• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Mynd fyrir Louise Bourgeois, vinnustofu og þögn - Steinunn Ásmundsdóttir


Ljóð vikunnar að þessu sinni er eftir Steinunni Ásmundsdóttur og er sótt í nýútgefna bók hennar Áratök tímans. Ljóðabókin kom út 5. maí síðastliðinn hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi. Snemma árs árið 2016 urðu mikil tímamót í lífi Steinunnar því þá gaf hún sig aftur að skáldskapnum eftir tuttugu ára fjarveru á þeim vettvangi. Það sama ár opnaði hún hugverkavef sinn Yrkir.is sem geymir yfir 200 ljóð, bæði frumsamin og þýdd, ásamt sögum og ýmsum greinum. Á vef Steinunnar er hægt að panta eintak af ljóðabókinni.

Frekari upplýsingar um Steinunni má finna í Skáldatalinu.

Mynd fyrir Louise Bourgeois,

vinnustofu og þögn

(Hamborg, Þýskaland)

Athugar hvort þögnin er

ærandi stillt.

Hún skenkir þessari þögn

sköpun, tilfinningu, verk.

Rýmið þenst út

til endimarka skynjunar

og kjarnast í augasteinum.

Skerandi sársauki

ævagamallar reiði

í garð rudda og kúgara.

Þögult andóf formæðra

sem blóðá um æðar

dætra allra tíða.

Rennur enn

og inn í þagnarspegla

sem endurkasta vitneskju

í vitundina svo úr dreyrir.

Ærandi þögnin er hljóð.

Der Ort des Gedächtnisses

(Áratök tímans, útg. 2018).

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband