SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. maí 2018

Lilja Sigurðardóttir

Lilja Sigurðardóttir er skáld vikunnar að þessu sinni. Lilja er bæði leikskáld og spennusagnarithöfundur. Árið 2014 hlaut hún Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, fyrir leikritið Stóru börnin en það var sviðsett af leikfélaginu Lab-Loki veturinn 2013-2014 við miklar vinsældir. Síðan hefur Lilja einkum fengist við skrif spennusaga og er hún löngu komin í hóp okkar fremstu glæpasagnahöfunda.

Fyrsta spennusagan, Spor, kom út árið 2009 og í kjölfarið kom Fyrirgefning árið 2010. Þá tók við þríleikurinn um stöllurnar Sonju og Öglu og kom fyrsta bókin, Gildran út árið 2015, á eftir fylgdi Netið árið 2016 og Búrið árið 2017. Þessi þríleikur hefur notið alþjóðlegrar hylli með tilheyrandi útgáfu í fjölmörgum löndum og hefur kvikmyndarétturinn verið keyptur af Palomar Pictures. Önnur bók þríleiksins, Netið, var tilnefnd í fyrra til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna. Fyrsta bókin, Gildran, var síðan tilnefnd á dögunum til hinna virtu bresku glæpasagnaverðlauna CWA International Dagger, eða Gullrýtingsins, sem besta alþjóðlega bókin.

Hér má sjá Lilju fjalla um aðra bók þríleiksins, Netið, í Kiljunni, 26. október 2016: