SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. maí 2018

Ný íslensk myndasaga: Glingurfugl

Ný íslensk myndasaga, Glingurfugl, kemur út á laugardaginn, 5. maí, en hún er útskriftarverkefni Elínar Eddu í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands.

Elín Edda er 22 ára útskriftarnemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands en hún hefur fengist við teikningu og skriftir frá því hún man eftir sér. Árið 2014 gaf hún út myndasöguna Plöntuna á ganginum í samstarfi við Elísabetu Rún, myndasöguna Gombra árið 2016 og ljóðabókina Hamingjan leit við og beit mig sama ár.

Myndasagan Glingurfugl fjallar á ljóðrænan og hljóðlátan hátt um ferðalag tveggja fugla, Margrétar og Evu, til að endurheimta minningar þeirra og uppgötva eigið sjálf í dularfullum heimi sem er óvinveittur fuglum. Myndasagan er gefin út í 200 eintökum og inniheldur 64 blaðsíður af vatnslita- og blekmyndum. Bókin er sjálfstætt framhald myndasögunnar Gombra (2016), eftir sama höfund, en í Glingurfugli eru nýjar persónur kynntar til leiks.

Hægt er að panta eintak af þessari fallegu bók hjá Elínu Eddu í síma 849 8123 og skoða fleiri verk eftir hana á heimasíðu hennar.

Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands opnar kl. 14.00, laugardaginn 5. maí, á Kjarvalsstöðum. Allir velkomnir.