• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Endurútgáfa verka Heiðar Baldursdóttur


Nú stendur fyrir dyrum endurútgáfa á verkum rithöfundarins og sérkennarans Heiðar Baldursdóttur. Heiður átti skamma ævi en hún varð aðeins 34 ára gömul. Engu að síður skrifaði hún sex skáldsögur, meðfram vinnu og ýmsum félagsstörfum, og hlaut strax mikið lof. Fyrsta bók Heiðar, Álagadalur, hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin árið 1989.

Sögur Heiðar eru afar mannbætandi því þar sýnir hún börn í öllum sínum fjölbreytileika. Ævinlega skera einhverjar sögupersónur sig úr en eru engu að síður hluti af vinahópnum. Þá er lögð rík áhersla á að séu börn séu jöfn og að þeim beri að vinna saman.

Undirbúningur endurútgáfunnar er í höndum dætra hennar, Brynhildar og Þóreyjar Mjallhvítar, ásamt föður þeirra, Ómari Harðarsyni. Bækurnar verða gefnar út á rafrænu formi og mun Hljóðbókasafn Íslands halda utan um útgáfuna sem verður öllum ókeypis. Þá er lögð á það mikil áhersla að sögurnar verði auðlæsilegar þeim sem eiga erfitt með lestur, sem er mjög í anda hugsjóna Heiðar.

Myndir er sóttar á vefsíðuna Stundin.is en þar má einnig finna frekari umfjöllun um skáldsögur Heiðar.