegar frá Auði og Halldóri Laxness og einnig kemur Vera Nabokov aðeins við sögu en nafn hennar hefur síðan verið notað um konur sem helga líf sitt rithöfundarferli eiginmannsins. Þáttinn má nálgast hér.

Myndin er sótt á síðu RÚV.