SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. apríl 2018

Fjórar skáldkonur tilnefndar til Maístjörnunnar

Í gærdag voru kynntar tilnefningar til ljóðaverðlaunanna Maístjörnunnar en af fimm tilnefndum skáldum eru fjórar skáldkonur: Elísabet Jökulsdóttir er tilnefnd fyrir Dauðann í veiðarfæraskúrnum, Bergþóra Snæbjörnsdóttir fyrir Flórída, Eydís Blöndal fyrir Án tillits, Kristín Ómarsdóttir fyrir Kóngulær í sýningargluggum og auk þessara flottu kvenna er Jónas Reynir Gunnarsson tilnefndur fyrir Stór olíuskip.

Maístjarnan er einu verðlaunin á Íslandi sem eru einungis veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Ljóðaverðlaunin eru á vegum Rithöfundasambandsins og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og skipa að þessu sinni dómnefnd Magnea J. Matthíasdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Rannver H. Hannesson fyrir hönd Landsbókasafns.

Verðlaunin verða afhent 18. maí næstkomandi, á degi ljóðsins, í Þjóðarbókhlöðunni.

Myndin er fengin af síðu Rithöfundasambands Íslands.