• Júlía Margrét Sveinsdóttir

Samfeðra - Útgáfuhóf


Steinunn G. Helgadóttir, myndlistarmaður og rithöfundur, bauð vinum og vandamönnum til fagnaðar í dag. Tilefnið var útgáfa fjórðu bókar hennar, sagnaskáldsögunnar Samfeðra. Áður hafa komið út ljóðabækurnar Kafbátakórinn og Skuldunautar og skáldsagan Raddir úr húsi loftskeytamannsins en hún hlaut Fjöruverðlaunin árið 2016 og var Steinunn valin ein af tíu nýjum röddum Literary Europe árið eftir.

Aðspurð sagðist Steinunn njóta þess að hafa alist upp í sagnafjölskyldu; pabbi hennar hafi reglulega farið með Sonatorrek og kvæði Einars Ben og mamma hennar las fyrir hana á kvöldin. Samfara skrifunum hefur Steinunn unnið sem myndlistarmaður og m.a. sinnt sýningarstjórn í Ásmundarsafni og Listasafni ASÍ.

Bókin Samfeðra er glettilega skemmtileg fjölskyldusaga sem gerist á áttunda áratug síðustu aldar. Lesandinn fylgir sögumanninum Janusi hringinn í kringum landið, í leit að ellefu hálfsystkinum. í von um að eignast þá fjölskyldu sem hann hefur alltaf langað til að eignast.

Forlagið gefur út.

Mynd: JMS