• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Upprennandi skáldkona hlýtur nýræktarstyrk


Benný Sif Ísleifsdóttir hlaut í gær nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta, ásamt Þorvaldi Sigurbirni Helgasyni. Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til að styðja við útgáfu á verkum nýrra höfunda og hafa slíkir styrkir verið veittir allt frá árinu 2008.

Benný Sif hlýtur styrkinn fyrir sögulegu skáldsögu sína Grímu en hún segir frá lífi kvenna í íslensku sjávarþorpi upp úr miðri tuttugustu öld. Í umsögn Magnúsar Guðmundssonar og Þórdísar Eddu Jóhannesdóttur, bókmenntaráðgjafa, segir um söguna: „Sagan er grípandi, persónusköpun sterk og bygging verksins vel úthugsuð. Textinn er lifandi og skemmtilegur en um leið lýsir höfundur harmrænum atburðum af einstakri næmni. Frásagnargleði og væntumþykja fyrir viðfangsefninu einkenna þessa hrífandi skáldsögu.”

Myndin er sótt á vefsíðu RÚV.